Jes og Travis Hogan frá Manhattan í Kansas eignuðust nýverið sitt sjötta barn, á einstaklega eftirminnilegan hátt.
Jes og Travis fóru uppá sjúkrahús þegar Jes fann fyrir óvenjulegum samdráttum sem voru sterkari en dagana áður. Tammy Karin, ljósmyndari hjá Little Leapling Photography, hitti þau á sjúkrahúsinu, en hún kom rétt svo í tæka tíð til að mynda fæðinguna.
Jes komst nefnilega ekki mjög langt og endaði á því að fæða barnið, lítinn dreng, á gangi sjúkrahússins.
Tammy náði algjörlega stórkostlegum myndum af fæðingu barnsins, sem sýna svo sannarlega að fæðingar eru jafn misjafnar og þær eru margar. Jes segir í samtali við fréttaveituna BuzzFeed að sín eftirlætismynd sé þegar eiginmaður hennar og hjúkrunarfræðingurinn voru að hjálpa henni að leggjast niður á gólfið, nokkrum mínútum áður en barnið kom í heiminn.
„Það er smá glott á eiginmanni mínum en ég man hve örugg mér fannst ég í örmum hans. Þessi mynd fangar allt sem ég vil. Hún á sérstakan stað í mínu hjarta,” segir Jes. Hún hvetur aðrar konur til að deila sínum fæðingarsögum.
„Ég vil að mæður muni að þær eru kröftugar og að fæðing er stórkostleg. Ekki gleyma styrk ykkar á þessu augnabliki, sama hvernig fæðingin er. Ég trúi að fæðingar skilgreini okkur sem manneskjur og hjálpi konum að öðlast meiri styrk og jarðtengingu.”
Hér fyrir neðan má sjá myndband um fæðingu litla snáðans sem hlotið hefur nafnið Max.
Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Little Leapling Photography