„Ókey nú er ég brjáluð. Það gerist ekki oft yfir íþróttum. En núna er ég svo hoppandi að það sýður á mér. Ég ætla að horfa á þennan leik og sjá Ísland rústa þessu.“ Þetta segir rithöfundurinn Kamilla Einarsdóttir á Facebook-síðu sinni en það fauk í hana eftir að hafa lesið um Rob Dorsett, íþróttafréttamann Sky Sports, sem staddur er hér á landi í tengslum við landsleik Íslands og Englands á laugardaginn.
Dorsett hefur farið mikinn og sagt Íslendinga taka illa á móti ferðamönnum, hér sé ekkert boðið upp á nema eintómt snakk. „Eftir að hafa borðað ávexti, flögur og hnetur í tvo daga, og útrúnnið Sushi sem við keyptum í verslun þegar við komum til landsins tók það okkur fjóra tíma að fá kebab-stað hérna í nágrenninu til að senda okkur pítsu, klukkan hálf eitt að nóttu til,“ hefur Vísir eftir Dorsett meðal annars.
Ummæli hans hafa vakið úlfúð meðal margra Íslendinga og Kamilla er ein þeirra. „Þessi breski blaðamaður má segja hvað sem hann vill um það hvernig er tekið á móti ferðamönnum hérna. Hann má mín vegna rakka niður þetta landslið og landið bara eins og það leggur sig. En hann gekk of langt þegar hann fór að tala illa um að borða ekkert nema snakk í öll mál. Það er persónuleg árás á mig og minn lífsstíl,“ segir hún.
Hún minnir svo á alræmt atvik á HM árið 1962. „Þessi jólasveinn er líka greinilega búinn að gleyma eða hefur ekkert lært af opnunarleiknum á HM í Chile 1962 þar sem allt varð brjálað. Löggan þurfti sko að koma fjórum sinnum inn á völlinn því allir slógust svo mikið og voru með svo mikinn dólg. Það allt byrjaði á því að ítalskir blaðamenn voru að rakka niður Chile og Santiago. Og hvernig fór það? Jú Chile vann auðvitað 2-0 Svo við bara sjáumst á Rauða Ljóninu, þegar þessi leikur fer fram og ég ætla að öskra allan tímann á þennan drulludela með munninn og fangið alveg troðfullt af snakki!“