Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Signý glímdi við ADHD: „Mér fannst ég alltaf vera að bregðast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Signý Rós Ólafsdóttir hlaut verðlaun sem Outstanding woman director á kvikmyndahátíðinni Winter Film Awards International Film Festival í New York í vor fyrir útskriftarverkefni sitt úr Kvikmyndaskóla Íslands, aðeins tvítug að aldri. Fyrir nokkrum árum hefði hana þó ekki grunað að hún yrði á þessum stað í tilverunni því hún passaði engan veginn inn í skólakerfið og segist í grunnskóla sífellt hafa fengið þau ósögðu skilaboð að hún væri heimsk. Í tíunda bekk kom í ljós að hún er með lesblindu og athyglisbrest, sem í dag er greint ADHD sem hafði verið ógreint öll þessi ár og það breytti ýmsu. Nú hefur Signý Rós gengið til liðs við Geðhjálp og mun í vetur ferðast milli grunnskóla landsins og segja sögu sína til að hvetja og styrkja þau börn sem verða út undan í skólakerfinu.

„Mín upplifun er að það passa ekkert allir inn í þennan fyrirframákveðna kassa sem skólakerfið vinnur eftir,“ segir Signý Rós spurð hvernig hún hafi upplifað skólakerfið. „Allir eiga að vera geðveikt góðir í að lesa mörg orð á mínútu, góðir í stærðfræði og svo framvegis, það er bara alls ekki þannig. Það geta ekkert allir leyst jöfnur eða fundið x. Ég get það til dæmis ekki. Ég gat aldrei fundið x-ið en ég get gert stuttmyndir eða skrifað fyrir þig sögu um hvað sem er. Það vantar sveigjanleika í kerfið til að koma til móts við þá krakka sem passa ekki inn í rammann.“

Signý Rós segist ekki hafa verið dæmigert ADHD-barn, það hafi farið afskaplega lítið fyrir sér í skólanum og hún hafi eiginlega bara gleymst þess vegna.

„Ég var alltaf rólega barnið í bekknum,“ segir hún og brosir. „Sat aftast og það fór rosalega lítið fyrir mér, þannig að ég gleymdist bara, ég var líka í svo erfiðum bekk á tímabili. Kennurunum fannst ég alveg fyrirmyndarnemandi í tímum, en ég var bara að horfa út um gluggann, á kafi í eigin heimi og átti alltaf mjög erfitt með að læra. Mamma og pabbi stóðu í eilífri baráttu við að fá mig til að læra heima. Ég var ekki þetta týpíska ADHD-barn sem oft er talað um, þetta aktíva barn sem getur ekki setið kyrrt, heldur var ég hin gerðin sem beinir allri orkunni inn á við. Eins og þekkt er í dag sérstaklega meðal stelpna með ADHD.“

Fór í gegnum allan grunnskólann án þess að fá aðstoð

Signý Rós flutti nokkrum sinnum sem barn vegna náms og vinnu foreldranna og var í fjórum grunnskólum en það var alls staðar sama sagan, alveg fram í níunda bekk grunnskólans.

- Auglýsing -

„Það voru samt margir kennarar sem sáu að það var eitthvað að,“ segir hún. „Ég var ekki alveg að funkera eins og allir hinir, en það var samt enginn sem steig fram og gerði eitthvað í málinu fyrr en ég var komin í níunda bekk. Þá kom inn nýr kennari, Atli Sveinn Þórarinsson áttaði sig fljótlega á því að það væri hægt að ná meiru út úr mér með öðruvísi aðferðum. Ég náði líka að tengja við hann í gegnum fótboltann. Ætli hann hafi ekki bara bjargað lífi mínu? Hann sendi mig í greiningu. Þannig að ég fór í gegnum næstum allan grunnskólann án þess að neinn pældi í því að ég þyrfti einhverja öðruvísi aðstoð eða aðferðir en hinir krakkarnir.“

„Það var alltaf verið að reyna að laga mig til að ég passaði inn í rammann.“

Þrátt fyrir að vera svona róleg innan veggja skólans fékk Signý Rós útrás fyrir orkuna með öðrum hætti, hún stundaði fótbolta og alls konar íþróttir frá unga aldri og vildi helst hvergi annars staðar vera en á vellinum.

