Páll Sævar Guðjónsson, vallarþulur Laugardalsvallar, oftast kallaður Röddin, kveður vin sinn, Björn Smára Sigurðsson, í fallegri færslu á Facebook. Það gerir systir Björns einnig í hjartnæmri minningargrein.
Björn fæddist í Hafnarfirði 18. september 1966. Hann starfaði hjá Eimskip alla sína starfsævi. Björn lést á gjörgæsludeild Landspítalans 19. október síðastliðinn og var jarðsunginn í Langholtsskirkju í gær. „Elsku vinur, ég þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér. Guð geymi þig og við sjáumst þó síðar verði í sumarlandinu,“ segir Páll.
Hjördís Rut Sigurðardóttir, systir Björns, minnist stóra bróður síns í minningargrein í Morgunblaðinu. Af þeim fjórum systkininum voru þau tvö lengst saman í foreldrahúsum. „Ég var alltaf stolt af stóra bróður mínum sem var bæði fallegur að innan og utan. Hann var einlægur og blátt áfram og maður vissi alltaf hvar maður hafði hann. Það var einn af hans stærstu kostum. Hann hafði hlýja og mjúka en samt sterka rödd og gaf þétt faðmlög sem ég á eftir að sakna mikið. Bjössi var mikið náttúrubarn og naut þess að standa við árbakka á veiðum, gjarnan við Brúará, með hundinn sinn meðferðis,“ segir Hjördís.
Systir Björns segir hann iðulega hafa verið midlan í garð bæði barna og dýra. „Einu sinni ætlaði ég að aðstoða hann með jólagjafir handa dætrunum og lagði til að það yrðu mjúkir pakkar, en nei – það þótti honum glatað! Gjafirnar áttu að vera eitthvað sem stelpurnar langaði í og það áttu að vera skemmtilegar gjafir. Mér þykir óraunverulegt að skrifa minningarorð um minn kæra bróður og geri það með sorg í hjarta. Ég heyri hláturinn hans og röddina í huganum og treysti því að þegar minn tími kemur taki Bjössi minn á móti mér opnum örmum. Með ást, þakklæti og kærleika kveð ég þig, elsku Bjössi, með orðunum sem þú kvaddir gjarnan með á kvöldin: Góða nótt og góða drauma!,“ segir Hjördís.