Leikarinn góðkunni John Mahoney, sem er hvað þekktastur fyrir að leika Martin Crane í sjónvarpsþáttunum Frasier, lést síðasta sunnudag á líknardeild í Chicago. Dánarorsök var krabbamein í hálsi. Leikarinn var 77 ára þegar hann lést.
John fæddist í Blackpool á Englandi þann 20. júní árið 1940 en flutti til Bandaríkjanna sem ungur maður. Hann vann við enskukennslu og ritstýrði læknariti áður en hann fékk sig fullsaddan af vinnunni sinni. Hann ákvað að söðla um og fór í leiklistartíma Í St. Nicholas-leikhúsinu. Það má segja að það hafi verið mikið heillaspor því í framhaldinu steig hann í fyrsta sinn á svið, nánar tiltekið árið 1977, og hvatti leikarinn John Malkovich hann að ganga til liðs við Steppenwolf-leiklistarhópinn í Chicago.
Þá fóru hjólin að snúast, en fyrir frammistöðu sína í leikritinu Orphans stuttu síðar fékk John Derwent-verðlaunin og Theatre World-verðlaunin. Árið 1986 hlotnaðist honum síðan sá mikli heiður að hljóta Tony-verðlaunin fyrir bestan leik fyrir frammistöðu sína í leikritinu The House of Blue Leaves eftir John Guare.
Heimurinn kynnist Martin Crane
Fyrsta kvikmyndahlutverkið fylgdi í kjölfarið en árið 1987 fékk hann hlutverk í Tin Men í leikstjórn Barry Levinson. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar gekk honum vel í leiklistinni og lék í myndum á borð við Moonstruck, Say Anything…, In the Line of Fire, Reality Bites, The American President, Barton Fink og The Hudsucker Proxy.
John sérhæfði sig í að leika hressa menn sem heimurinn hafði farið illa með. Það er því eilítið fyndið að hugsa til þess að hans stærsta hlutverk, í sjónvarpsþáttunum Frasier, hafi verið hinn úrilli Martin Crane, en það tók áhorfendur nokkra þætti, jafnvel heila seríu, að kunna að meta kauða. Martin var faðir Frasier og Niles Crane, mikilla snobbhænsna sem töluðu á tíðum hansi háfleygt, en voru samt hvers manns hugljúfi. Martin var fyrrverandi lögga sem elskaði þægindastólinn sinn meira en allt og sagði hlutina hreint út. Var hann því skemmtilegt mótvægi við vel máli förnu syni sína.
Frasier gekk í ellefu þáttaraðir, frá árinu 1993 til ársins 2004. John var tilnefndur til Emmy- og Golden Globe-verðlaunanna fyrir leik sinn í þáttunum og hlaut Screen Actor’s Guild-verðlaunin árið 2000.
„Frábær leikari – yndislega góð manneskja“
John var greinilega ekki aðeins góður leikari, heldur einnig mikill mannvinur utan tökustaðar því margir hafa minnst leikarans síðustu daga.
„Frábær leikari – yndislega góð manneskja – þér leið betur þegar þú hittir hann – Hvíl í friði John,“ skrifar leikarinn John Cusak á Twitter-síðu sinni, en hann lék með John í Say Anything….
Great actor – lovely kind human -any time you saw him you left feeling better – RIP John … https://t.co/jHXPHm1dEb
— John Cusack (@johncusack) February 5, 2018
„Hinn stórkostlegi John Mahoney lést í dag, 77 ára að aldri. Ég hef aldrei kynnst betri manni eða stórkostlegri leikara. Það er mikil blessun fyrir okkur öll að hafa eytt 11 árum með honum,“ tístar Jeff Greenberg sem sá um leikaraval í Frasier.
The great John Mahoney passed away today at age 77. I’ve not known a kinder man nor more brilliant actor. We were all blessed to have spent 11 glorious years together. pic.twitter.com/hn3SZwuEy4
— Jeff Greenberg (@JeffGreenbergCD) February 5, 2018
Leikkonan Peri Gilpin, sem lék Ross í Frasier, birtir mynd af John með hjartnæmri kveðju.
„John að syngja í brúðkaupinu mínu. Horfið á Moonstruck, Say Anything og/eða Frasier eða eitthvað sem þið getið með honum og skálið fyrir John. Haldið minningu hans á lofti.“
John singing at my wedding. Watch Moonstruck, Say Anything and/or Frasier or anything you can with him in it and raise a glass to John. Remember him well. pic.twitter.com/Tj3i5B4x13
— Peri Gilpin (@GilpinPeri) February 6, 2018
Texti / Lilja Katrín
[email protected]