„Ég var alltaf í fótbolta,“ segir hún og hlær. „Og það var tekið sem merki um að það væri allt í lagi með mig að ég mætti alltaf á allar æfingar og tók aukaæfingar, var alltaf með boltann og ég stóð mig vel þar. En ég var samt ekkert að læra neitt í skólanum en alltaf að reyna, með falleinkunn í samræmdu prófunum, enda er maður metinn eða dæmdur þar eftir því hvað maður kann í þrem fögum og þegar ég kom upp í framhaldsskóla entist ég auðvitað ekki lengi þar. Ég hafði ekki grunninn sem þurfti.“

- Auglýsing -

Ósögð skilaboð um að standa sig ekki

Margir með ADHD-greiningu glíma einnig við þunglyndi og kvíða en Signý Rós segist aldrei hafa fundið fyrir þunglyndi. Kvíðann þekki hún hins vegar vel og kannski skólaleiða.

„Þegar ég hugsa til baka man ég oft eftir kvíða, gat oft ekki sofnað á kvöldin út af kvíða, kveið lífinu og að mæta í skólann,“ segir hún. „Maður var aldrei að standa sig nógu vel og fannst maður bara vera heimskur. Ég gat ekki alltaf gert eins og kennarinn bað mig um að gera, ég gat ekki setið og einbeitt mér og ég bara funkeraði ekki fyrr en ég var komin á fótboltavöllinn og fékk útrás við að koma boltanum í markið. Kvíðinn tengdist því að vera alltaf að bregðast og vera alveg vonlaust tilfelli. Ég fékk ósögðu skilaboðin; þú ert ekki að standa þig, oft frá kennurunum þótt þeir segðu það ekki beint út en aðallega fann ég bara fyrir því sjálf að ég var ekki að standa mig nógu vel og kannski setti ég þessa pressu á sjálfa mig því mér fannst ég ekki vera eins og hinir.“

Signý Rós segir foreldra sína alltaf hafa stutt við bakið á sér og hvatt sig áfram og það sé eiginlega alfarið þeim að þakka að hún sé yfirhöfuð læs.

„Ég er rosa heppin,“ segir hún. „Foreldrar mínir eru stuðningsaðilar mínir númer eitt, tvö og þrjú og eru algjörlega frábær. Ef þau hefðu ekki verið svona hörð við mig þegar ég var að byrja að læra að lesa þá kynni ég ekki að lesa í dag. Skólinn var ekki að veita mér þá athygli og stuðning sem ég þurfti til að læra að lesa, það var allt gert heima með miklum erfiðismunum fyrir mömmu og pabba því ég vildi alls ekki lesa, ég vildi fara út í fótbolta. Það kom svo í ljós þegar ég fór í greininguna í tíunda bekk að ég er með lesblindu og það var mikill léttir og einhvers konar staðfesting, það var þá einhver ástæða fyrir því að ég gat ekki lesið eins hratt og allir aðrir og er ekki enn búin að ná fullum tökum á lestri, en mér finnst það smávegis núna, lesblinda handritshöfundinum. Heilinn í mér fann bara sína eigin aðferð til að lesa enda þurfti hann að gera það til að virka í þessu kerfi. En pabbi og mamma hafa alltaf staðið við bakið á mér og komið mér í gegnum allt.“

Þegar kom að því að fara í framhaldsskóla flutti Signý Rós til Hafnafjarðar til ömmu sinnar og afa og fór í Flensborgarskólann. Hún segist muna sérstaklega vel eftir foreldrafundi þar sem þau fóru sérstaklega til þess að tilkynna kennaranum að hún færi í framhaldsskóla.

