Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Lyklastríð presta á Eskifirði: „Hann jarðar meira en við prestarnir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Davíð Baldursson, fráfarandi sóknarprestur á Eskifirði, virðist eiga erfitt með að láta eftir brauðið til arftaka sinna. Að minnsta kosti er hann enn með lyklavöldin að prestaskrifstofunni og hleypur enn til flestra verka sem prestur í bænum. Prestarnir sem tóku við af honum fyrir tæpu ári síðan hafa fengið nóg og kvartað til biskups.

Í október í fyrra tóku þau Benjamín Hrafn Böðvarsson og Erla Björk Jónsdóttir við sem sóknarprestar er Davíð lét af embætti vegna aldurs. Nýju prestunum var hins vegar tilkynnt að fráfarandi prestur héldi prestsskrifstofunni. Benjamín og Erla kvörtuðu yfir því við sóknarnefndina sem lofaði að þau fengju skrifstofuna afhenta. Úr því hefur þó ekki enn orðið þrátt fyrir að næstum ár sér liðið frá prestaskiptunum og deila sóknarprestarnir skrifstofu með kirkjuverði og starfsfólki menningarskrifstofu Fjarðarbyggðar.

Þetta er hið leiðinlegasta mál og stórfurðulegt

Benjamín bendir á að tæknilega séð hafi þau aðgang að prestaskrifstofunni en það sé alveg ljóst að hún sé ekki þeirra heldur Davíðs. Aðspurður telur hann það augljóst að sjálf prestsskrifstofan eigi að vera fyrir núverandi sóknarpresta. „Þegar við vorum sett inn í embættið fengum við að vita það að fráfarandi sóknarprestur yrði áfram með skrifstofuna. Þetta er hið leiðinlegasta mál og stórfurðulegt. Á skrifstofunni er skrúðinn og flest vinnutækin okkar. Þegar við héldum að þetta væri að leysast, eftir framkvæmdir sem stóðu yfir, þá breyttist ekkert því hann kom aftur inn með dótið sitt og búin til önnur skrifstofa fyrir okkur sem við deilum með öðrum. Þetta hefur mér þótt afar leiðinlegt,“ segir Benjamín.

Benjamín Hrafn Böðvarsson prestur. Mynd / Þjóðkirkjan
Erla Björk Jónsdóttir prestur. Mynd / Þjóðkirkjan

Benjamín ítrekar að fátt hafi breyst í stöðunni þrátt fyrir kvartanir til bæði sóknarnefndar og biskups. Öllu verra þykir honum þó að fráfarandi sóknarpresturinn hlaupi enn til flestra embættisverka í bænum. „Staðan er því miður sú að hann jarðar meira en við prestarnir. Við höfum reynt allt hvað við gátum til að leysa þetta með skrifstofuna og nú er boltinn hjá Biskupsstofu,“ segir Benjamín.

Davíð, fráfarandi sóknarprestur, viðurkennir aðspurður að hafa enn aðstöðu á sjálfri prestaskrifstofunni. Hann bendir á að það sé með leyfi sóknarnefndar og að það sé ekkert rangt við að hann sinni prestembættum áfram. „Það er bara þannig að allir emerítar hafa heimild til að embætta. Í þeim tilvikum sem maður er á staðnum eða beðinn um verkið þá hef ég það leyfi. Frá mínum bæjardyrum séð er ekkert sem varnar þeim að komast inn á skrifstofuna. Ég hef haft heimild sóknarnefndar til að vera þarna og hafa aðgang að kirkjunni ef ég er beðinn um að þjónusta eitthvað,“ segir Davíð.

Á endanum verður það líklega Agnesar M. Sigurðardóttur biskups að leysa prestadeiluna á Eskifirði því málið er að minnsta kosti komið inn á hennar borð eftir að Benjamín og Erla sendu þangað inn erindi fyrir nokkrum vikum.

Deilumál prestanna á Eskifirði er nú á borði Agnesar biskups.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -