Kvenbiskupar þjóðkirkjunnar fá nýjan einkennisfatnað. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, var fyrirsæta á nýafstöðnu kirkjuþingi þar sem hún frumsýndi klæðnaðinn.
Frá þessu er greint á vef Þjóðkirkjunnar og þar birt mynd af Agnesi og Sólveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskupi á Hólum í nýja búningnum. Um er að ræða svartan kjól með hvítri mjórri rönd frá hálsi og breikkandi niður að hné.
Nýji kvenprestaklæðnaðurinn var hannaður af finnska hönnuðinum Kirsimari Kärkkäinen árið 2008 en þá þótti einkenniklæðnaður finnska kvenpresta orðinn gamaldags. Sú er væntanlega ástæðan einnig hér á landi fyrir því að Agnes og félagar fá nýjan búning.
Klæðnaðurinn kallast Ljósgeislinn og með kjólnum bera prestarnir gjarnan kross sem kallast Uppspretta ljóssins. Á vef Þjóðkirkjan segir einmitt að starf hennar sé að miðla gleði og ljósi inn í líf fólks og því sé hvíta röndin vel við hæfi sem ljósgeisli. Þessi nýji einkennisbúningu er hátíðarbúningur. Þær Agnes og Sólveig Lára nýttu tækifærið á kirkjuþinginu til að kynna þennan væntanlega einkennisklæðnað íslenskra kvenbiskupa.