Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Man lítið eftir slysinu og er fegin að vera á lífi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Linda Guðlaugsdóttir er þess fullviss að hjálmur hafi bjargað lífi hennar þegar hún lenti í hjólreiðaslysi miðvikudaginn 24. júní. Linda, sem er enn að jafna sig eftir slysið, vill varla hugsa þá hugsun til enda hvað hefði gerst hefði hún ekki verið með hjálm á höfðinu og hvetur allt reiðhjólafólk til að huga vel að örygginu.

„Hjálmurinn bjargaði lífi mínu, það er bara þannig. Hefði ég ekki verið með hann á höfðinu, þá væri þetta eflaust líf í breyttri mynd, eða þaðan af verra,“ segir Linda Guðlaugsdóttir, grafískur hönnuður á Birtíngi, sem lenti í hjólreiðaslysi miðvikudaginn 24. júní og endaði á spítala, en fjölmiðlar greindu frá atvikinu.

Linda var að hjóla ásamt félaga sínum í Skerjafirði síðla dags, þegar hurð á kyrrstæðum bíl var opnuð fyrir akstursstefnu hennar. „Ég er að hjóla eftir hjólabrautinni og skyndilega opnast bílshurð. Það voru engir bílar á ferð þarna í götunni þannig að ég átti ekki von á þessu. Er á einhverjum 20 kílómetra hraða og svo nálægt bílnum að ég get ekki stoppað,“ lýsir hún.

„Ég man ekkert hvernig ég lenti en ég verð hins vegar vör við að það eru menn í kring að stumra yfir mér og mig minnir að einhver spyrji: Viltu sjúkrabíl?“

Áreksturinn var svo harkalegur að Linda missti meðvitund. „Þegar ég ranka aftur við mér ligg ég á grúfu á jörðinni og mér líður mér eins og ég sé með blý á höfðinu, höggið var svo mikið. Ég man ekkert hvernig ég lenti en ég verð hins vegar vör við að það eru menn í kring að stumra yfir mér og mig minnir að einhver spyrji: „Viltu sjúkrabíl?“ Og mér finnst ég þurfa að færa mig af götunni, en ég man ekkert hvort það tókst. Einhver býður mér vatn á ensku: „Clean water?“ Og ég man að ég þigg vatnssopa. Svo næ ég að senda skilaboð í símanum á vin minn, sem var eitthvað á undan mér: „Datt.“ Þá er ég sest upp og áður en ég veit af er sjúkrabíll kominn á vettvang.“

Linda segist hafa átt erfitt að ræða við sjúkraflutningamenninna sökum þess hversu illa áttuð hún var. Þar sem talið var að hún hefði fengið heilahristing var hún flutt með hraði á bráðadeild. „Þar var farið með mig inn í lítið herbergi þar sem ég fékk meðal annars æðalegg og blóðþrýstingurinn mældur og svo var ég send í heilamyndatöku. Á meðan ég beið fékk ég nokkur slæm svimaköst og þurfti á aðstoð halda, því ég varð svolítið hrædd, og það var haldið ótrúlega vel utan um mig.“ Hún segir myndirnar hafa sýnt smá mar á heila. „Út frá þeim dró læknirinn þá ályktun að ég væri með vægan heilahristing og taldi því óhætt að útskrifa mig. Þá var klukkan rúmlega átta um kvöld. Mig svimaði töluvert en komst heim með aðstoð og þegar þangað var komið ældi ég bara öllu.“

Er enn illa verkjuð

- Auglýsing -

Spurð hvernig henni líði núna, rúmri viku eftir slysið, segist Linda enn vera að jafna sig eftir. „Heilsan er svona upp og ofan,“ viðurkennir hún. „Ég finn miklu meira til núna en fyrst í stað eftir slysið. Er með hausverk og verki í bakinu og mér er illt í hnjánum. Verkirnir eru að koma meira fram nú þegar bólgurnar eru að hjaðna og ég þarf að taka lyf til að halda þeim verstu niðri. Reyndar er ég betri suma daga en aðra. Einn daginn finnst mér ég vera skárri til heilsunnar, þann næsta kemur smá bakslag, svo líður mér aftur betur og þá verður annað bakslag. Þetta kemur í bylgjum. Svo þreytist ég hratt fyrir framan tölvuskjá sem setur svolítið strik í reikninginn þar sem ég starfa sem grafískur hönnuður og vinn mikið í tölvu. Ég hef það samt þokkalegt og reyni bara að taka þetta í skrefum,“ segir hún hörð af sér.

Hvað er reiknað með að þú verðir lengi að ná aftur fullum bata? „Það er eiginlega erfitt að svara því,“ segir hún hreint út, „þetta er búið að vera svo óútreiknanlegt.“

Spurð hvort hún sé vön hjólreiðakona eða hvort eitthvað viðlíka hafi hent hana áður hristir Linda höfuðið og segist aldrei hafa lent í öðru eins. Nei, ég hef aldrei lent í neinu af þessu tagi. Ég er bara frekar nýbyrjuð að hjóla eftir langt hlé og hef þess vegna verið að fara varlega. Er á rafmagnshjóli, en var reyndar ekki að nota rafmagnið þegar ég lenti í þessu. En svona eru slysin. Þau gerast sama hvað maður passar sig. Gera ekki boð á undan sér.“

- Auglýsing -

Telur hjálminn hafa bjargað lífi sínu

Linda viðurkennir fúslega að eftir slysið sé hún svolítið smeyk í umferðinni. „Ég er pínulítið hrædd að labba í umferðinni,“ segir hún hreinskilin. „Ég er ekki byrjuð að hjóla og hef ekki einu sinni séð hjólið eftir slysið. Lögreglan flutti það heim með vini mínum. Það er bara heima í geymslu.“

Hún segist þess fullviss að hjálmurinn, sem hún var með á höfðinu þennan örlagaríka dag, hafi bjargað lífi hennar og það sé það sem mestu máli skiptir. „Þetta er svona hjálmur sem er búinn sérstakri heilahristingsvörn. Hjúkrunarfræðingarnar hrósuðu mér fyrir að hafa vera með hann.

Í dag er ég mjög ánægð með að hafa keypt hann þótt hann hafi verið aðeins dýrari. Ég veit ekki hvar ég væri eiginlega í dag ef ég hefði ekki gert það og ég ætla að fá mér annan um leið og ég byrja að hjóla aftur,“ segir hún og hvetur allt hjólreiðafólk til að vera með hjálm á höfðinu. Hjálmurinn komi ekki í veg fyrir slys en hann geti varið fólk fyrir alvarlegum höfuðáverkum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -