Svilkona Jóhönnu Björnsdóttur, sem lést í bruna á Augastöðum í Borgarfirði, minnist hennar fyrir elskulegheit, hjálpsemi, gestrisni, brosmildi og dilandi hlátur. Það gerir Árdís Kjartansdóttir í fallegri færslu á Facebook þar sem hún biður alla um að hjálpa Snorra Jóhannessyni, mági sínum, sem missti allt sitt í brunanum.
Jóhanna lést í brunanum síðastliðinn sunnudag. Lögreglan á Vesturlandi tilkynnti um andlátið og þar sagði að húsið hafi verið alelda þegar slökkvilið og lögregla komu á vettvang. Augastaðir eru um 8 kílómetra frá Reykholti í Borgarfirði. Húsafell er skammt austan við bæinn. Nágrannar, íbúar í Hálsasveit í Borgarfirði, eru í áfalli. Augljóst er að hjónin á Augastöðum eru vinamörg og fjölmargir hafa þegar ritað samúðarkveðjur á Facebook-síðu Snorra.
Samkvæmt heimildum Mannlífs var Snorri í smalamennsku þegar bruninn varð. Árdís segir bóndann ekki aðeins hafa misst lífsförunaut sinn heldur allt sitt. „Eins og margir hafa frétt, varð sá hræðilegi atburður síðasta sunnudag að íbúðarhús Snorra mágs míns og Hönnu svilkonu að Augastöðum í Borgarfirði, brann til grunna og elsku Hanna fórst í brunanum. Snorri hefur því ekki einungis misst lífsförunaut sinn, heldur heimili og allar eigur,“ segir Árdís í færslu sinni þar sem hún biður alla netverja um að láta orðið ganga um fjársöfnun fyrir Snorra:
„Allmargir hafa haft samband, bæði við okkur og aðra í ættingja- og vinahópi Snorra og Hönnu. Þetta góða fólk vill leggja sitt af mörkum til að gera eftirleikinn bærilegri fyrir Snorra. Þau heiðurshjón voru enda vinamörg, sem ekki er að undra, elskuleg, hjálpsöm, röggsöm, dugleg, brosmild, hláturgjörn og hörkuduglegt eðalfólk. Frábærlega gestrisin og skemmtileg heim að sækja á Augastaði. Það fyrsta sem mér kemur einmitt í hug þegar ég minnist Hönnu er dillandi hlátur hennar,“ segir Árdís.
Ef þú vilt svara kalli fjölskyldunnar um fjárstuðning til Snorra á erfiðum tímum þá hefur verið stofnaður styrktarrreikningur í hans nafni:
Reikningsnúmer: 0322-13-400032
Kennitala: 211247-3049