Föstudagur 22. nóvember, 2024
-1.6 C
Reykjavik

Gróðrastía eineltis í Garðabæ

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Saga Ólivers, 10 ára nemanda í Garðabæ, hefur hreyft við mörgum. Hann hefur glímt við það um hríð að hópur drengja á hans aldri meiðir hann með orðum og skilur hann útundan. Drengurinn var í Sjálandsskóla þar sem eineltið á sér væntanlega rót og nærist vegna þekkingarleysis skólastjórnenda og sofandaháttar. Þá hefur það teygt anga sína inn í íþróttafélagið Stjörnuna með þeim afleiðingum að Óliver hraktist úr félaginu og yfir til FH í Hafnarfirði. 10 ára drengur á flótta undan ofsækjendum sínum. Þá er hann farinn úr Sjálandsskóla og í Vogaskóla. Skýringin er svæsið einelti. Þetta er ekki boðlegt í siðuðu samfélag.

Ég hef sótt hann blóðugan í skólann

Sigríður Elín Ásmundsdóttir, móðir drengsins, sagði sögu hans á Facebook. Hún lýsir andlegu ofbeldi og líkamlegu. Viðbrögðin vegna gróðrastíunnar í Garðabæ hafa verið gríðarleg. Hér er hluti af frásögn móðurinnar:

„Strákar úr bekknum plönuðu að mæta fyrir utan heimilið okkar, hrópa niðrandi orð um Ólíver og setja það á Youtube, einhver stoppaði það en Ólíver frétti þetta og það var nóg. Hann varð miður sín bara við að heyra hvað þeim langaði að gera honum.
Ég hef fengið ótal símtöl frá elsku stráknum mínum þar sem hann er grátandi inni á klósetti í skólanum og biður mig að koma og sækja sig því strákarnir hafa hótað honum, hreytt í hann særandi athugasemdum eða lamið hann.
Ég hef sótt hann grátandi í skólann, oft.

Ég hef sótt hann blóðugan í skólann eftir hnefahögg í andlitið, hann fékk blóðnasir“. 

Fjöldi fólks hafði samband við fjölskyldunar til að bjóða fram hjálp sína eða aðstoð í hvívetna. Nokkur fyrirtæki hafa boðið gjafir sem smyrsl á þau djúpu en ósýnilegu sár sem drengurinn ber eftir meðferðina. Sá hugur sem þar er að baki er ágætur en lausnin liggur ekki í því að bera gjafir á fórnarlömb. Lausnin liggur í því að yfirvöld skóla og sveitarfélags í Garðabæ taki sér taki og hlúi að mannlífinu. Illgresið þarf að víkja svo blómin fái þrifist. Kæruleysi í svona málum kostar lífshamingju og jafnvel mannslíf. Í Sandgerði lét lítill drengur lífið eftir að hafa orðið fyrir einelti. Dagbjartur var aðeins 11 ára haustið 2011 þegar hann dó. Hann hafði glímt við einelti frá því hann var sex ára. Dagbjartur litli tók líf sitt og samfélagið í Sandgerði stóð andspænis veruleika sem er grimmari en orð fá lýst.

Um þetta snýst málið í Garðabæ. Það er dauðans alvara sem ekkert getur lagfært nema samfélag hinna fullorðnu taka saman höndum við börnin og innræti þeim góða siði og kærleika hvert í garð annars. Tæplega 10 árum eftir andlát Dagbjartar sjáum við að fátt hefur breyst. Börn eru enn ofsótt af börnum og þeim hrundið fram af brúninni sem markar skilin á milli lífs og dauða.

Þær raddir eru uppi í Garðabæ að Sigríður Elín hafi farið of geyst í málið og skólayfirvöld í Sjálandsskóla hefðu þurft svigrúm til að bregðast við. Það er uppi krafa um þögn. Þetta er hjóm eitt. Móðirin hefur barist fyrir lífi sonar síns í tvö ár og haft samband við skóla og íþróttafélög til að biðja syni sínum griða. Ýmsu hefur verið lofað en efndir eru minni.

Dagbjartur litli tók eigið líf

- Auglýsing -

Það þýðir ekki að halda því fram að ekki sé hægt að uppræta spillinguna sem leiðir til eineltisins. Horfa þarf til foreldra gerendanna ekki síður en þeirra sem eru með dólgshátt við félaga sína. Með réttri vinnu og samráði geta Garðbæingar tryggt það að börn þeirra lifi við sæmilegt jafnvægi og séu ekki í lífshættu vegna ofsókna eða jaðarsetningar. Sú tilhneiging að nota aðferð strútsins og stinga höfði í sandinn gengur ekki. Mál Ólivers á sér sömu sviðsmyndir víða um land. En það er mismundandi hve góð tök skólayfirvöld og foreldrar hafa á málum. Það verður að kæfa þær raddir sem vilja sópa málum undir teppið. Þöggun er ekki í boði. Hún er lífshættuleg.

Sigríður Elín á þakkir skildar fyrir að rísa upp til varnar barni sínu og öllum öðrum sem verða fyriir einelti. Vonandi verður mál Ólívers til þess að fólk vaknar upp og tekur til í sínum garði. Hver og einn verður að líta í sinn eigin barm og ræða málin við sína nánustu. Gróðarstían í Garðabæ verður að vera víti til varnaðar. Skólayfirvöld í Garðabæ og stjórnendur Stjörnunnar eiga þann möguleika að uppræta illgresið í bænum sínum og verða til fyrirmyndar öllum öðrum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -