Leiðari úr 9 tbl. Gestgjafans
Sumarið er uppáhaldstími flestra enda bíða margir Íslendingar eftir því nánast allan veturinn. Þetta sumar var sérstaklega kærkomið eftir langan og erfiðan vetur sem verður án efa skráður á spjöld sögunnar en það verður sumarið sennilega líka. Þess verður ef til vill minnst sem sumarið sem nánast allir Íslendingar fóru í frí á sama áfangastað, Ísland. Það er vel, eins og Alma landlæknir kemst svo oft að orði. En þrátt fyrir að þetta sumar hafi þotið fram hjá og haustið sé handan við hornið þá finnst mér margir tala um að þeir hlakki alltaf til haustsins. Það er nefnilega eitthvað notalegt við þennan árstíma, laufin á trjánum fá á sig fallegan lit, trén slúta undan berjum, daginn er tekið að stytta og myrkrið heilsar með notalegri kveðju, það er kominn tími til að kveikja á kertum. Nú og svo má ekki gleyma allri uppskerunni; nýjar kartöflur, rófur, gulrætur og blómkál eru meðal þess sem getur kætt okkur á haustin. Þetta er tíminn til að borða staðbundið, það er bæði gott og umhverfisvænt.
Krafan um að við sem neytendur tökum ábyrgð, með því að huga að þeim umhverfisáhrifum sem vörurnar sem við kaupum valda, verður sífellt háværari. Margir eru duglegir og gefa sér tíma til að lesa á umbúðir og reyna eftir bestu getu að stilla neyslunni í hóf og velta fyrir sér hvaðan hlutirnir koma og hvernig þeir eru framleiddir. Ég held að langsamlega flestir reyni að gera eitthvað til að sporna við neikvæðum umhverfisáhrifum, hvort sem það er að flokka rusl, nota margnota poka, borða staðbundið eða keyra á rafmangsbíl. En það er eitt sem mér finnst í algjörri þversögn við alla umhverfisumræðu og það er gríðarleg aukning á neyslu drykkja sem fluttir eru inn og ber þar helst að nefna orkudrykkina. Þeir eru oft í óumhverfisvænum umbúðum, fluttir langt að og skilja eftir sig mikið sótspor að ekki sé minnst á öll aukefnin sem talin eru upp á innihaldslýsingunni. Aukningin er svo mikil að kælar og drykkjarhillur matvöruverslana blása svo út að sums staðar eru þær orðnir töluvert stærri en grænmetis- og ávaxtasvæðið. Fyrir skemmstu lenti ég í umræðu við ungling um kjötneyslu sem viðkomandi sagði að væri bókstaflega að fara með jörðina. En á borðinu fyrir framan hann voru, tja, um það bil tíu dósir og flöskur af innfluttum orkudrykkjum. Ég brosti bara og sagðist vita ýmislegt um ábyrga kjötneyslu og að allir ættu að stilla neyslu á kjöti í hóf en bað viðkomandi að reikna fyrir mig sótsporið á dósunum fyrir framan hann og svo gekk í burtu en hef ekkert heyrt í unglingnum síðan.
Núna þegar skólarnir eru byrjaðir fara allir að huga að nesti sem hefur eins og svo margt annað breyst í tímanna rás. Ég man til dæmis vel eftir nestistímunum í Fossvogsskóla enda fannst mér þeir skemmtilegasti hlutinn af skólahaldinu. Ég var oft með flatkökur með hangikjöti, ávexti og sveittar brauðsneiðar með osti eða malakoffi. Fyrstu árin af skólagöngunni var ég með mjólk eða djús í brúsa eða á flösku. Þessi ílát voru ekki keypt sérstaklega fyrir nestið heldur var það nýtt sem fyrir var á heimilinu, oft var það tómatsósuflaska og stundum sjampóbrúsar, já og þeir voru misvel þvegnir, stundum kom fyrir að smávegis sápubragð væri í mjólkinni, mig minnir að Timotei-sjampó með eplabragði hafi verið skást. En svo kom jákvæð breyting og mjólkurmiðarnir hófu innreið sína í skólana og þá gat maður fengið kalda mjólk eða jógúrt annað slagið enda ekki óalgengt að drykkirnir brotnuðu í töskunum með tilheyrandi óþægindum og það verður að segjast eins og er að mjólk er betri köld en volg. Allt tekur breytingum en mjólkurmiðarnir voru að mínu mati mun jákvæðari þróun en orkudrykkjaneyslan. Ég fæ eiginlega bara vont bragð í munninn að hugsa um allt það magn sem flutt er inn af alls konar drykkjum þegar við eigum eitt besta vatn í heimi … gott bæði með og án sápu, hreint lostæti.