Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Mitt nafn var framan af nær aldrei nefnt í tengslum við forsetaembættið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég skal koma í viðtal við Mannlíf en legg til að við göngum á Úlfarsfell og viðtalið fari þar fram,“ svarar Guðni Th. Jóhannesson Mannlífi um viðtal fyrir komandi forsetakosningar.

Þetta skilyrði forsetans var í senn kærkomið og sjálfsagt. Ég hafði tveimur árum fyrr farið þess á leit við forsetann að hann yrði einskonar leynigestur í göngu Fyrsta skrefs Ferðafélags Íslands á fjallið. Það var með hálfum huga að ég bar upp erindið við hann þá daga en forsetinn samþykkti mér til gleði. Guðni fór á kostum á efsta tindi þar sem hann flutti tölu fyrir 70 manna hóp og sagði frá næstum óbærilegri feimni sinni á unglingsárum.

Mynd á forsíðu / Hallur Karlsson

Enginn nefndi Guðna

Þegar dró að kosningum árið 2016 var vinsæll samkvæmisleikur að benda á hugsanlega frambjóðendur. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði lýst yfir að hann myndi hætta eftir 20 ár á Bessastöðum. Ýmsir voru nefndir framan af en ekki þó Guðni.

„Mitt nafn var framan af nær aldrei nefnt í tengslum við forsetaembættið. Það er stundum sagt í gamni að í aðdraganda forsetakjörs sé það nánast móðgun ef maður er ekki orðaður við framboð,“ segir Guðni í léttum dúr.

En svo breyttist allt og skyndilega var nafn Guðna komið í umræðuna. Í apríl 2016 komust uppljóstranir tengdar Panama-skjölunum í hámæli. Guðni var þá kallaður til álitsgjafar í fréttum sem sagnfræðingur og fékk þjóðarathygli. Honum hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa notað Ríkisútvarpið sem stökkpall á Bessastaði.

- Auglýsing -

„Ég get aðeins svarað sannleikanum samkvæmt að ég sá ekki fyrir frekar en aðrir þessa uppljóstrun. Ég varð við beiðni ýmissa fjölmiðlamanna, eins og margoft áður, um að segja skoðun mína á rás viðburða. Á þessum tíma í aðdraganda forsetakjörs höfðu margir stigið fram og lýst áhuga eða framboði til þessa embættis. Enginn hafði fengið mikinn byr í seglin. Ég var þarna í ákveðnu sviðsljósi og fékk áskoranir og hvatningu um að bjóða mig fram. Þarna stóð ég andspænis því að ef ég myndi bjóða mig fram til forseta væru ágætis líkur á því að ég hefði erindi sem erfiði. Ég lét kanna jarðveginn og við tóku ævintýralegir dagar. Eftir að ég tilkynnti framboð mitt sá þáverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, sig um hönd og sóttist eftir endurkjöri. Davíð Oddsson, ritstjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, var í hópi frambjóðenda. Ég sá því fram á að keppa við þessar tvær stórkanónur. Báðir áttu þeir að baki magnaðan feril og mikla reynslu. Seinna hætti Ólafur Ragnar aftur við en margir öflugir frambjóðendur tókust á um embættið.“

„Davíð á merkan feril í stjórnmálum að baki.“

Davíð og ósigurinn

Guðni sigraði með nokkrum yfirburðum eða með rúmlega 39 prósenta fylgi. Athygli vakti að Davíð Oddsson, sem rak mjög harðskeytta baráttu, sérstaklega gegn Guðna, fékk aðeins brot af því fylgi sem stuðningsmenn hans höfðu reiknað með. Fleyg urðu ummæli Guðna þegar hann spurði Davíð hvort hann hefði enga sómakennd. Guðni segir átök þeirra tveggja ekki hafa skilið eftir nein ör af sinni hálfu. Davíð hafnaði í fjórða sæti með aðeins 13,75 prósenta fylgi og stærsta tapið á ferli hans varð að veruleika. Guðni segir Davíð hafa tekið ósigri sínum vel.

- Auglýsing -

„Mér fannst Davíð rísa hátt á kosningakvöldinu þegar ósigur hans blasti við. Okkar leiðir hafa ekki legið mjög saman síðan en við höfum þó hist og ég geri mér ekki far um að forðast hann. Davíð á merkan feril í stjórnmálum að baki. Þegar sagan verður skrifuð mun hann teljast í hópi þeirra stjórnmálamanna sem mótuðu okkar samfélag mest á seinni hluta 20. aldar og fram á þá 21.“

Lestu viðtalið við Guðna í Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -