Dularfullt bænabréf til biskups var lengi fyrir augum gesta og gangandi í Skálholtskirkju. Þar er fordæmd sú ákvörðun yfirstjórnar Þjóðkirkjunnar að innheimta aðgangseyri af gestum kirkjunnar. Bréfið hvarf seinna jafn skyndilega og það birtist en þá hafði fjöldi manns lesið það. Bréfinu virðist hafa verið stungið undir stól.
Það nýmæli var tekið upp í Skálholtskirkju í sumarbyrjun 2019 að rukka kirkjugesti fyrir aðgang að kirkjunni. Vígslubiskupinn fyrirskipaði gjaldtökuna í umboði kirkjuráðs en gegn vilja starfsmanna og sóknarprestsins í Skálholti. Aðgangur að guðshúsum á landinu hafði fram að þessu verið ókeypis og þekkist ekki nema hvað varðar turninn á Hallgrímskirkju.
Mikil óánægja var í Skálholti með innheimtuna sem nemur 500 krónum á mann eða 750 krónum á hverja bifreið en að öðru leyti misjafnt eftir stærð hópa. Það sjónarmið kom fram að þetta væri í senn ósiðlegt og syndsamlegt af kirkjunni að rukka þá sem vildu njóta friðar í kirkjunni eða sækja sér huggun og frið frá amstri lífsins. Vígslubiskup var aftur á móti ósveigjanlegur hvað innheimtuna varðar.
Mál þetta komst í hámæli þegar starfsmaður Skálholtskirkju ritaði vígslubiskupi umrætt bænabréf og skyldi eftir þar sem vígslubiskup var venjulega við morgunbænir í kór Skálholtskirkju, hægra megin í svokallaðri Maríukapellu, hliðarkapellu kirkjunnar, þar sem vígslubiskup er vanur að sitja. Þarna skilja túristar stundum eftir kveðjur eða bænarefni, sem þeir vilja koma til skila. Bréf starfsmannsins var einmitt hugsað sem bænarefni og persónulegt bréf til biskups. Það lá lengi vel á glámbekk, fyrir augum þeirra sem heimsóttu kirkjuna. Nokkur fjöldi manns las bréfið sem byggði á harðri gagnrýni á framferði yfirvalda kirkjunnar og markaðssetningu guðshússins, með tilvísunum í Biblíuna.
Starfsmaðurinn, sem um ræðir, er hættur störfum í Skálholti. Hann hefur lýst því að það hafi verið í senn rangt og sársaukafullt að þurfa að innheimta aðgangseyri af þeim sem komu í kirkjuna.
Kristján Björnsson vígslubiskup staðfestir tivist bréfsins og að hann hafi það undir höndum. Hann vísar ábyrgðinni yfir á stjórn kirkjunnar. „Jú hún stílar á mig og ávarpar mig í þessu bréfi. Hún lýsti því yfir að hún væri ósátt við að taka við greiðslu komugjalds og tengir það einhvern veginn mér. Er það ekki hin venjulega íslenska aðferð? Hún var ósátt við þá ákvörðun sem var ekki mín ákvörðun. Því miður var enginn kontakt gefinn upp í bréfinu þannig að ég gat ekki haft samband við hana og því voru mér allar bjargir bannaðar með að svara fyrir þetta. Hún var heldur ekki að óska eftir því í bréfinu. Mér þótti það mjög leiðinlegt hvað hún var ósátt,“ segir Kristján í samtali við Mannlíf.
Hann segir að gestir hafi í einhverjum tilvikum reiðst og verið með dónaskap og jafnvel öskrað þegar þeir voru rukkaðir um aðgangseyrinn.
„Ég veit að kirkjuverðir okkar fengu yfir sig gusur vegna innheimtunnar. Íslendingarnir voru mjög erfiðir með það, í mörgum tilfellum mjög ósvífið og mjög dónalegt, og ég er viss um að það hafi farið illa í starfsfólkið að vera öskrað á það. Það þykir mér sárast. Ég ætla ekki að gera lítið úr upplifuninni sem viðkomandi lýsir í bréfinu sem þvingandi en ég get illa metið hennar upplifun á nærveru minni. Hvort hún hafi upplifað það ógn veit ég ekki því ég reyni ávallt að sýna mannvirðingu og hlýju, vera kurteis og skýr. Að taka þetta gjald er ekki mín ákvörðun og starfsmannahald er ekki á minni hendi. Mér þótti leiðinlegt að viðkomandi sagði mér aldrei frá óánægju sinni og gaf ekkert í skyn um það. Þar af leiðandi gat ég aldrei brugðist við því en mér þykir mjög leitt ef henni leið illa.“