Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-6.8 C
Reykjavik

Háskaför sóttvarnayfirvalda: Ég hlýddi Víði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kóraónaveiran grasserar á Íslandi sem aldrei fyrr. Þetta er þvert á það sem þríeykið  svonefnda sagði okkur í vetur og vor þegar tókst, að sögn, að koma veirunni í duftið. Þá var viðkvæðið það að við mættum búast við litlum bylgjum áfram. Fórnarkostnaðurinn við að loka landinu og leggja þannig ferðaþjónustuna og hliðargreinar hennar í rúst var réttlætanlegur. Við gengum inn í sumarið full bjartsýni og þakklæti og himinhrópuðum kosti þeirra sem björguðu okkur. Við hlýddum Víði og uppskárum veiruleist samfélag; eða svo héldum við.

En eftir hvert sumar kemur haust. Nú er staðan sú að veiran er um allt og met eru slegin daglega í fjölda smitaðara. Hún fór aldrei. Samt höfum við fylgt tillögum sóttvarnalæknis, landlæknis og ríkislögreglu í hvívetna. Almenningur hefur flotið sofandi að þeim feigðarósi sem býður upp á martröð hins vinnandi manns og risavaxin, félagsleg vandamál. Þetta er líkt og krabbameinsmeðferð sem eyðileggur líffærin sem voru í lagi fyrir.

Þríeykinu er í sjálfu sér vorkunn. Þeirra hlutverk er að verjast veirunni en ekki að hafa áhyggjur af þeirri óhamingju sem fylgir lokun landsins og skelfilegum afleiðingum þess. Ég hlýði Víði, varð slagorðið sem virkaði. Við treystum í blindni. Ríkisstjórnin á aftur á móti að hafa til þess vit að meta heildaráhrifin. Inn í þá sviðsmynd þarf að taka alla þá mannlegu harmleiki sem fylgja aðgerðunum. Atvinnuleysi af stærri gráðu en áður hefur sést. Fjöldagjaldþrot þar sem heil atvinnugrein er lögð í rúst.

Stríðið við veiruna snerist upp í stríð gegn þjóðinni. Afleiðingarnar má sjá í tölum um stórfellda fjölgun sjálfsvíga, auknu heimilisofbeldi og ofdrykkju. Þríeykið okkar hefur sem minnst viljað ræða afleiðingarnar af aðgerðum þeirar. Harmleikirnir eru um allt samfélagið.  Aðgerðir til að drepa veiruna hafa hitt okkur sjálf fyrir. Jafnvægið í samfélaginu er horfið. Öryggið er farið. Tíundi hver maður er án vinnu. Þúsundir eru á barmi gjaldþrots. Óhamingjan ríður húsum.

Meðvirkni með sóttvarnayfirvöldum er jafnframt ríkjandi. Það hefur ekki þótt við hæfi að gagnrýna aðgerðir þeirra og aðferðir við að verjast veirunni. Don Kíkótí barðist við vindmyllur forðum rétt eins og virðist vera með þríeykið okkar. Og ekki misskilja mig. Þetta er hið vænsta fólk sem kemur afskaplega vel fyrir í skemmtiþáttum og á daglegum fundum þar sem þuldar eru upp tölur og skorað á fólk að hlýða. Vandinn er sá að þeim hefur, og þar með okkur öllum, mistekist að bjarga okkur frá veirunni. Afleiðingarnar af þessu eru þegar að verða hroðalegri en nokkur gat séð fyrir.

Píratar lögðu til rannsókn á aðgerðum stjórnvalda á Kórónatímum. Það er skynsamlegt. Við verðum að átta okkur á því hvernig í ósköpum ástandið varð þannig að fólk missir fótanna af hliðaáhrifum veirunnar og mannfallið er meira en beinlínis af völdum hennar. Enn hefur engin vitræn umræða farið fram um það að aukning sjálfsvíga hefur fellt fleiri en sjálf veiran. Áleitnar spurningar snúast um það að ég hlýddi Víði en samt er allt samfélagið komið úr skorðum og sumpart á heljarþröm.

- Auglýsing -

Það er vandséð hvað er næst til ráða. Lokun landamæra hefur enga þýðingu lengur. Við erum hættulegri ferðamönnum en þeir okkur. Vandinn vegna veirunnar er hnattrænn en ekki bundinn við eyju í norðurhöfum. Við erum öll í þessu.

Við Íslendingar verðum einfaldlega að gjörbreyta um stefnu og taka allt með í reikninginn. Hvað kostar það okkur að steypa þjóðinni í fjárhagslega glötun? Hversu margir láta lífið vegna þess ástands ef litið er til þeirra sem falla vegna hinnar skelfilegu veiru? Svör við þeim spurningum eiga koma frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur en ekki frá sérfræðingum á sviði veirufræða. Háskaför sóttvarnayfirvalda þarf að ígrunda. Horfum a heildarmyndina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -