John J. Ferguson, bandarískur lögmaður Sonju Zorrilla, neitar Mannlífi um aðgang að sjóðsyfirliti, Sonja Foundation, góðgerðasjóði auðkonunnar. Hún lét eftir sig miklar eignir þegar hún lést árið 2002. Eigur hennar áttu að renna í sjóð til hjálpar fátækum börnum. Útdeilingar úr sjóðnum eru trúnaðarmál, segir lögmaðurinn.
Allt frá því Sonja lést hefur leyndarhjúpur verið um eignir hennar og ekkert spurst til sjóðsins eða úthlutana úr honum. Allt frá því Sonja lést árið 2002 hefur minningarsjóður hennar verið í myrkri.
Sonja Zorrilla öhagnaðist vel á viðskiptum á Wall Street. Minningarsjóði hennar, Sonja Foundation, var ætlað að styrkja langveik börn á Íslandi og í Bandaríkjunum og hefur verið fjallað um að eignir Sonju um aldamótin hafi verið um tíu milljarðar króna. Lítið sem ekkert hefur enn fengist uppgefið um sjóðinn sem varð til við andlát auðkonunnar og áttu allar eignir hennar, að undanskildum lágum upphæðum sem systrabörn hennar fengu, að renna í sjóðinn.
Saman eru þeir Ferguson og Guðmundur Albert Birgisson fjárfestir umsjónarmenn minningarsjóðsins. Aðspurður segir Ferguson að upprunalega hafi verið í sjóðnum því sem nemur hálfum milljarði króna og því hafi að mestu verið úthlutað til góðgerðarmála. Hann segir að málverk hafi verið seld á sínum tíma og söluandvirði þeirra verið meðal þess sem rann í sjóðinn en að engar fasteignir hafi runnið þangað inn. Spurningunni um hvort ekki hafi verið andvirði 10 milljarða til ráðstöfunar eftir lát Sonju svaraði Ferguson því hlæjandi. Mannlíf óskaði formlega eftir yfirliti frá sjóðnum um hvaða upphæðir og hvert þær hafi runnið úr sjóðnum frá stofnun. Ferguson neitaði að afhenda þær upplýsingar. „Þetta eru trúnaðarupplýsingar og eru því ekki ætlaðar til opinberrar birtingar.“
Ferguson, bandarískur lögmaður Sonju heitinnar, aðskilur sig alfarið frá viðskiptum Guðmundar, oftast kenndum við Núpa í Ölfusi, sem hefur játað á sig skattsvik og peningaþvætti. Lögmaðurinn segist bæði undrandi og vonsvikinn að heyra af því hvernig er komið fyrir kollega sínum hjá minningarstjóði Sonju.