Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ekki smituð af COVID. Hún greinir frá þessu í færslu á Facebook. Sumir veltu því fyrir sér þar sem hún hefur verið veik síðustu daga. Hún segir þriðju bylgjuna sem nú stendur yfir óhugnanlega.
„Eitt er það sem er óheppilegt við að eiga alltaf að vera einhvers staðar og það er að það vekur alltaf töluverða eftirtekt ef maður er þá ekki á sínum stað. Margir hafa því haft samband eftir að fréttist að ég lægi heima í flensu og viljað kanna hvort hugsanlega væri þar um kórónuveiruna að ræða,“ segir Katrín og heldur áfram:
„Mér finnst því rétt að deila því með ykkur að ég var að fá símtal um að ég væri ekki með covid-19. Fyrir það er ég þakklát. Hins vegar hefur einhver hefðbundnari flensa lagt hálft heimilið í rúmið. Við þreyjum hana, fegin og þakklát því að ekki er um sjálfa kórónuveiruna að ræða.
Fjöldi smita undanfarna daga er raunverulegt áhyggjuefni. Við verðum öll að gæta varúðar, munum að þvo okkur um hendur, spritta, gæta fjarlægðar og gera allt sem við getum sameiginlega til að berja niður þessa þriðju bylgju veirunnar.“
Hún minnist orða flugastjóra sem flaug henni á dögunum. „Það er óhugnanlegt að sjá hraðann í dreifingu veirunnar þegar hún nær sér á strik og það er líka óhugnanlegt að lesa og heyra um eftirköst margra þeirra sem veiktust í vor. Í flugi frá Egilsstöðum í síðustu viku minnti flugstjórinn okkur öll á að spritta okkur og sagði að hann og hans fjölskylda hefðu öll fengið covid í vor – og hefðu mjög gjarnan viljað vera án þeirrar lífsreynslu. Þannig að kæru vinir, gerum okkar besta í þessu verkefni. Við höfum hingað til sýnt ótrúlegan árangur í baráttunni við veiruna – og það munum við gera aftur.“