Í byrjun maí auglýstu Landsbankinn og Arion banki að nú stæði viðskiptavinum þeirra til boða að tengja Visa-greiðslukort sín við Apple Pay, greiðslulausn bandaríska tæknirisans Apple.
Snjalltæki eru greiðslumiðill framtíðarinnar og hefur Valitor tekið forystu í þessum breytta greiðsluheimi sem rímar vel við markmið fyrirtækisins. Fyrirtækið gegndi lykilhlutverki í að koma Apple Pay til Íslands en það gerir viðskiptavinum Landsbankans og Arion banka kleift að borga hratt og örugglega með símanum, úrinu, á Netinu og í öppum með því að tengja Visa-greiðslukort sín við Apple Pay.
Að sögn Nínu Þrastardóttur, verkefnastjóra hjá Valitor, er sú innleiðing bara byrjunin og segir hún að gaman verði að sjá hvað fylgi í kjölfarið. „Við innleiddum í fyrra þjónustu frá Visa sem byggir á sýndarnúmeratækni þar sem sýndarnúmer kemur í stað kortanúmers. Fyrir vikið er raunverulegt kortanúmer ekki notað við greiðslur fyrir vörur og þjónustu. Einnig kemur það í veg fyrir að kortanúmer séu vistuð á snjalltækjum viðskiptavina en eitt og sér hefur sýndarnúmerið ekkert gildi og er því verðlaust sé því stolið.“
Þægileg lausn
Þjónustan hefur verið í notkun frá því um mitt síðasta ár þegar Landsbankinn varð fyrsti bankinn á Íslandi til að koma á markað með greiðslulausn með snjalltæki segir Nína. „Þá gaf bankinn út Kortaapp sitt sem er Android-greiðslulausn sem er unnin í samvinnu við Valitor.“
Viðskiptavinir Landsbankans og Arion banka geta annaðhvort virkjað greiðslukortin sín í gegnum bankaöppin eða með því að bæta þeim beint við Apple Pay-veskið á símanum. „Ef farið er í gegnum bankaapp er ekki krafist frekari auðkenningar þar sem viðskiptavinur hefur þegar auðkennt sig inn í bankaappið. Ef korti er hins vegar bætt beint inn í Apple Pay-veskið þarf notandi að auðkenna sig með staðfestingarkóða sem sendur er í gegnum textaskilaboð eða tölvupóst. Bæði Visa-debet- og kreditkort eru aðgengileg í lausnina.“
Örugg greiðsluleið
Hægt er að nota Apple Pay í öllum posum sem bjóða upp á snertilausar greiðslur auk þess sem hægt er að nota Apple Pay til að greiða á Netinu og í öppum. „Apple Pay er aðgengilegt fyrir flestar gerðir Apple-snjalltækja, s.s. iPhone, iPad, Apple-úr og MacBook Pro (með Touch ID virkni). Allar færslur með Apple Pay eru auðkenndar með fingrafari, andlitsskanna eða lykilorði. Nóg er að bera tækið upp að posanum þegar greitt er og því er ekki þörf á því að opna tækið fyrirfram.“
Greiðslur með þessum hætti eru öruggari en hefðbundin greiðsla með korti segir Ingibjartur Jónsson, deildarstjóri Kortaútgáfulausna hjá Valitor. „Þar sem sýndarnúmer kemur í stað kortanúmers þá vistast kortanúmer viðskiptavina hvorki í snjalltækið né á netþjóna Apple og er því aldrei notað við greiðslur. Einnig er gefið út sérstakt sýndarnúmer fyrir hvert tæki og er ekki hægt að nota sýndarnúmerið til að greiða nema með því tæki sem sýndarnúmerið er gefið út á.“
Skemmtileg innleiðing
Innleiðingin hófst síðasta haust og segir Nína ferlið hafa verið langt og strangt en um leið skemmtilegt. „Apple setur miklar tæknikröfur og gerir mikið út á góða notendaupplifun. Áður en varan er sett í loftið þarf að fara í gegnum strangt og umfangsmikið vottunarferli. Allt hefst þetta með góðri samvinnu sem hefur einkennt þetta verkefni. Sem samningsaðili við Apple sá Valitor alfarið um samskipti við Apple og Visa í innleiðingarferlinu. Mikil leynd hvíldi yfir komu Apple Pay til Íslands og ekkert mátti segja opinberlega fyrr en við fórum í loftið þann 8. maí. Viðtökur korthafa hafa verið framar væntingum og eru Visa og Apple hæstánægð með hvernig tiltókst.“