Stærsta hönnunarhátíð landsins færist fram í maí 2021.
„Við vitum hvorki hvað framtíðin ber í skauti sér né hvernig hátíðarhald verður en ljóst er að alltaf verður þörf á samtalinu. Því ber okkur skylda að halda ótrauð áfram,“ segir Þórey Einarsdóttir, stjórnandi HönnunarMars, um þá ákvörðun stjórnar að færa hátíðina fram í maí á næsta ári.
Ákvörðunin tekur bæði mið af yfirstandandi heimsfaraldri og óvissunni sem honum fylgir en einnig góðum viðtökum bæði þátttakenda og gesta við HönnunarMars sem fór fram dagana 24.-28. júní á þessu ári, þegar um 80 sýningar og 100 viðburðir tengdir hátíðinni breiddu úr sér á höfuðborgarsvæðinu. Fram að því var hefð fyrir því að halda hátíðina í mars á hverju ári, rétt eins og heitið HönnunarMars gefur til kynna, en hið óvenjulega ástand í ár varð til þess að hún var færð fram í júní.
Þórey minnir á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem óvenjulegar aðstæður blasi við í þjóðfélaginu. Til marks um það sé HönnunarMars 12 ára hátíð sem hafi fæðst í miðju hruni og hafi frá upphafi verið boðberi bjartsýni, nýsköpunar og nýrra leiða.
„Hátíðin mun halda áfram að koma inn með krafti, veita innblástur og gleði ásamt að varpa ljósi þann kraumandi skapandi kraft sem hönnunarsamfélagið hér á landi hefur að geyma,“ segir hún. „Það eru bjartari tímar fram undan, HönnunarMars 2021 verður með nýju sniði í takt við nýja tíma.“
HönnunarMars 20201 fer fram dagana 19-23. maí. Opnað verður fyrir umsóknir þátttakenda mánudaginn 2. nóvember næstkomandi og lýkur þann 30. nóvember.
Nánar á heimasíðu HönnunarMars.