„Það er mjög sterk minning,“ segir hún og brosir. „Það var alls ekkert sjálfsagt að ég færi í framhaldsskóla og mér fannst það nokkurs konar sigur. Það var ákveðið að ég flytti ein til ömmu og afa til að komast í nýtt umhverfi og prófa eitthvað nýtt og sjá hvort það yrði til þess að mér gengi betur í skólanum. Ég fór á íþróttabraut en fann mig hins vegar alls ekki í framhaldsskóla, þar var líka svona kassalagað kerfi og einhvern tíma var ég látin sitja eftir því ég neitaði að lesa upphátt fyrir framan bekkinn. Það var enginn sem spurði hvort það hentaði mér eða hvað það væri sem mig langaði að gera. Ég entist þar inni í tvö ár og náði prófum í einhverjum fögum en svo fann ég að þetta var ekki að virka þannig að ég hætti. Ætlaði bara að fara að vinna eða eitthvað en þá komst ég inn í kvikmyndaskólann, sem kom mér mjög gleðilega á óvart og verð ég þeim ævinlega þakklát fyrir tækifærið og fyrir að hafa trú á mér.“

Hélt áfram að reyna að fylgja gamla forminu

Þau gleðitíðindi að hún hefði fengið inngöngu í Kvikmyndaskóla Íslands fékk Signý Rós rétt eftir átján ára afmælið og þar með tók líf hennar nýja og mun ánægjulegri stefnu, hún fann hilluna sína.

„Ég sótti um í einhverju hvatvísikasti eftir sigur í fótboltaleik,“ segir hún hlæjandi. „Ég man að ég kom heim og tilkynnti mömmu að ég ætlaði að sækja um í Kvikmyndaskólanum og henni fannst það frábær hugmynd. Höfðum reyndar aðeins rætt það en aldrei tekið það neitt lengra. Ég sendi inn umsókn sama kvöld og ég vonaðist í mesta lagi til að komast inn um áramótin því það var langt liðið á sumarið, en svo fæ ég póst um að koma í viðtal og svo var ég bara allt í einu komin inn. Ég var samt alveg nokkrar vikur eftir að ég byrjaði að losna úr gamla forminu, það var búið að negla mig svo kirfilega niður í það að ég var lengi að leyfa ímyndunaraflinu að taka völdin. Kennarinn minn var alltaf að hvetja mig til að sleppa mér og leyfa hugmyndunum að flæða, ég var bara orðin svo vön því að berja mig niður fyrir að gera hlutina ekki rétt og fylgja gamla skólaforminu. En þetta kom svo smám saman.“

Signý Rós segist hafa átt þann draum að vinna við leikhús eða kvikmyndir eiginlega frá því að hún man eftir sér.

„Ég hef í mörg ár átt drauminn um leikhús og bíómyndir,“ segir hún. „Ég var ekkert ákveðin í að verða leikstjóri fyrr en stuttu áður en ég komst inn í Kvikmyndaskólann. Þá uppgötvaði ég að það væri hægt að vinna við það að skrifa handrit og leikstýra. Það hefur samt alltaf verið þörf hjá mér að búa til bíó eða leikhús. Ég hef alltaf verið mikið í leikhúsi og verið að væflast þar.“

„Alltaf verið að reyna að laga mig“

Spurð hvort hún hafi þá leikið sjálf í sýningum fer Signý Rós að hlæja. „Ég gerði það þegar ég var yngri,“ segir hún. „En þegar ég eltist var sjálfstraustið til þess ekki lengur til staðar. Ég gat alls ekki hugsað mér að standa uppi á sviði fyrir framan fólk og leika. Ég var alltaf að reyna að gera mitt besta en samt skilaði það sér aldrei þannig að ég var eiginlega búin að ákveða að vera bara í fótboltanum. Og það hentaði mér ágætlega að vera bara úti á velli. Var samt alveg að laumast til að horfa á íslenskar bíómyndir og leikrit öll kvöld. Þegar ég var ellefu ára horfði ég til dæmis þrisvar á Íslandsklukkuna, þriggja tíma sýningu á erfiðu máli. Mamma og pabbi voru alveg steinhissa en áttuðu sig á því að það væri eitthvað að gerast hjá mér og voru bara mjög ánægð með það. Það hefur alltaf blundað í mér að búa eitthvað til og ég notaði gömlu vídeóvélina sem við áttum heima til að gera stuttmyndir og taka upp bara eitthvað og alls konar þegar ég var yngri, þannig að þetta var alltaf til staðar. Ég held það sé þörfin til þess að segja sögur sem liggur að baki, ég elska að segja sögur.“

Spurð hvort viðmótið sem hún mætti í skólakerfinu hafi brotið sjálfsmynd hennar segir Signý Rós engan vafa leika á því.

„Já, það gerði það,“ segir hún hugsi. „Af því manni fannst maður alltaf vera að klúðra öllu og mamma og pabbi voru á endalausum foreldrafundum út af mér. Það var alltaf verið að reyna að laga mig til að ég passaði inn í rammann. Skilaboðin voru: Þú mátt vera eins og þú vilt svo lengi sem það hentar okkur og passar inn í formið okkar. Það var bara ekkert vit í þessum misvísandi skilaboðum. Svo kom maður heim og átti að læra einhverja stærðfræði sem öllum fannst svo auðveld en fyrir mér voru þetta algjör geimvísindi, ég sat bara og starði á bækurnar. Og þegar allir aðrir segja að þetta sé auðvelt þá finnst manni maður auðvitað bara vera heimskur að geta það ekki en á þeim tíma hefði ég vel geta talið upp alla leikmenn í ensku deildinni og þá sérstaklega í Liverpool, það var eitthvað sem ég hafði áhuga á. Annars hafði ég lengi lifað í þeirri trú að ég væri vitlaus og heimsk áður en ég byrjaði í Kvikmyndaskólanum.“

Smyglað inn á verðlaunahátíðina

Signý Rós útskrifaðist frá Kvikmyndaskólanum í maí 2019 og hefur síðan verið á fullu við að skrifa handrit og leikstýra. Síðastliðið vor fékk hún svo þau skilaboð að útskriftarmyndin hennar, stuttmyndin Hafið ræður, væri tilnefnd til verðlauna á kvikmyndahátíðinni Winter Film Awards International Film Festival í New York og það endaði með því að hún hlaut verðlaunin sem besti kvenleikstjórinn. Átti hún von á að ná svona langt á svona skömmum tíma?

„Nei, alls ekki. Ef einhver hefði sagt við litlu Signýju að hún ætti eftir að vinna verðlaun fyrir stuttmyndina sína þá væri hún sennilega enn þá að hlæja. Ég tek bara að mér verkefni og tek mínar hugmyndir og vinn eins vel og ég get,“ segir hún hugsi. „Eftir að ég útskrifaðist fór ég að vinna sem tæknimaður fyrir KrakkaRÚV. Ég var aðallega að taka upp og klippa en fékk líka að skrifa handrit, skrifaði til dæmis hluta af Jólastundinni í fyrra og fleira. Þar var ég í nokkra mánuði en ákvað þá að fara til Berlínar til að víkka sjóndeildarhringinn. Ég fór reyndar fyrst til New York til að vera á hátíðinni, ætlaði ekkert að vinna verðlaun, bara upplifun að fara og sjá afkvæmið mitt svona úti í heimi. Svo fengum við þau skilaboð að myndin væri tilnefnd og svo var ég allt í einu komin með verðlaun í hendurnar. Það var reyndar mjög fyndið því ég var bara tvítug og til þess að komast inn á skemmtistaðinn þar sem lokahátíðin var haldin þurfti maður að vera tuttugu og eins. Þannig að það þurfti að smygla mér inn til að taka við verðlaununum. Ég fór svo þaðan til Þýskalands og náði smátíma áður en COVID-19 skall á.“

Rekst aftur á veggi skólakerfisins

Nú leigir Signý Rós stúdíó í Reykjavík með öðrum listamönnum og er um þessar mundir að stofna sitt eigið fyrirtæki. Draumurinn er samt að halda áfram að mennta sig í kvikmyndagerð og halda áfram að verða betri í að segja sögur en þar rekst hún aftur á veggi skólakerfisins þar sem hún lauk ekki stúdentsprófi.
„Mig langar að læra meira og verða betri leikstjóri og handritshöfundur,“ útskýrir hún. „En ég er bara lent á smávegis vegg þar sem ég er ekki með stúdentspróf. Nú er ég að leita að skólum sem bjóða upp á nám fyrir fólk sem er ekki með stúdentspróf eða eru til í að taka mig inn á undanþágu, sem er geðveikt mikið vesen. En ég er að vinna í því að taka stúdentinn, næ að taka einn og einn áfanga með, ákveðinn skellur að þurfa að stíga til baka og fara í það að lesa Snorra-Eddu og leysa jöfnur en ég verð bara að kyngja því og reyna að klára. Ég er búin að finna mína hillu og ég ætla að verða frábær leikstjóri og handritshöfundur einn daginn en ég þarf samt að stíga til baka og fara í framhaldsskóla til að klára einhverja dönsku- og stærðfræðiáfanga.

