Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-5.2 C
Reykjavik

Steinunn yfirlæknir segir heilbrigðisstarfsfólk hafa lyft grettistaki – Svona er staðan í dag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Nú standa fyrir dyrum hertar sóttvarnaraðgerðir í samfélaginu og maður verður var við þreytu hjá mörgum. Aftur er farið að bera á háværri umræðu um að Covid-19 sé með lægri dánartíðni en flensa, að það séu ekki svo margir innlagðir á spítala vegna veirunnar og að það væri jafnvel betra fyrir alla að hafa samfélagið opnara og leyfa veirunni að dreifa sér. Ég held að marga þeirra sem viðra þessar skoðanir skorti innsýn í þann veruleika sem við starfsfólk Landspítala stöndum frammi fyrir þessa dagana og því vil ég gjarnan veita þá innsýn.“

Svo hefst pistill eftir Steinunni Þórðardóttur, yfirlækni öldrunarlækningadeildar Landspítalans. Hún segir allt tal um að COVID sé ekki svo hættulegt skelfilega óábyrgt tal. Eina ástæðan fyrir því að dauðsföll séu ekki fleiri sé grettistak heilbrigðiskerfisins og starfsmanna þess. Hún segir að sé Landspítalinn gífurlega viðkvæmur um þessar mundir.

„Á Landspítala í Fossvogi eru fjórar lyflækningadeildir, bráðalyflækningadeild, smitsjúkdómadeild, lungnadeild og gigtardeild, auk öldrunarlækningadeildar, taugadeildar og skurðdeilda. Allt árið um kring eru þessar fjórar lyflækningadeildir fullar af sjúklingum með tilheyrandi vandamál, alvarlega smitsjúkdóma, lungnasjúkdóma o.sv.fr. Eins og staðan er í dag eru bæði smitsjúkdómadeildin og lungnadeildin fullar af sjúklingum með Covid-19. Þetta eru sjúklingar sem eru það veikir að þeir þurfa sannarlega á sjúkrahúsinnlögn að halda og þurfa mikla þjónustu,“ segir Steinunn.

Hún segir starfsfólk hafa miklar áhyggjur af því að smitast sjálft. „Öll verk á þessum deildum eru þyngri í vöfum en venjulega vegna sóttvarna, þ.m.t. klæðnarar í og úr hlífðarfötum. Eins býr starfsfólk við áhyggjur af því að smitast sjálft og verða jafnvel alvarlega veikt, eða bera smit í aðra sjúklinga eða eigin fjölskyldumeðlimi. Veikindum sjúklinga með “venjuleg” vandamál sem alla jafna hefðu lagst inn á þessar deildir verður að sinna annars staðar, en það er gríðarleg áskorun. Þessar tvær heilu legudeildir fullar af Covid-19 veikum eru hrein viðbót við þegar yfirfullt sjúkrahús,“ segir Steinunn.

Hún segir stöðuna grafalvarlega. „Landakot er sjúkrahús sem sérhæfir sig m.a. í endurhæfingu aldraðra einstaklinga eftir bráð veikindi, meðhöndlun erfiðra einkenna tengdum heilabilunarsjúkdómum og heildrænu öldrunarmati. Á Landakoti eru 5 legudeildir og taka þær að staðaldri við miklum fjölda aldraðra einstaklinga af bráðadeildum spítalans og við það losna í sífellu pláss á bráðadeildunum fyrir nýja bráðveika sjúklinga. Nú eru 2 af þessum 5 deildum orðnar að Covid-19 deildum eingöngu og afgangur Landakots í sóttkví, sem stöðvar algjörlega innlagnir á Landakot og þ.a.l. flæði frá bráðadeildum. Eins og við vitum öll hefur þetta komið spítalanum á neyðarstig í fyrsta sinn, en það þýðir að staðan er grafalvarleg og ekki má neitt út af bregða,“ segir Steinunn.

Hún segir nánast ekkert ónæmi í samfélaginu fyrir þessari veiru. „Það að halda því fram að þetta sé á einhvern hátt eðlilegt ástand sem við getum siglt í gegnum án sóttvarnaraðgerða er fjarstæða hverjum þeim sem þekkir til innan spítalans. Ef Covid-19 veikum fjölgar að einhverju marki hvar á þá að opna næstu Covid-19 deild? Á gigtardeildinni? Taugadeildinni? Hvert fara þeir sjúklingar sem þar liggja alla jafna? Hvaða starsfólk á að sinna öllum þessum Covid-19 veiku sjúklingum, auk allra hinna sem spítalinn er venjulega fullur af? Við erum með nánast ekkert ónæmi á samfélaginu fyrir þessari veiru. Sé henni sleppt lausri munu mjög margir veikjast á mjög stuttum tíma og mjög margir þeirra þurfa aðkomu spítalans. Það er einfaldlega augljóst að það er ekki gerlegt,“ segir Steinunn.

- Auglýsing -

Það er bara ein ástæða fyrir því að dánartíðni vegna COVID sé ekki hærri að hennar sögn. „Ástæðan fyrir því að dánartíðni vegna Covid-19 er ekki hærri er einfaldlega sú að veiran hefur ekki breiðst út í samfélaginu á óstjórnlegan hátt vegna þeirra sóttvarnaraðgerða sem hafa verið viðhafðar. Og vegna þess grettistaks sem heilbrigðisstarfsfólk hefur lyft í faraldrinum. Þess vegna ræður kerfið við að sinna öllum þeim sem veikjast af Covid-19, auk allra hinna sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda af öðrum orsökum. En það er áskorun og það gerir miklar kröfur til heilbrigðisstarfsfólks og innviða kerfisins. Ef það dyndi á okkur holskefla af Covid-19 veikindum á skömmum tíma myndi annar og mun verri veruleiki blasa við okkur öllum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -