Atvinnurekendur hafa nú risið upp til að andmæla því að umsamin launahækkun taki gildi um áramót. Fólk með meðallaun átti þá að fá um 18 þúsund á mánuði í hækkun um næstu áramót sem er svo sem engin ofrausn en þó of mikið fyrir fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tekjubresti og sumpart algjörum. Peningarnir eru einfaldlega ekki til, eins og staðan er núna. Þorsteinn Víglundsson, forstjóri á ofurlaunum og fyrrverandi ráðherra, hefur bent á þetta í pistli. Þorsteinn var áður talsmaður almennings en er kominn úr sauðargærunni og segir hug sinn.
Sjá einnig: Vilja hafa af þér allt að 288 þúsund á næsta ári – „Verður mætt af hörku sem ekki hefur áður sést“
Það er til lausn svo hinn almenni launamaður fá 20 þúsund krónurnar sínar mánaðarlega og komist örlítið betur af. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn ríkisins hafa tekið til sín launahækkanir sem eru langt umfram öll eðlileg viðmið. Margt af þessu fólki er með milljónir í mánaðarlaun og nærast á blóði samfélagsins. Þið munið að forseti Íslands afþakkaði launahækkun sem nam mánaðarlaunum láglaunamanns. Hinir tóku sínar hækkanir án þess að depla auga og njóta vellystinganna. Forseti Alþingis, sem kennir sig við jafnaðarmennsku, er með 2 milljónir króna á mánuði. Græðgin hefur náð um allan stjórnmálaheiminn og nær til sveitastjórnarstigsins. Og svo eru það allir embættismennirnir og ríkisforstjórarnir sem soga til sín almannafé.
Bæjarstjórar á ofurlaunum eru um allt land. Bæjarstjórinn í Garðabæ er með 2,7 milljónir króna í mánaðarlaun. Þetta samsvarar því sem níu láglaunamenn þiggja í mánaðarlaun. Skotspöl frá Garðabæ er bæjarstjórinn í Hafnarfirði með annað eins og í Kópavogi er enn einn með 2 milljónir á mánuði. Á sömu torfunni eru því bæjarstjórar sem kosta samanlagt 10 milljónir króna á mánuði, að teknu tilliti til launatengdra gjalda. Þeir kosta 120 milljónir króna á ári eða það sama og 25 launamenn á lágmarkslaunum. Og þá er ekki reiknað með sporslum svo sem dagpeningum, húsnæðisstyrk, risnu og bílastyrkjum. .
Fulltrúar í sveitarstjórnum, sem áður var áhugamannastarf, taka einnig til sín offjár fyrir að sauðast á fundi. Borgarstjórn Reykjavíkur er hlaðin gullkálfum sem fá helling fyrir lítið. Og pínulítil sveitarfélög eru með sína gullkálfa á fóðrum. Athugið að allir þeir peningar sem fara í að halda þessu fólki uppi koma frá fyrirtækjum á frjálsum markaði og frá launafólki sem stritar frá sér vitið og missir allt að helming tekna sinna í þá hít sem sveitarfélög og ríki hafa smám saman orðið. Sjálftaka kjörinna fulltrúa blasir við. Sumir eru með svívirðilega há laun í boði almennings. Þegar kreppan læðist að blasir við okkur ógeðslegt samfélag sjálftökufólks. Sú var tíð að hæstu laun námu tvöföldum launum verkafólks. Nú er tíðin önnur.
Laun í fyrirtækjum á frjálsum markaði gegna allt öðru máli. Ef eigendur þeirra vilja greiða há laun þá er það þeirra mál á meðan þau byggja afkomu sína á frjálsum markaði og lúta þeim lögmálum að afla fjár með löglegum hætti. Þannig er ekki hægt að krefjast þess að Þorsteinn Víglundsson steypuforstjóri lækki laun sín. En um Þorstein Víglundsson ráðherra gegnir allt öðru máli. Til að ofurlaunafólk á frjálsum markaði leggi sitt lóð á vogarskálarnar þarf að taka upp hátekjuskatt, að minnsta kosti tímabundinn og jafna byrðunum á þegnana.
Rekum gullkálfana á afrétt í stað þess að fóðra þá
Þessi óheillaþróun hefur átt sér stað á tímum góðæris. Gæðingar samfélagsins tóku stærstan hluta. Eðlileg viðbrögð í núverandi ástandi eru að skera niður laun í efsta laginu um allt að þriðjung. Þá fyrst má ræða þann möguleika að afnema umsamdar hækkanir hjá fólki sem berst við að eiga til hnífs og skeiðar og kroppa smáaura af fátæku fólki. Förum þá leið að nota ástandið til að hreinsa út óþarfann hjá ríki og sveitarfélögum. Rekum gullkálfana á afrétt í stað þess að fóðra þá. Gætum þess umfram allt að vera góð við þá sem eru atvinnulausir og á lægstu laununum og mega ekki við skerðingum. Þegar ömurðinni linnir verðum við með betra samfélag þar sem jöfnuður er meiri.