Kvikmyndagerð er samvinna eins og svo margt annað og maður finnur sér bara fólk sem er betra en maður sjálfur í því sem þarf að gera. Ég er með mína framleiðendur og ég er með minn tökumann sem er frábær og þau eru betri en ég í stærðfræði og dönsku þannig að ef til þess kæmi að það þyrfti að nota þá kunnáttu myndu þau bara sjá um það. Ég treysti þeim fullkomlega fyrir því, að sjá um samningagerð og fjármál, ég þarf ekkert að kunna það þó að ég sé með puttana í því.“

„Ef einhver hefði sagt við litlu Signýju að hún ætti eftir að vinna verðlaun fyrir stuttmyndina sína þá væri hún sennilega enn þá að hlæja.“

Spurð við hvað hún sé að vinna þessa dagana er Signý Rós skjót til svars.

„Núna er ég að vinna í alls konar eins og til dæmis herferð fyrir ADHD-samtökin sem verður birt í október. Svo er ég að byrja þessa hringferð með Geðhjálp þegar COVID-19 leyfir og svo er ég alltaf að skrifa bæði bíómynd og þætti. Ég og fleiri vorum að gera öndunar æfingamyndband fyrir Björgvin Pál handboltamann og erum við að klára tónlistarmyndband. Og svo ætlum við að skjóta eina stuttmynd fyrir jólin. Ég er ofsalega hrifin af hugmyndinni um að gera barna- og fjölskyldumyndir, krakkar eru snilld. Og svo er ég auðvitað í fótboltanum líka, spila með ÍR en hef því miður ekkert náð að mæta núna í september. Þau hjá ÍR sýna því rosalega mikinn skilning, það er frábært og það er gaman að ná svo loksins að mæta á æfingar. Það er svolítið erfitt að samræma það að vera í kvikmyndagerð og fótbolta, það fer eiginlega ekki saman því kvikmyndagerð er lífsstíll og fótbolti er lífsstíll, en ég er samt að reyna. Það er kannski bara fínt að ég sé svona ofvirk og hafi svona mikla orku. Ég hef líka kynnst svo mörgu mögnuðu fólki undanfarin ár sem hefur stutt mig og hlakka bara til að kynnast enn fleirum, ég elska fólk.“

Talandi um hringferðina með Geðhjálp, hvernig kom það samstarf til og um hvað snýst þinn hluti verkefnisins?

„Ég var að vinna fyrir ADHD-samtökin, eins og ég sagði áðan og leitaði til alls konar fólks sem veit meira um það málefni en ég,“ útskýrir Signý Rós. „Ég sendi meðal annars skilaboð á Héðin Unnsteinsson til að fá spjall við hann. Við hittumst og áttum mjög gott spjall og svo var hann bara búinn að bóka fund með Grími hjá Geðhjálp. Þegar til kom mætti Héðinn hins vegar ekki á fundinn og við Grímur höfðum aldrei hist þannig að við vissum eiginlega ekki hvernig við ættum að nálgast umræðuna, en svo kom í ljós að þeir höfðu verið að ræða það að fá mig með sér í ferð í skóla hringinn í kringum landið til að segja mína sögu af skólakerfinu og að það sé hægt að ná langt þótt maður nái ekki að leysa jöfnur og að það sé hægt að gera góða hluti þótt maður sé ekki góður í dönsku og funkeri ekki alveg í átta til þrjú skólakerfi. Þetta er flókið og það eru allir að gera sitt besta, ég hef alla vega aldrei hitt manneskju sem er eitthvað að reyna að standa sig illa, þetta er greinilega bara það stórt vandamál sem aðeins þarf að hrista upp í og skoða í kjarnann. Það eru nefnilega ekki allir eins og sama kerfi og hugmyndafræði hentar ekki öllum.“

Viðtalið má finna í blaði Geðhjálpar.

Sjá einnig www.39.is. Þar getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -