Jón Gunnar Geirdal, oft kallaður Frasakóngurinn, minnist systur sinnar, Ölmu Geirdal, í hugljúfri minningargrein í Morgunblaðinu í dag. Þar segist hann aldrei hafa ætlað sér að upplifa það að missa litlu systur sína. Alma hafi verið öxlin sem Jón Gunnar þurfti að styðja sig við. Kletturinn hans brósa.
„Sjötta september árið 1979 var fimm ára mér tilkynnt að ég væri að eignast enn eina systurina, nokkuð sem mér hugnaðist alls ekki og grátbað ég foreldra mína um bróður. Bænum mínum var ekki svarað og á þessum örlagaríka degi fékk ég það mikilvæga hlutverk að vera stóri bróðir þinn. En ég ætlaði aldrei að þurfa að upplifa það að missa þig. Litla systir mín látin. Þessi fjögur orð verða óraunverulegri í hvert sinn sem ég endurtek þau. Ég er ekki stóri bróðir þinn lengur og sorgin mölbrýtur tilveru mína,“ segir Jón Gunnar í minningarorðum um litlu systur sína.
Alma Geirdal lést 19. september síðastliðinn á líknardeild, 41 árs að aldri. Banamein Ölmu var brjóstakrabbamein, sem hún greindist með aðeins 38 ára gömul. Eftir meðferð var hún krabbameinslaus í tæp tvö ár en þá greindist hún aftur og gaf meinið enga vægð. Alma var ætíð opinská með veikindi sín og hélt meðal annars úti hópi á Facebook, Alman vs. cancer, þar sem hún skrifaði nær daglega hugleiðingar sínar um veikindin og daglegt líf.
Alma Geirdal greindist í annað skipti með illvígt krabbamein sem ljóst varð að hefði dreift sér um allan líkamann. Henni var tjáð að það væri ekkert hægt að gera til að reyna að bjarga lífi hennar sem myndi líklega ekki vara lengur en fjögur ár í viðbót.
Alma var í viðtali hjá Mannlíf í byrjun árs, þar sem hún ræddi baráttuna, fordómana sem hún varð fyrir í heilbrigðiskerfinu og krabbameinslyfið sem olli miklum kvölum og aukaverkunum, en gerði henni ekkert gagn. Í viðtalinu kom fram að Alma var búin að fá uppgefinn tímann sem hún átti eftir, en hún var staðráðin í að njóta tímans sem eftir var sem best hún gat með sínum nánustu, sambýlismanni, börnum, systkinum og öðrum ættingjum og vinum.
Jón Gunnar rifjar upp allar fallegu stundirnar sem þau systkinin áttu saman og hann kemur líka inn á erfiðleikana. „Hvað segir maður svo þegar þú ert öll? Hvað á ég að rifja upp, mín kæra? Hvaða minningar standa upp úr? Of margar. Alltof. En vá hvað þær áttu að vera miklu fleiri, elsku gullfallega Alma mín. Mér þykir mjög vænt um New York-ferðina okkar fyrir tíu árum síðan; taxi til Brooklyn að fá okkur flúr, Maxwelltónleikar í Madison Square Garden – það var svo ótrúlega gaman hjá okkur. Þá varst þú öxlin sem ég þurfti að styðja mig við. Kletturinn hans brósa. Við fengum okkur svo aftur saman flúr í vor og í hvert sinn sem ég legg hendur mínar í bæn þá minna krossarnir á yndislegu þig. Mér fannst þú alltaf æðisleg, líka þegar þú varst ekki æðisleg,“ segir Jón Gunnar og bætir við:
„En það er nákvæmlega það sem stóru bræður gera, þeir standa með þér þegar þú stendur ekki einu sinni með sjálfri þér. Það voru mikilvægustu augnablikin okkar. Þar fundum við systkinin styrkinn okkar í öllu sínu ógnarsterka veldi. Þér tókst nefnilega oftar en ekki að sannfæra sjálfa þig um að best væri að standa í auga stormsins, töffarinn hans brósa með hendur á lofti, að reyna að dansa sig í gegnum erfiðleikana. Alltaf stóðstu upp aftur og við vorum svo stolt af þér, þangað til brósi stóð einn upp eftir þann síðasta. Í síðustu andvörpum þínum skein sólin í gegnum rokið og rigninguna og okkur fannst það ofboðslega táknrænt fyrir lífshlaup þitt. Í gegnum alla erfiðleikana voru bjartir og fallegir tímar og ætli okkur fjölskyldunni reynist ekki erfiðast að sætta okkur við það að þær góðu stundir hefðu svo sannarlega getað verið mun fleiri.“
Jón Gunnar segir ekki ætla að vera reiður og sár mikið lengur vegna andláts Ölmu. „Ég vil nefnilega muna þig ótrúlega fallega, skellihlæjandi með fallega brosið þitt, ánægð að njóta með Geirdöllunum okkar. Gleðigjafinn þú sem smitaðir svo út frá þér til allra í kringum þig. Við sem syrgjum þig svo sárt eigum fjölda góðra minninga sem við munum hlæja og gráta okkur í gegnum saman þegar við minnumst þín. Mín lífsins sorg er að verða ekki gamall maður með litlu systur minni. Ég sá aldrei fyrir mér að þú yrðir langlíf en að falla frá fjörtíu og eins árs er martraðarkenndur veruleiki okkar sem elskuðum þig svo mikið. Ég elskaði þig frá þínum fyrsta andardrætti og mun að eilífu þykja vænt um að hafa haldið í hönd þína þegar sá síðasti yfirgaf þig,“ segir Jón Gunnar að lokum.