Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Tímalaus hönnun og umhverfisvæn framleiðsla

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Happie er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sérsmíði á húsgögnum fyrir heimili, hótel, veitingastaði og önnur fyrirtæki. Sérhæfnin felst ekki síst í járnsmíði og smíði með gegnheilum við. Hjónin Hafsteinn Helgi Halldórsson og Guðrún Agla Egilsdóttir eiga og reka fyrirtækið Happie og hafa ótrúlega gaman af nýjum hugmyndum og sjá hvað ímyndunaraflið getur framkallað.

Einstakur lífsstíll sem heillar, fjölskyldan við Hafravatn kann að lifa lífinu til fulls og láta drauma sína rætast.

Hver sagan að bak við tilurð fyrirtækisins ykkar? „Fæðing fyrirtækisins átti sér stað snemma árið 2015 þar sem við vorum að smíða húsgögn inn í litla kjallaraíbúð í Vesturbæ Reykjavíkur sem við bjuggum í þá. Myndir af mununum rötuðu á Internetið og í kjölfarið var fólk byrjað að banka á dyrnar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og í dag erum við búin að koma okkur upp einbýlishúsi við Hafravatn ásamt því að vera með tvö verkstæði í Kópavoginum.“

Þið hafið skapað ykkur ákveðna sérstöðu með ykkar hönnun, getur þú sagt okkur nánar frá ykkar áherslu í hönnuninni og framleiðslu? „Við erum svo ótrúlega heppin með það að þeir sem finna okkur og koma í heimsókn á verkstæðið eru yfirleitt fólk með ákveðnar hugmyndir og hafa sama brennandi áhuga og við, skapa eitthvað einstakt sem gleður augað ásamt því að hafa gott notagildi. Svo virðist einnig sem rísandi sameiginlegur andi í samfélaginu sé fyrir því að efla íslenskt atvinnulíf og framleiðslu, enda eru ótrúlega margir aðilar sem koma að okkar fyrirtæki í heildarmyndinni. Ég tel, á okkar sviði, af minni reynslu í framleiðslu, að við séum framar mörgum nágrannalöndum okkar hvað varðar getu og hæfileika. Orðin íslensk hönnun og framleiðsla megum við klárlega hampa bein í baki,“ segir Hafsteinn og er bjartsýnn á framtíðina.

,,Við sérhæfum okkur mikið í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu.“

Hvernig myndir þú lýsa hönnunarstílnum ykkar? „Varðandi hönnunina þá er það samstarfsverkefni hverju sinni allra á verkstæðinu, Agla hefur verið augað í fyrirtækinu en við tökum flestar ákvarðanir í sameiningu og besta hugmyndin framleidd. Við erum líka það heppin að oft eru kúnnar okkar mjög skapandi og flestar ákvarðanir teknar í samstarfi við þá. Happie-stíllinn á að koma með hlýleikann frá náttúrunni inn á heimilið og blanda saman lífrænum línum náttúrunnar við einföld form. Takmarkið með hönnun okkar er alltaf að borðið sé jafnfallegt og það er gott að sitja við það. Það er hin gyllta blanda í hönnun – þægindi og fegurð.“

Eru nýungar á döfinni? ,,Hingað til höfum við einungis verið með verkstæði og erum við nýbúin að stækka við okkur og ráða nýjan starfsmann sem kemur ferskur inn með mikla reynslu frá meginlandinu. Þetta er mikil sérhæfing og hef ég leitað mikið erlendis eftir svörum við spurningum sem kunna að vakna og er því dásamlegt að fá ferskan blæ frá Evrópu á verkstæðið.“

Íbúð Hafsteins og Guðrúnar Öglu er Björt og falleg.

Hafsteinn og Agla horfa björtum augum til framtíðarinnar og ætla að halda áfram að vaxa og dafna. „Á dögunum auglýstum við eftir áhugasömum fjárfestum í Happie, og settum þau skilyrði að brennandi áhugi á íslenskri hönnun og handverki væri til staðar og hefur ekki staðið á fyrirspurnum. Það er ótrúlega gaman að sjá hversu margir hafa fylgst með okkur vaxa og hafa trú á okkur hjá Happie. Við höfum ekki náð að svara öllum en erum komin í viðræður við ótrúlega spennandi og skemmtilegt fólk með stórkostlegar hugmyndir. Þetta er samt skref sem við erum að skoða vel og það þarf að vera góður andi til staðar svo svona gangi upp.“

„Annars höfum við sjálf verið að fara í stækkunarframkvæmdir til að anna eftirspurn og bættum við okkur öðru verkstæði í Kópavoginum og erum að vinna að sýningarsal. Hingað til hefur fólk bara haft samband og kíkt við á verkstæðið, það er alltaf gaman, en ég tel að það sé margt fólk sem langar til að geta komið og séð fullkláraða vöru. En það kostar sitt að framleiða hvert húsgagn og höfum við sjálf ekki efni á að kaupa sýningareintök af okkar fallegustu vörum og hafa til sýnis, það var einn af hvötunum á bak við það að skoða það að fá fjárfesta inn og er ég viss um að út úr því komi einhver snilld.“

- Auglýsing -
Hafsteinn og Guðrún Agla hafa komið sér vel fyrir í húsi síni við Hafravatn.

Leggið þið sérstaka áherslu á umhverfisvæna framleiðslu? „Við sérhæfum okkur í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu. Staðlar eru orðnir það strangir í dag á skógrækt og er efniviðurinn okkar merktur þeim staðli sem vottar að framleiðsla þess efnis er að framleiða fleiri tré en hún fellur. Timbur er eitt það umhverfisvænsta byggingarefni sem um getur. Við höfum líka verið dugleg að planta uppi í landi. Við notum einungis efni sem eru ekki eitruð fyrir húð eða við innöndun, við viljum hafa ferskan blæ öllum stundum á verkstæðinu hjá okkur. Olían okkar er til dæmis unnin úr plöntum en ekki jarðolíu.“

Stílhrein hönnun einkennir hús hjónanna.

Fallega húsið ykkar við Hafravatn heillar og fangar augað. Getur þú sagt okkur aðeins frá hugsjónum ykkar og lífsstíl? „Fyrir algjöra tilviljun skoðuðum við fasteignavefinn árið 2015 rétt áður en allt fór af stað þar og þar var þessi lóð búin að hanga inni. Við fórum og skoðuðum og gersamlega urðum heilluð við fyrstu sýn. Allt í bláberjum, lækur og ótrúlegt útsýni. Þetta er líka skammt frá bænum og er ég til að mynda sneggri heim í bláberjabrekkurnar heldur en í Vesturbæinn frá verkstæðinu. Hugmyndin með húsinu var alla tíð fjölskylduandi og njóta með fuglunum og dýrunum í náttúrunni. Pælingin var einnig allan tímann að gera þetta að stað þar sem fólk getur komið, slakað á og hlaðið sig áður en það heldur aftur inn í borgarlífið. Það hefur sko sannarlega virkað.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -