Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kveðst vera komin með nóg af ruglinu í ríka fólkinu á Íslandi. Hún segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í klúbbi hinna ríku og hann hafi aðeins fengið starfið því hann er auðvaldinu þóknanlegur.
Þessu viðhorfi lýsir verkalýðsleiðtoginn í færslu á Facebook. Tilefni skrifanna er það að bankastjórinn ætlar að láta til skarar skríða gegn lífeyrissjóðunum. Ásgeir ætlar að kafa ofan í nýafstaðið hlutafjárútboð Icelandair og aðkomu lífeyrissjóðanna. Bankastjórinn hefur sent sjóðunum bréf og farið fram á að þeir tryggi sjálfstæði stjórnarmanna. Að hans mati er óeðlilegt hvernig hagmunaaðilar hafa setið í stjórn sjóðanna og tekið ákvarðanir um fjárfestingar þeirra.
Sólveig Anna er sammála því að uppstokkun þurfi í í stjórnum lífeyrissjóða en það þurfi að vera með lýðræðislegum hætti gegnum aðkomu sjóðsfélaga. Það þurfi að ýta út vanhæfum fulltrúum auðvaldsins, ríka fólkinu sem er í sömu klúbbum og bankastjórinn.
„Ásgeir er fyrrum yfirhagfræðingur Kaupþings og aðalráðgjafi Gamma. Einn af hrun-prinsunum okkar. Hann fékk starfið sitt í Seðlabankanum af því að hann er sérhagsmunaaðilum, fjármagnseigendum og auðvaldi, þóknanlegur. Það veit öll alþýða þessa lands,“ segir Sólveig Anna og bætir við:
„Hann dirfist að uppnefna fulltrúa launafólks „hagsmunaaðila“, og beitir hótunum til að koma í veg fyrir að þeir nýti stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt. Enn á ný afhjúpast trylltur hrokinn sem þeir samborgarar okkar sem tilheyra auð og valdastétta þessa lands búa yfir og sá geigvænlegi eignaréttur sem þeir telja sig hafa yfir öllu á Íslandi, orðunum okkar líka. Mikið einstaklega er ég komin með nóg af þessu rugli og ég veit að ég er sannarlega ekki ein um það.“