Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Hamborgafabrikkunnar segist vera himinlifandi með þær góðu viðtökur sem Stefán Karl – Síðasta kvöldmáltíðin hefur hlotið en um er að ræða nýjung á matseðli sem á sér fallega sögu.
„Honum hefur verið tekið gríðarlega vel,“ segir hann. „Enda rosalega góður borgari á ferð, í raun fyrsti almennilega djúpsteikti kjúklingaborgarinn sem við erum með á matseðli. En það sem gerir hann svona sérstaklega góðan er að við notum lærakjöt, sem er bæði feitt og safaríkt, og setjum það svo í nachos- rasp.“
Að sögn Jóhannesar á þessi vel heppnaða nýjung á matseðli sér fallega sögu því borgarinn er samstarfsverkefni sem Hamborgarafabrikkan og Stefán Karl Stefánsson heitinn fóru af stað með. „Forsagan er sú að Stefán stofnaði snjallbýli, Sprettu ehf. fyrir svolitlu síðan. Merkilegt fyrirtæki sem ræktar svokallaðar sprettur sem eru litlar mat- og kryddjurtir sem verða ekki stórar eins og þessar jurtir sem þú sérð í búðum og eru fyrir vikið bragðmiklar og fullar af næringarefnum. Það var útgangspunkturinn í samstarfinu. Stefán langaði að vekja athygli á þessu með því að velja með okkur góðar sprettur á nýjan borgara á Fabrikkunni.“
„ … það sem gerir hann svona sérstaklega góðan er að við notum lærakjöt, sem er bæði feitt og safaríkt, og setjum það svo í nachos-rasp.“
Jóhannes segir að verkefnið hafi hins vegar lagst í dvala þegar í ljós kom að Stefán glímdi við alvarleg veikindi. „Ári eftir að Stefán féll frá hafði Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ekkja hans, samband. Henni fannst kominn tími til að klára verkefnið.“
Kokkateymi veitingastaðarins, undir stjórn Eyþórs Rúnarssonar, hófst því handa með þeim Steinunni Ólínu og Soffíu Steingrímsdóttur hjá Sprettu við að þróa borgarann. Fyrir valinu urðu pikklaðir gulrótarstrimlar og svo tvennskonar sprettur: Klifurbaunagras, sem Jóhannes segir að sé villt spretta sem minni í útliti á hárið á Alberti Einstein og Red Rambo, bragðmikil spretta sem hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá Stefáni, en hún er notuð í botninn á borgaranum og út í majónesið sem útskýrir bleikan lit þess. „Steinunn Ólína bætti svo við uppskrift að döðlu- og lauk-chutney og Eyþór „tvíkaði“ hana aðeins til. Herlegheitin eru síðan borin fram með stökkum frönskum og nýrri tegund af brauði. Útkoman er einn mest seldi borgarinn okkar frá upphafi.“
Borgarinn ber heitið Stefán Karl – Síðasta kvöldmáltíðin en Jóhannes segir hugmyndina vera frá Stefáni Karli sjálfum komin. „Hann stakk upp á því við okkur. Hann var svo æðrulaus gagnvart dauðanum. Grínaðist með hann alveg fram á síðustu stundu og missti aldrei húmorinn. Okkur finnst því við hæfi að halda heitinu, það er í hans anda.“
Nóg að gera
Hamborgarafabrikkan hefur verið lunkin við að koma með sniðug heiti á rétti sína. Er von á fleiri slíkum á næstunni? „Klárlega. Þetta er eitthvað sem við reynum að gera tvisvar til fjórum sinnum á ári, búa til skemmtilegar tengingar við dægurhetjur og fólk sem Íslendingum þykir vænt um,“ svarar Jóhannes hress í bragði. „Það er þegar kominn langur listi af góðum hugmyndum en ekki búið að negla neitt niður.“
Spurður hvort fleira standi til segir hann að það sé búið að vera í nógu að snúast í sumar. „Það hefur verið líflegt á útisvæði Fabrikkunar við Kringluna, vægast sagt, stappað nánast alla daga, sérstaklega þegar sést til sólar og svo auðvitað hina dagana líka, enda skjólsælt svæði. Annars er bara bjart fram undan.“
Stúdió Birtíngur
Í samstarfi við Hamborgarafabrikkuna