Hulda Elma Guðmundsdóttir lést í gær 77 ára að aldri á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum í Reykjavík. Sorg yfir andláti hennar teygir sig til Færeyja, en þar var litið á hana sem sérstakan Færeyingavin.
Elma var fyrrverandi ritstjóri Austurlands og bæjarfulltrúi í Neskaupstað en auk þess var hún mikil íþróttakona. Hún varð fyrst kvenna formaður héraðssambands þegar hún varð formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands árið 1972.
Síðar varð hún framkvæmdastjóri sambandsins. Elma var virk í starfi Alþýðubandalagsins, meðan það var og hét. Fyrir þann flokk sat hún í bæjarstjórn í tvö kjörtímabil auk þess að sitja í fjölda ráða og nefnda.
Elmu er minnst á Færeyskum miðlum en rekja má vináttu hennar við bræður okkar þar til þess að hún átti ríkan þátt í að koma og styrkja vinatengsl milli Norðfjarðar og Sandavogs í Færeyjum. Jóanis Nielsen skrifar minningargrein um hana á vefsíðunni jn.fo. Hann segir:
„Elma var ein av teimum, sum fekk vinarbýarsambandi millum Neskaupstað og Sandavág í lag. Óteljandi ferðir hevur hon verið í Sandavági tá íð Ítróttarfelagið Þróttur vitjaði í Sandavági. og eins ofta hevur hon víst okkum blíðskap og tikið hjartaliga ímóti okkum, tá ið vit vitjaðu í Neskaupstað.“
Hann segir hana hafa verið öfluga í handbolta. „Elma leikti hondbólt og minnast vit hana sum stórleikara, sterk og skjót og gjørdi sítt til góðu hondbóltsúrslitini hjá Þrótti. Vit hava samkenslu við tykkum ið mist hava. Hvíl í friði góða vinkona.“