Hagsýnir heimilisrekendur taka slátur. Sláturmarkaður SS og Hagkaupa í Kringlunni er nú opinn þriðjudaga til föstudaga frá klukkan 14 til 18.
Þrjú slátur duga í um það bil 9 máltíðir fyrir fjögurra manna fjölskyldu ef allt hráefni er notað og bæði gerð lifrarpylsa og blóðmör. Þrjú fersk heilslátur kosta 4599 krónur á Sláturmarkaðnum og reiknast þá máltíðin á 511 krónur eða litlar 128 krónur á manninn.
Slátur er hefðbundinn íslenskur matur sem er gerður úr innmat og blóði lamba. Þegar keypt er eitt slátur inniheldur það vömb, mör, blóð, lifur, hjarta, nýru og sviðinn haus.
Slátur er járn- og A vítamínríkur matur og nauðsynleg viðbót nú til dags vegna mikillar neyslu á pasta og hvítu kjöti sem inniheldur ekkert járn. Slátur er því allt í senn hollur, góður og ódýr matur.
Þar sem talsverðar takmarkanir eru á skemmtanahaldi um þessar mundir er gráupplagt að hóa saman fjölskyldu eða vinum og eiga gæðastund við þessa gamalgrónu iðju.