Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, er æfur út í ríkisstjórnina vegna algjörs stefnuleysis í baráttunni vilð kórónuveirufaraldurinn. Hann segir landið þurfa forystu.
Skoðun Gunnars Braga kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu þar sem sem hann segir lokun landsins skammarlega aðgerð ríkisstjórnarinnar. Hann segir stefnuleysið algjört á tímum faraldurs. Ríkisstjórnin viti ekkert hvað hún er að gera. „Ríkisstjórnin ákvað að loka landinu með svo skömmum fyrirvara að ferðamenn þurftu að snúa við í Leifsstöð þar sem við þeim blasti lokað land. Mánuðum saman hafa ráðherrar hamrað á því að við séum ekki sloppin, veiran muni sennilega blossa upp aftur, við þurfum að gæta okkar, vera viðbúin annarri bylgju,“ segir Gunnar Bragi.
Algerlega stefnulaust, algerlega áætlanalaust og algerlega án framtíðarsýnar.
Þingflokssformaðurinn segir stjórnina hafa alfarið hafnað samstarfi við Miðflokkinn þegar kemur að því að koma þjóðinni sem best útúr faraldrinum. Hann skilur illa alla þá fjármuni sem veittir voru til að auglýsa landið sem áfangastað ferðamanna sem hurfu á einu augabragði þegar landinu var lokað á einni nóttu. „Milljarðar hafa runnið úr ríkissjóði vegna faraldursins, meðal annars í að auglýsa landið, plástra vinnumarkaðinn, greiða bætur, öskra í kassa. Algerlega stefnulaust, algerlega áætlanalaust og algerlega án framtíðarsýnar. Hvers konar vinnubrögð eru það að segjast búast við að veiran blossi upp aftur en hafa svo engar áætlanir um viðbrögð?“
Gunnar Bragi segir ljós að ríkisstjórnin viti ekkert hvert hún er að fara í kórónuveirufaraldrinum. Ekkert frekar en í öðrum málum. Hann hefur áhyggjur af því að bráðum verði gengið að eignum fólks vegna fjárhagsvanda sem skapast vegna Covid-19. „Langtímastefnan er ekki til. Hvernig eiga íslensk heimili og fyrirtæki að lifa af þegar ríkisstjórnin býr til óvissu í stað þess að reyna að eyða henni? Á landið að vera áfram lokað? Hver er sýn þessarar ríkisstjórnar? Hvar er forystan fyrir þjóðina þegar á þarf að halda? Nú þarf forystu,“ segir Gunnar Bragi ákveðinn.