Orðrómur
Þau tíðindi hafa borist að Margrét Friðriksdóttir álitsgjafi hafi afráðið að stofna nýjan fjölmiðil með aðsetur í Nóatúni 17. Morgunblaðið segir frá þessu í dag. Það kostulega í málinu er að leigusalinn mun,samkvæmt heimildum, ekki hafa haft hugmynd um að Margrét væri á leiðinni með sitt fólk í húsið en las um það í fjölmiðlum eins og almenningur. Fasteignasali nokkur hafði samið um leiguna undir óljósum formerkjum.
Margrét er þekkt fyrir eindregnar skoðanir sínar til hægri. Hún hefur ýmislegt á móti innflytjendum og finnur fjölmenningu margt til foráttu. Margrét og Sema Erla Serdar, baráttumaður fyrir réttindum flóttafólks, hafa eldað grátt silfur sem endaði í átökum. Margrét upplýsti á sínum tíma að soðið hefði upp úr á milli þeirra þegar hún veittist að Semu vegna þess að Sema hefði dreift um sig lygasögum sem leitt hefðu til þess að hún var óvelkomin á krá nokkra.
Margrét upplýsir í Mogganum að bæði Miðflokksmenn og Sjálfstæðismenn standi að baki fjölmiðlinum. Áhugi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á fjölmiðlarekstri er þekktur en hann hefur víða verið nefndur til sögu þar sem fjölmiðlar Björns Inga Hrafnssonar hafa átt í hlut. Frægt fjárkúgunarmál, Hlínar Einarsdóttur, fráfarandi unnustu Björns Inga, á hendur Sigmundi snerist um að hún vildi upplýsa um slík tengsl en var handtekin og dæmd án þess að uppljóstranir kæmu fram. Skoðanir Margrétar og harðkjarna Miðflokksins í innflytjendamálum þykja keimlíkar. Þá á hún samleið með þeim hluta Sjálfstæðisflokksins sem aðhyllist róttæka þjóðernishyggju.
Margrét hefur auglýst eftir blaðamönnum. Öruggt má telja að ekki þýði fyrir Semu að sækja um starfið. Staðsetning nýrrar ritstjórnar í Nóatúni er söguleg í því ljósi að í húsinu var Útvarp Saga til húsa áður og reyndar Viðskiptablaðið líka …