Róbert Trausti Árnason, fyrrverandi sendiherra, fréttastjóri og útvarpsþulur, lést á líknardeild Landspítalans 23. október síðastliðinn. Hann var 69 ára er hann lést.
Róbert Trausti fæddist í Reykjavík 24. apríl 1951. Hann útskrifaðist úr MR og lauk síðar BA-prófi frá Háskóla Íslands. Þaðan hélt hann í framhaldsnám til Kanada þar sem hann lauk mastersnámi í stjórnmálafræði.
Um skeið starfaði Róbert sem þulur hjá Ríkisútvarpinu og síðar á starfsævinni gegndi hann starfi fréttastjóra hjá Hringbraut. Þess á milli vann sem upplýsingafulltrúi Atlantshafsbandalagsins og síðar sinnti hann ýmsum verkefnum íslenskrar utanríkisþjónustu. Árið 1990 var hann skipaður sendiherra, síðar skrifstofustjóri varnarmálastkrifstofu og loks ráðuneytissjóri. Þá hélt hann aftur utan sem sendiherra og sinnti einnig um skeið embætti forsetaritara.
Frá hinu opinbera réði Róbert sig til Keflavíkurverktaka og starfaði í kjölfarið sem sérlegur erindreki Samtaka atvinnulífsins í Brussel. Í lokin tók hann við stöðu fréttastjóra. Róberti Trausta var sýndur margvíslegur sómi á starfsferli sínum, hann var meðal annars sæmdur stórkrossi Dannebrogsorðunnar árið 1996.
Eftirlifandi eiginkona Róberts Trausta er Klara Hilmarsdóttir guðfræðingur. Synir Klöru eru þeirKristján Þórðarson og Hilmar Þórðarson. Útför hans fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 9. nóvember næstkomandi kl. 13. Streymt verður frá athöfninni.