Mánudagur 25. nóvember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Samstarf við MIT DesignX um sprett í upphafi Snjallræðis

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Svafa Grönfeldt og samstarfsfélagar hennar frá MIT DesignX munu sjá um sprett í upphafi nýja samfélagshraðalsins Snjallræðis, viðskiptahraðals fyrir samfélagslega nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, sem hóf göngu sína síðastliðið haust og haldinn var á vegum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Svafa Grönfeldt og samstarfsfélagar hennar frá MIT DesignX munu sjá um sprett í upphafi nýja samfélagshraðalsins Snjallræðis.

Svafa kynnti samstarfið á fundi í Höfða nú í vikunni, en hún er fulltrúi í ráðgjafaráði Snjallræðis, ein stofnenda nýjasta viðskiptahraðalsins við MIT, DesignX, og meðstofnandi MET sjóðsins sem er fjárfestingasjóður fyrir sprota með aðsetur í Cambridge. Á fundinum voru samankomnir aðilar frá íslenskum fyrirtækjum sem hafa látið til sín taka á sviði samfélagsábyrgðar, en tilgangur fundarins var að efna til aukins samstarfs við Snjallræði og veita öflugum íslenskum fyrirtækjum vettvang til þess að láta enn frekar að sér kveða á sviði samfélagslegrar nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi.

„Hafa mikið fram að færa í samfélagsmálum“
Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar tók á móti hópnum í Höfða og bauð gesti velkomna, en á fundinum tóku til máls aðilar sem tengjast hraðlinum með ýmsum hætti.

Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild og fulltrúi í ráðgjafaráði Snjallræðis, var einn þeirra. Á fundinum fór Magnús Þór meðal annars yfir markmið og tilgang Snjallræðis, sem er að veita þeim einstaklingum sem brenna fyrir bættu samfélagi vettvang til þess að þróa hugmyndir sínar áfram og finna þeim sjálfbæran farveg svo þær geti blómstrað og dafnað. „Íslensk fyrirtæki og atvinnulíf hafa mikið fram að færa í samfélagsmálum og þess vegna er afar mikilvægt að virkja þann kraft og þekkingu og nýta inn í vettvang eins og Snjallræði,“ benti hann á.

„Í hröðlum er hægt að prófa fleira, hraðar og ódýrar en áður. Hraðlar eru því afar mikilvægt tæki sem við ættum að vera óhrædd við að nýta fyrir samfélagslega nýsköpun, ekki síður en fyrir önnur sprota- og vaxtarfyriræki,” sagði hann ennfremur og bætti við að með öflugu samstarfi og góðum vettvangi væri hægt að skapa gríðarleg tækifæri í samfélagslegri nýsköpun hér á landi.

„Íslensk fyrirtæki og atvinnulíf hafa mikið fram að færa í samfélagsmálum og þess vegna er afar mikilvægt að virkja þann kraft og þekkingu og nýta inn í vettvang eins og Snjallræði.“

Verðmæti og nýjar lausnir
Á fundinum sagði Fanney Karlsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu og formaður verkefnastjórnar Heimsmarkmiða frá tækifærunum sem felast í aukinni áherslu Snjallræðis á Heimsmarkmiðin og hvernig megi nýta þau til grundvallar við mótun nýrra hugmynda og þróun stefnu fyrirtækja á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.

Góð mæting var á fundinum.

Hrólfur Jónsson, forstöðumaður Vísindagarða, sagði frá spennandi samstarfi við Snjallræði en görðunum er ætlað að tengja saman frumkvöðla, fyrirtæki og háskóla, stórefla þar með hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og viðskiptaþróun og skapa um leið verðmæti og nýjar lausnir sem munu koma samfélaginu til góða.

- Auglýsing -

Aukið tækifæri til að þróa eigin hugmyndir áfram
Þá deildu Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Thorlacius, sem báðar tóku þátt í Snjallræði síðastliðið haust, reynslu sinni af þátttöku í hraðlinum sem gaf þeim aukið tækifæri til þess að þróa eigin hugmyndir áfram, aðgang að mikilvægu tengslaneti og staðfestingu á ágæti eigin hugmynda.

Kynnast nýjustu nálgunum
Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, Listaháskóli Íslands, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskólinn í Reykjavík og Icelandic Startups standa að Snjallræði en framkvæmd hraðalsins er í höndum Höfða friðarseturs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, í samstarfi við prófessora við MIT DesignX. Snjallræði er þegar stutt af Landsvirkjun, en víðtækt samstarf við atvinnulífið er mikilvægt svo skapa megi öflugan vettvang fyrir samfélagslega nýsköpun hér á landi. Frekari upplýsingar um hraðalinn er hægt að afla sér á www.snjallraedi.is

Á viku tímabili munu teymin í Snjallræði fá að kynnast nýjustu nálgunum á sviði samfélagslegrar nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi og öðlast tækifæri til þess að sannreyna eigin hugmyndir og kryfja þær til mergjar í krefjandi vinnustofum sem byggðar verða á fjórum grunnstoðum MIT DesignX, Understand – Solve – Envision – Scale, en sprettur verður styrktur af MIT Industrial Liaison Program (ILP), í gegnum samstarf Alvogen og Háskólans í Reykjavík við Snjallræði.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -