Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur áhyggjur af stjórnlausri fjölgun öryrkja. Hann lýsir þessu á skoðun og segir að stjórnvöldum hafi mistekist að ná stjórn á vandanum.
„Það er mikið áhyggjuefni að á örfáum árum hafi þeim sem eru á örorkubótum eða endurhæfingalífeyri fjölgað um 4.300 manns. Það eru u.þ.b. jafn margir og búa í Vestmannaeyjum,“ skrifar Bjarni.
„Okkur er að mistakast að ná utan um þennan vanda og verðum að bregðast við,“ skrifar Bjarni.
Hann efast um heilindin í auglýsingaherferð Öryrkjabandalags Íslands þar sem kaka og skipting hennar er í lykilhlutverki.
„Ég heyri ákall Öryrkjabandalagsins um að hækka bætur enn frekar. Myndband þeirra er hins vegar misheppnað, þótt kakan sé falleg eftirmynd af þeirri sem ég gerði. Það dugar ekki til, því það er rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið. Kakan hefur stækkað og almannatryggingar hafa fengið stærri sneið af stækkandi köku. Um það vitna staðreyndir. Og við tókum 4 milljarða til hliðar til að styrkja þessi kerfi enn frekar á þessu kjörtímabili. Enn er óráðstafað um fjórðungi þeirrar fjárhæðar en um að að ræða varanlega 4 milljarða hækkun á þessum lið almannatrygginga,# skrifar hann.
Bjarni nálgast ekki ástæður fjölgunarinnar og það hvort hann telji að einhverjir fari á bætur undir fölsku flaggi eða án þess að vera þess verðugir. Þá lýsir hann ekki í hverju mistök stjórnvalda felist. En hann hefur áhyggjur af því að ekki sé hægt að styðja þá sem virkilega þurfa þess nógu vel vegna fjölgunarinnar.
„Helsta áhyggjuefnið er að við munum ekki geta stutt nægilega við þá sem eru í mestri þörf ef við fáum sífellt hærra hlutfall landsmanna á örorku eða endurhæfingalífeyri. Eftir því sem þessi staða versnar dregur úr getu okkar til að standa myndarlega við bakið á þeim sem aldrei fengu tækifæri í lífinu eða urðu fyrir áföllum og þurfa á stuðningi að halda,“ skrifar fjármálaráðherra.