„Þetta er frábær samgöngumáti og það eru fjölmargir sem hafa losað sig við annan bílinn og í einhverjum tilfellum hefur fólk lagt bílnum alveg og fær þá bara lánaðan bíl, til dæmis í gegnum deilihagkerfi,“ segir Ragnar Kristinn, eigandi verslunarinnar Rafmagnshjóla úti á Granda. Hann finnur fyrir auknum áhuga fólks á rafmagnshjólum. „Staðreyndin er sú að á rafmagnshjólum þá hjólar maður oftar og lengra. Það er ekkert sem stoppar mann, það er t.d. ekki hægt að afsaka sig og segja að brekkurnar séu of erfiðar.“
Neytendasíðan hafði samband við þrjár reiðhjólaverslanir og fékk góð ráð varðandi fyrstu kaup á rafmagnshjóli hugsuð sem götuhjól.
Ragnar í Rafmagnshjólum segir æ fleira nýta sér reiðhjól sem samgöngumáta yfir vetrarmánuðina og þá sé gott að nota nagladekk. „Það er nánast hægt að nota hjól í öllum veðrum. Það eru að minnskta kosti fáir dagar hér á suðvesturhorninu sem það er alveg ómögulegt.“
En hvað er ódýrasta og besta merkið?
„Ódýrt og gott merki? – það fer hreinlega ekki saman!“ segir Ragnar kíminn.
Premium MN7 er hjólið sem Ragnar segist mæla með fyrir fólk sem er að kaupa sitt fyrsta rafmagnshjól og ætlar sér að nota það sem samgöngumáta. Þessi týpa er jafnframt sú söluhæsta hjá þeim. Þetta er hollenskt verðlaunahjól sem Ragnar segir að hafi reynst frábærlega við íslenskar aðstæður. Hjólið kostar 379 þúsund. Aðspurður segir hann eitt af því sem mikilvægt er að hafa í huga þegar kaupa á hjól er hvernig þjónustan er.
„Flestir sem kaupa rafmagnshjól eiga ekki hjól fyrir, þetta er nýr kúnnahópur,“ segir Jón Óli Ólafsson, eigandi verslunarinnar Berlín í Ármúla. Hann segir sölu á rafmagnshjólum hafa aukist og fljótlega eftir páska hafi allt orðið vitlaust enda vor í lofti og líkamsræktarstöðvar lokaðar vegna samkomubanns. Hann segir söluna í september hafa verið yfir meðallagi og að október fari vel af stað.
Blacktop 1.0 frá Reid er rafmagnshjólið sem Jón Óli mælir með sem fyrstu kaup þessa dagana. Hjólin koma frá Ástralíu. „Hjólið hentar vel sem samgöngumáti við íslenskar aðstæður, hversdagslegt hjól sem kemur þér langt.” Blacktop 1.0 frá Reid kostar 269.900 krónur í Berlín í Ármúla. Von er spennandi sendingu í vor hjá Berlín.
Jón Óli segir mikilvægt að hafa þetta í huga þegar velja á hjól:
- Mikilvægt að velta því fyrir sér hvernig á að sitja.
- Stærð á stelli skiptir miklu máli,
- Skoða þarf gírana, ljósið og lásinn og ef nota á hjólið sem samgöngutæki þá þarf að hafa í huga hvort stellið geri ráð fyrir bretti og böglabera
- Bremsurnar
- Þjónustan
- Hjálmar og töskur
- Það skiptir máli að velja fatnað eftir veðri svo að ferðin verði ánægjuleg. Jón Óli segir enga þörf á spandexi, bara klæða sig eftir veðri.
- Margir vinnustaðir sem og stéttarfélög bjóða upp á samgöngustyrki.
Báðir nefna þeir að mikilvægt sé að athuga hvort hægt sé að setja nagladekk á hjólin. Jón Óli segir fólk verði svolítið að meta hvort þörf sé á því. Sumir noti hjólið bara til og frá vinnu og það sé kannski mikilvægara fyrir þá sem búa í efri byggðum en fyrir þá sem búa og vinna í miðbænum. Stígar séu oftast mjög vel ruddir og þá er kannski ekki þörf á nöglum. En fyrir marga er þetta mikilvægt öryggisatriði.
Stefán Haukur Einarsson, verslunarstjóri í Erninum, segir algjöra sprengju hafa verið í sölu á rafhjólum í ár. ,,Það spilar ýmislegt inn í. Breytt hugarfar, Covid-19, og rafhjólatíska í Evrópu sem byrjaði fyrir 2-3 árum og skilaði sé fyrst hingað í ár að einhverju ráði. Þá spilar líka inn í að stjórnvöld felldu niður virðisaukaskattinn um áramótin.“
Stefán Haukur segir að götuhjólin sem þeir mæla með séu frá 300.000.- kr. Trek og Alliant, bæði með brettum og bögglabera.
„Við gerðum alveg ráð fyrir að það yrði mikið að gera í ár en gerðum alls ekki ráð fyrir svona sprengju. Það eina sem okkur vantar eru fleiri hjól til að selja,” segir Stefán Haukur brattur.
Margir bíða spenntir eftir sendingum hjá Erninum sem koma í lok desember og svo í vor og óvenjumikið er um forpantanir. Eitt hjól lofar góðu, það er hjól sem bæði hægt er að leika sér á og nota sem götuhjól; Trek / Powerfly 4 eða Allant+8 – verð frá 405.000.-
Vafalítið mikla margir fyrir sér verðmiðanum á hjólunum. En setjum þetta í samhengi.
Rekstrarkostnaður á nýju rafmagnhjóli er, ef allt er eðlilegt, 25.000.- til 40.000.- kr. á ári.
Samkvæmt tölum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda frá janúar 2020 þá kostar 1.176.500 að reka ódýrasta bílinn á ári. Rekstur dýrasta bílsins kostar 2.352.299.- á ári.
En hvað með þá sem eiga ekki þessar upphæðir í buddunni sinni fyrir nýju hjóli?
Ragnar bendir á að hægt sé að taka hjólalán, bæði með greiðsludreifingu og svo er víða boðið upp á græna fjármögnun.
Nú þegar líkamsræktarstöðvar og sundlaugar eru lokaðar er tilvalið að næla sér í hjól og nýta þessi rólegheit í samfélaginu til að tileinka sér nýjan samgöngumáta.
Þú sparar, kemst í betra form og síðast en ekki síst leggur þitt á vogaskálarnar á tímum hamfarahlýnunar.
Alveg rakið!