Um mánaðarmótin verður hægt að sækja um svokölluð hlutdeildarlán. Láninu er ætlað að hjálpa ungu fólki með lágar tekjur að komast úr foreldrahúsum eða af leigumarkaði og kaupa fyrstu eign. Lánið hentar einnig þeim sem hefur átt íbúð – séu 5 ár liðin frá síðustu eign. Viðkomandi þarf eftir sem áður að standast greiðslumat en fær með þessu aðstoð við útborgun. Þá er gert ráð fyrir að afborganir af fasteignalánum fari ekki yfir 40% af ráðstöfunartekjum.
Lárus Ómarsson, löggiltur fasteignasali og eigandi fasteignasölunnar Nýhöfn, segir merkilegt hvað fáir virðast vita um hlutdeildarlánin. „Það kemur mér stórkostlega á óvart. Það virðist vera meira um að fullorðið fólk átti sig á þessu.“
Blaðamaður skýtur inn í að það sé skrýtið í ljósi þess hve mikið af ungu fólki býr enn heima. Maður hefði haldið að foreldrarnir kepptust við að kynna þessa nýju leið. Lárus tekur undir það og bætir við:
„Ég held að mikið af kaupum og sölum undanfarna mánuði skýrist af miklu nábýli fjölskyldumeðlima í allri þessari einangrun. Fólk vill meira pláss og auka herbergi fyrir skrifstofuna.“
Eins og mörgum er kunnugt var 40% aukning á sölu fasteigna í ágúst milli áranna 2019 og 2020.
„Þetta er íslenska leiðin. All inn. Við brettum upp ermar og vöðum út í.“
En aftur að hlutdeildarlánum.
Eins og með öll lán þarf auðvitað að borga þau til baka og það er gert þegar viðkomandi selur íbúðina, eða við lok lánstíma, og fer upphæð endurgreiðslu eftir markaðsverði íbúðar við uppgjör.
Ekki er hægt að kaupa hvaða íbúð sem er. Lánað fyrir nýjum íbúðum eða íbúðum á landsbyggðinni sem hafa verið mikið endurnýjaðar.
Með hagkvæmum íbúðum er átt við íbúðir sem uppfylla stærðar- og verðmörk.
Þessu fyrirkomulagi er ætlað að styðja við nýbyggingar hagkvæmra íbúða. Þá þarf íbúð að vera byggð af verktaka sem er með samning við HMS.
En þótt hugmyndin sé góð óttast margir að ekki sé nægt framboð á íbúðum sem falla undir þessi skilyrði, sérstaklega ekki á höfuðborgarsvæðinu þar sem eftirspurnin er mest. Hugmyndin um hlutdeildarlán er upphaflega frá Bretlandi.
„Í Bretlandi er tekjutengingin hins vegar allt öðruvísi. Þar fá allir hlutdeildarlán sem ekki eiga fyrir útborgun en einstaklingur fær ekki hærri upphæð en 4,5 sinnum árslaunin sín og hjón 3,5 sinnum samanlögð árslaun og ekki eru sett takmörk á stærð en sett er þak á hversu hátt lánið sé.“ Lárus Ómarsson segir hugmyndina frábæra í grunninn en í meðförum ráðuneytisins hér hafi tekist að stúta henni, eins og hann orðar það sjálfur.
,,Hér fær enginn hlutdeildarlán nema hann sé með minna en einhverja ríkisupphæð í laun. Þetta er frábær fjárfesting fyrir ríkið. En stjórnvöld hafa sett þessu allt of þröngan ramma. Auðvitað ættu bara allir að geta tekið hlutdeildarlán og fyrir þá stærð af íbúð sem fólk kýs sér.“
Samkvæmt hlutdeildarleiðinni er gert ráð fyrir því að lána fyrir 400 íbúðum á ári. Samkvæmt Lárusi seldust 87 íbúðir það sem af er árinu 2020 sem falla undir hlutdeildarleiðinna sem er afar lágt hlutfall af heildinni segir hann.
„Lagerinn af nýbyggingum er að tæmast. Ég veit ekki hvar menn ætla að finna 400 íbúðir sem falla undir þessa skilgreiningu á næsta ári.“
Þá gerir Lárus athugasemd við það að ríkið skuli með þessum hætti reyna að hafa áhrif á hvernig íbúðir verktakar byggi. Þá skarist þau skilyrði oft á tíðum við þær kvaðir sem Reykjavíkurborg setur á lóðir um að byggja skuli íbúðir í ákveðinni stærð og þar sé síður en svo gert ráð fyrir litlum íbúðum sem gefa möguleikann á hlutdeildarláni. „Það er eitthvað rangt við það að ráðuneytið skuli pressa á markaðinn með þessum hætti, sérstaklega þegar og ef markaðurinn kallar eftir einhverju allt öðru.“
Lárust segist þó þrátt fyrir allt fagna tilkomu hlutdeildarláns sem hann segir frábæran kost fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign. „Svo má ekki gleyma því að þetta er eina alvöru úrræðið fyrir þá sem misstu fasteignina sína í hruninu því þetta gildir líka fyrir þá sem ekki hafa átt fasteign sl. fimm ár“
Lárus segir hins vegar afar fáar íbúðir falla undir skilgreiningu hlutdeildarláns á markaði í dag.
„Þetta lyktar allt af einhverri pólitík. Vittu til að Ásmundur Daði mun veifa þessu í kosningunum að ári um að hann hafi komið þessu á. Þetta er risastór veisla fyrir pólitíkina, allir eru bara að skála í kampavín yfir að hafa komið þessu á, en fyrstu íbúðarkaupendum – þeim er ekki boðið!“