Næstu tvær vikurnar verða mörgum erfiðar og sumum mjög leiðigjarnar. Mannlíf tekur saman upplýsingar um hvað er helst til ráða. Allir eru sammála um að rútína er mikilvæg. Mannlíf óskaði eftir hugmyndum á Facebook og var þátttakan gríðarleg. Listinn er að miklu leyti byggður á þeim hugmyndum. Fleiri áhugaverðar en flóknari hugmyndir á borð við þá að hugsa leið til endaloka kapitalismans komu fram. Þá er skorað á fólk að taka til í fjármálum sínum, fá tilboð í tryggingar og létta á kostnaði við daglegt amstur.
1. Gakktu á Úlfarsfell, fjallið í miðri borginni. Það tekur allajafna ekki meira en 20 mínútur að komast á uppgöngustað og gangan sjálf tekur aðeins 2 tíma frá upphafi til enda. Hentar nánast öllum. Fyrir lengra komna er Esjan upp að Steini gott verkefni. Hver og einn getur fundið sitt heimafell og lagt upp i göngur.
2. Hringdu í fólkið sem þú hefur alltaf ætlað að hafa samband við. Gefðu þér tíma til að spjalla við þá sem eru einir og einmana. Kenndu eldra fólki á hljóðbækur, hlaðvörp, netskrafl, Netflix, Viaplay. Koma við hjá vini eða ættingja í gönguferðum og spjalla fyrir utan gluggann þess vegna.
3. Farðu í Heiðmörk og njóttu þess sem falleg náttúra og skógur hafa upp á að bjóða. Hjólaðu, hlauptu eða gakktu. Faðmaðu tréu og njóttu kyrrðarinnar. Skipulegðu leiðangra til að safna fræjum.
4. Skráðu þig sem Mannvin hjá Rauða krossinum og legðu þitt að mörkum til að létta þeim lífið sem eiga erfitt. Ef þú er fjárhagslega vel settur þá skaltu finna fjölskyldu sem á erfitt og gefa henni 10 þúsund króna úttektarkort í Bónus eða Krónunni.
5. Farðu í gamaldagsbíltúr með fjölskylduna. Einu sinni var apinn í Hveragerði með aðdráttarafl. Hann er horfinn en það er kjörið að njóta haustlitanna á Þingvöllum og kaupa ís á Selfossi eða í Hveragerði. Muna samt grímurnar og sprittið.
6. Almannavarnargöngur Ferðafélags Íslands eru skemmtileg tilbreyting. Þú gengur um nærumhverfi þitt og setur myndir og texta inn á síðuna.
7. Finndu þér námskeið á Netinu og láttu gamla drauma um að auka við þekkingu þína rætast. Ættfræði, skapandi skrif eða hvaðeina sem hugurinn girnist.
8. Leitaðu uppi tóftir eða rústir í nágrenni þínu. Aflaðu upplýsinga, taktu myndir og sendu á [email protected].
9. Taktu mataræðið í gegn og fá fjölskylduna með sér í að búa til skemmtilegar uppskriftir. Búðu til hóp á Facebook þar sem plana má skemmtilega og holla matargerð og allir koma með hugmyndir. Krakkarnir hvattir til að elda. Svo má vera með matar þema. Eitt kvöldið er ítalskur síðan spænskur, íslenskur , þýskur, kínverskur, japanskur matur og svo framvegis.
10. Flýttu jólunum. Hengdu upp jólaljósin strax og varpaðu birtu á umhverfið. Föndraðu jólaskraut og búðu jafnvel til jólagjafir með þínum nánustu. Ef fólk er svo heppið að vera með heitan pott í garðinum þá er snilld að setja seríur á pallinn, kertaljós og vera með ilmkjarna þerapíur og þema hvert kvöld.
11. Búðu þér til daglega rútínu. Gerðu æfingar undir morgunleikfiminni á RÚV. Farðu í reglubundnar gönguferðir. Æfðu jóga eða hvaðeina sem þér dettur í hug. Gerðu armbeygjur eða haltu jafnvægi á öðrum fæti. Farðu í sjósund ef þú hefur heilsu til. Prófaðu Himnastigann í Kópavogi, kirkjutröppurnar á Akureyri eða hvaðeina í umhverfi þínu.
12. Hlustaðu á þína nánustu. Gefðu fólkinu þínu hálftíma að lágmarki til að fara yfir málefni dagsins. Þar fara allir yfir daginn sinn og ræða málin. Gefðu því gaum hvað þínir nánustu hafa verið að gera og hugsa og segðu frá þínum degi.
13. Ópera heima í stofu. Á Netinu má finna streymi frá óperusýningum Metrópolitan. Þetta eru sýningar frá því í fyrra og eldri. Frábært efni og ég held að það sé líka frá öðrum óperuhúsum og Royal Albert Hall. Njóttu listar á heimsmælikvarða heima í stofu.
14. Búðu til lista með 10 atriðum um það sem þú vilt gera áður en þú deyrð.
15. Málaðu heima hjá þér, eitthvað sem þú ætlaðir að gera fyrir löngu? Taktu til í skápunum. Ryksugaðu á bak við ísskápinn. Farðu með fötin sem þú notar ekki í Rauða krossinn.
16. Lærðu að prjóna og enga karlrembu. Ef þú kannt það þá prjónaðu eða heklaðu. Gefðu húfu, peysu, dúka eða vettlinga í jólagjöf.
17. Taktu til í rafrænu myndunum þínum og hreinsaðu vinalistann þinn á Facebook. Búðu til myndabók handa þínum nánustu með minningum sem annars gætu týnst. Tiltölulega ódýr og persónuleg gjöf sem lifir.
18. Skrifaðu smásögu, ljóð eða málaðu myndir. Skrásettu viðburði úr eigin lífi fyrir komandi kynslóðir. Skrifaðu framhaldssögu á Facebook. Komdu tilverunni í orð eða mynd.
19. Syngdu í baði eða hvar sem er þótt það sé ekki vani þinn.
20. Bóklestur er frábært tómstundagaman. Lestu í hljóði eða fyrir börnin þín. Margir eiga bækur, enn í plasti, sem þeir hafa alltaf ætlað að lesa en ekki gefist tími til. Taktu fram bækurnar og lestu. Flokkaðu í bókahillunum. Svo geturðu notað þjónustu Storytel og hlustað á bækur sem vekja áhuga þinn. Þá má bregða sér í göngu og hlusta á sama tíma góða bók.
21. Gjörbreyttu frá óhollu mataræði. Settu sykur og hveiti á bannlista. Reyndu föstur á borð við 14/7 eða jafnvel nokkra daga. Finndu aðferðina sem lætur þér líða sem best. Slepptu áfengi og fíkniefnum og upplifðu hreinar tilfinningar.
22. Farðu í garðinn og undirbúðu hann fyrir ræktun næsta árs. Stingdu upp, reittu arfa og bættu í næringarefnum. Settu niður lauka. Plantaðu berjarunnum. Svo má dytta að ýmsu í garðinum og taka niður/binda það sem getur fokið í vetur. Sniðugt að ganga í Garðyrkjufélagið, kíkja á frælistann og plana hverju skal sá þegar vorar.
23. Vitjaðu leiða látinna ástvina. Rifjaðu upp minningarnar. Snyrtu leiði ef þörf er. Hugsaðu til hinna látnu og sendu hlýjar hugsanir yfir í aðra vídd. Það er róandi og gefandi að rölta um kirkjugarða í leiðinni og lesa á legsteina.
24. Hóaðu stórfjölskyldunni reglulega saman í myndspjall á Netinu. Zoom eða Messenger eru tilvalin forrit.
25. Markmið lífsins. Skrifaðu á miða allt sem þú ætlið að gera, eitt verk á hvern miða og setja í krukku. Draga þarf miða daglega úr krukkunni og vinda sér í verkið. Svo má líka hafa letimiða – fara í sund – heimsækja vin eða lesa bók. Alltaf spennandi að vita hvert er verkefni dagsins.