Ljósmyndarar eyða gífurlegum tíma með brúðhjónum, bæði fyrir og eftir athöfnina, og mynda hjónin á sínum einlægustu og fallegustu stundum.
Vefsíðan Huffington Post fékk nokkra ljósmyndara til að ausa úr viskubrunni sínum og segja frá hvernig þeir sjá að hjónabönd eiga ekki eftir að endast að þeirra mati.
1. Annar aðilinn hefur engan áhuga á myndatökum
„Það hafa ekki allir áhuga á myndatökum. Í raun hitti ég oft kúnna þar sem maðurinn hefur áhuga á öllu nema að vera ljósmyndaður á brúðkaupsdaginn. Sem betur fer vita þessir menn að ljósmyndun er mikilvæg fyrir maka þeirra þannig að þeir taka þátt af fúsum og frjálsum vilja. En það er ekki alltaf svoleiðis. Snemma á ferli mínum réð brúðgumi mig í gegnum síma. Þegar ég kom í brúðkaupið og kynnti mig fyrir brúðinni benti hún á myndavélina mína og sagði: Ekki benda þessu helvíti að mér í dag! Það gerði þetta að frekar erfiðum degi. Þau skildu þremur mánuðum síðar. Ég held að viljinn til að taka þarfir maka þíns til greina með gleði í hjarta sé lykillinn að löngu sambandi. Og það felur meðal annars í sér að taka fagnandi á móti ljósmyndun þó það sé ekki í uppáhaldi hjá þér.“
– Rob Greer, brúðkaupsljósmyndari í Los Angeles.
2. Meiri en 20% gesta afboða sig í brúðkaupið
„Það er vanalegt að 10-15% af gestunum geti ekki mætt í brúðkaupið en þegar það hlutfall fer yfir 20-25% ættirðu að líta þér nær. Það er merki um að vinir þínir og fjölskylda viti að þetta á aldrei eftir að ganga! Það er sorglegt, en svo satt. Ég myndaði einu sinni brúðkaup þar sem parið bauð 250 gestum, borgaði fyrir að minnsta kosti 200 í mat og aðeins 60 manns mættu. Þetta sama par spurði mig hvort mig langaði til að bjóða eiginkonu minni og börnum í veisluna því þau hefðu borgað fyrir allan þennan mat og enginn kom! Ég fékk að vita það nýlega að þau væru skilin.“
– Brian Delia, eigandi Brian Delia Photography í Clifton.
3. Sambandið er þvingað
„Það er slæmur fyrirboði þegar ég er að mynda par og annað þeirra þarf að bæta upp áhugaleysi hins aðilans. Kannski hafa þau skoðað hundruði mynda á netinu og vilja að brúðkaupsmyndirnar líti alveg eins út og myndirnar á Pinterest. Því miður spáðu þau ekki í hvernig sambandið þeirra væri í þessari sýn sinni. Stundum vantar bara náttúrulega nánd og tilfinningaleg tengsl. Of oft er einblínt á að fá góða mynd til að deila á samfélagsmiðlum. Pörin hafa minni áhyggjur af því að leyfa ljósmyndaranum að mynda ástina í sínu hreinasta formi. Það er erfitt að horfa uppá par sem er svona augljóslega ekki í tengslum við hvort annað.“
– Gretchen Wakeman, brúðkaupsljósmyndari í Scottsdale.
4. Vinirnir hnakkrífast
„Það er slæmt merki þegar það eru stanslaust rifrildi og drama í brúðarhópnum. Hér er dæmi: Á leið í eitt brúðkaup, þegar voru tíu mínútur þar til ég kæmi á staðinn, fékk teymið mitt símtal. Það var brúðurin að segja okkur að búið væri að aflýsa brúðkaupinu. Hún var bitur og sagði okkur að fólki kæmi ekki saman og aðilar innan brúðarhópsins og æskuvinir væru að rífast. Hún minntist á að svaramaðurinn hefði sofið hjá aðalbrúðarmeyjunni, sem var gift. Það voru stympingar á milli strákanna og þetta var algjör ringulreið. Við vitum ekki hvort þau eru enn saman, en ég ímynda mér að svo sé ekki.“
– Matt Adcock, meðstofnandi Del Sol Photography í Playa del Carmen.
5. Parið er ekki á sömu blaðsíðu er varðar fjármál
„Ég ætla að kalla þetta par T og M þannig að við nefnum þau ekki á nafn. Þegar ég gekk inn í stúdíóið mitt til að kynna fyrir þeim af hverju þau ættu að velja mig sem ljósmyndara, spurði T hvort hún gæti farið á salernið. Er hún gekk í burtu sagði M við mig: Þetta brúðkaup er að fara með mig á hausinn. Við erum að eyða helmingi meiru en við ætluðum í byrjun. Peningar er mikilvægur þáttur í öllum hjónaböndum og er oft orsökin fyrir því að þau endast ekki. Það var svo sannarlega málið með þetta par. Þau skildu sex mánuðum eftir að þau héldu æðislegt brúðkaup með rúmlega 150 gestum.“
– Carlos G. Osorio, eigandi Miami Photo í Miami.
6. Parið skýtur á hvort annað í myndatökunni
„Ég hef myndað rúmlega þúsund brúðkaup á ferli mínum og ég veit að þegar ég sé par að rífast eða kítast yfir daginn að það muni bara versna og leiði líklega til skilnaðar. Sum pör segjast bara vera að grínast í hvort öðru en það er yfirleitt sannleikur á bak við hvert skot eða grín. Það versta sem ég hef séð var brúður sem sagði við starfslið sitt: Ég er búin að fá nóg af því að kyssa hann. Mjög lúmsk, en afar djúpt og skipulagt. Brúðguminn sagði ekki orð og ég hugsaði: Vá, þetta er upphafið að endalokunum.“
– Rob Greer.
7. Sambandið virðist aðeins vera byggt á líkamlegu aðdráttarafli
„Við höfum séð pör sem eru mjög ástúðleg og utan í hvort öðru allt kvöldið – og nú eru þau skilin. Ég man eftir einu brúðkaupi þar sem ég var með mjög ungu og hraustu pari. Samband þeirra var mjög líkamlegt og það var gaman að horfa á líkamstjáningu þeirra og hvernig þau höfðu samskipti við hvort annað. Í lok brúðkaupsins buðu þau mér að mynda þau í einkaherbergi til að ná innilegum og kynþokkafullum myndum. Ég var í vafa hvort þau vildu að ég myndaði þau eða tæki þátt í leiknum. Það var skrýtin tilfinning og ég neitaði kurteisislega, kláraði vinnuna mína og fór heim. Þau skildu einu ári eftir brúðkaupið.“
– Sol Tamargo, meðstofnandi Del Sol Photography í Playa del Carmen.
8. Parið eyðir nánast engum tíma saman í veislunni
„Flest pör eru spennt fyrir veislunni eftir athöfnina. Stressið á brúðkaupsdaginn er farið og það er komið að því að hafa gaman og slappa af. Pörin eyða vanalega kvöldinu í að heilsa gestum, dansa og fagna giftingunni. Þegar par fer hvort í sína áttina til að tala við gesti og skilur maka eftir á dansgólfinu svo klukkutímum skiptir þá veldur það áhyggjum. Ég hef myndað alla veisluna og aðeins náð nokkrum myndum af parinu saman – og það er mjög slæmur fyrirboði.“
– Gretchen Wakeman.
Texti / Lilja Katrín
[email protected]