„Ég er ansi sjokkeraður eftir þetta og lemstraður. Sem betur fer virðist ég ekki verða fyrir varanlegum meiðslum og sem betur fer er ég ekki ekki höfuðkúpubrotinn. Ég fékk auðvitað heilahristing þannig að ég hef sofið mikið eftir þetta,“ segir Hreinn í samtali við Mannlíf.
Málsatvikum lýsir Hreinn þannig að í fyrstu hafi verið barið harkalega að dyrum heima hjá honum, en svo skömmu síðar var rúða brotin þannig að inn ruddust fjórir ofbeldismenn. Honum þykir mjög sárt að vita til þess að litli bróðir sinn sé einn árásarmannanna. „Þeir draga mig út og berja mig ítrekað í höfuðið, hrygginn og handlegginn með kúbeini. Það hefði mjög auðveldlega getað farið verr og ég hefði auðveldlega getað dáið í árásinni,“ segir Hreinn.
Eitt af vitnunum að árásinni ræddi málið við Mannlíf. Viðkomandi vill ekki láta nafn síns getið, en vitnið sá árásina úr stuttri fjarlægð. „Ég heyrði þá banka en svo ruddust þeir allir inn. Þeir ráðast allir á hann um leið, fjórir vopnaðir gegn einum. Ég trúði þessu varla. Þeir voru allir vopnaðir á einhvern hátt, með glerflöskur og kúbein, og lúbörðu hann fyrir framan kærustu hans. Það er magnað að hann hafi verið með rænu eftir árásina. Hann var allur út í blóði með risastór sár út um allt,“ segir vitnið.
Þrír árásarmannanna voru handteknir fljótlega eftir árásina og sitja nú í varðhaldi lögreglu. Hreinn telur að það hafi orðið honum til bjargar að bæði hafi nágranni sinn hrópað á árásarmennina og einnig ófrísk kærasta Hreins. Það varð einhvern veginn til þess að árásarmennirnir hættu á endanum segir hann. „Það bjargaði lífi mínu. Á meðan þetta átti sér stað var ég á svo miklu adrenalíni að ég áttaði mig ekki á hættunni fyrr en eftir á og hvað þessi árás var fólskuleg. Bróðir minn var einn árásarmannanna og það er sárt því ég hef alltaf verið góður við hann og reynt að hjálpa honum. En ég neita að trúa því að hann hafi gert þetta allsgáður. Ég get ekki sagt annað en að ég sé þakklátur fyrir að vera á lífi. Kærastan mín sem er ólétt var alveg harmi slegin,“ segir Hreinn.
Vitnið horfði á eftir árásarmönnunum hlaupa í burtu frá ofbeldisverkinu áður en lögreglan kom á staðinn. Viðbragðstími hennar er eitthvað sem vitnið setur spurningamerki við. Aðspurður telur viðkomandi að það hafi verið hátt í 10 manns vitni að árásinni. „Þegar hringt var í 112 tók alveg 2-3 mínútur að lýsa því hvað gerðist og þá var gefið samband við lögregluna þar sem farið var í gegnum það sama. Ég helst að það sé alveg hægt að drepa mann á svona tíma. Ótrúlegt miðað við ástandið á manninum að hann hafi verið með rænu eða bara yfirhöfuð lifandi,“ segir vitnið.