Sigurjón Magnús Egilsson ritstjóri minnist látnu kvikmyndastjörnunnar Sean Connery, sem þekktastur var fyrir hlutverkt sitt sem njósnari hans hátignar, James Bond. Þeir voru sundfélagar á Spáni fyrir nokkru.
Sean Connery, skoski leikarinn góðkunni, er látinn 90 ára að aldri. Sigurjón, eða Sme eins og hann er oft kallaður, rifjar um þegar þeir hittust á Mallorca. Þá hélt ristjórinn að kvikmyndaleikarinn væri í vanda og hélt honum til bjargar. „Mætti Sean Connery á sundi í Miðjarðarhafinu. Í fyrstu Mallorcaferðinni mættum við Janus Sean Connery á sundi í Miðjarðarhafinu. Ströndin sem við vorum við var innst í litlum firði. Aðeins utar við fjörðinn voru glæsihús glysfólksins. Utan við húsin voru seglbrettin geymd. Lágu við festar. Ég hafði keypt fínustu vindsæng og við feðgar fórum oft út í fjarðarmynnið. Janus var á dýnunni en ég fyrir utan og synti með henni. Á landstími sáum við tvo menn koma syndandi út frá stóru og fínu húsunum. Mér fannst sem þeir væru í vanda svo ég setti stefnuna að þeim. Í þann mund sem ég kom að þeim náðu þeir að einu brimbrettinu,“ ritar Sigurjón og bætir við:
„Og viti menn. Annar þeirra var njósnari hennar hátignar. Eða réttara sagt Sean Connery. Hann var hinn kurteisasti. Kastaði kveðju á okkur feðga og gat til kynna að allt væri eins og það átti að vera. Við héldum áfram í land og þegar þangað var komið sögðum við hvern við hefðum hitt. Flestir sögðu okkur segja ósatt. Til hvers áttum við að gera það? En blessuð sé minning „sundfélaga“ okkar.“
„Mér fannst sem þeir væru í vanda svo ég setti stefnuna að þeim“
Connery sem varð níræður 25. ágúst, var þekktur fyrir hlutverk sitt sem fyrsti njósnari hennar hátignar, James Bond, en Connery lék hann í fyrstu fimm kvikmyndunum um kappann. Connery var aðlaður af Elísabetu II bretadrottningu árið 2000.
Connery var dáður af kvikmyndaunnendum um allan heim og átti langan og farsælan feril, á meðal marga mynda auk Bond myndanna má nefna Indiana Jones and the Last Crusade, The Man Who Would Be King og The Wind and the Lion. Árið 1988 fékk hann óskar fyrir besta leik í aukahlutverki fyrir The Untouchables.
Bjarni Dagur ritar ummæli undir færslu Sigurjóns á Facebook. Hann hitti kvikmyndastjörnuna á flugvelli í Svíþjóð. „Sean gekk fram hjá mér við barinn í flugstöðinni á Arlanda flugvelli í Stckhólmi árið 1979..- hann var þá að leika í kvikmynd í Svíþjóð. Með honum var öryggisvörður…- hann gekk hægt og virðulega..- með reisn. Hann hafði einstaka nærveru… í 15 sec.,“ segir Bjarni.
Jóhannes Reykdal hefur líka sögu að segja af kynni sínum og Connery. „Mætti honum á gangi í flugstöðinni í Genf einu sinni, var að koma af bílasýningunni í Genf þar sem kappinn hafði verið heiðursgestur í veislu á vegum Aston Martin. Hann var mjög kumpánlegur þarna á vappinu í flugstöðinn kastaði brosandi kveðju á fólk með sinni hljómmiklu rödd!,“ rifjar Jóhannes upp.