Einkaþjálfarinn Anna Victoria birti mynd á Instagram í vikunni sem hefur vakið talsverða athygli. Á myndinni setur hún saman tvær myndir, einni af afturenda sínum í eðlilegri stöðu og annarri af því sem hún kallar Instagram-afturenda.
Við myndina uppljóstrar hún sannleikanum um téða Instagram-afturenda.
„Eitt sem ég var mjög óörugg með þegar ég var að alast upp var rassinn á mér. Ég hef alltaf verið með lítinn rass og ég klæddist síðum bolum til að hylja hann. Eitt sem ég elska við fitness er að maður getur mótað líkamann á ýmsan hátt EN það eru takmörk fyrir því hvað maður getur byggt upp mikinn vöðvamassa í rassinum OG maður þarf að bugta sig og beygja til að sýna það,“ skrifar Anna.
Instagram-rassinn er ekki alvöru rassinn minn
Hún bætir við að margar myndir sem fólk sjái á Instagram af heilsugúrum séu ekki eðlilegar þar sem búið er að leika sér með sjónarhorn og stellingar.
„Búið er að spenna, ýta út og fetta upp á bakið svo mikið að það er sárt á mikið af Instagram-rassamyndunum sem þið sjáið,“ skrifar hún og heldur áfram.
„Það eru margar leiðir til að láta rassinn líta út tíu sinnum stærri á Instagram en í raun og veru og ég geri það líka! Ég elska að pósa og dást að Instagram-rassinum en það er ekki alvöru rassinn minn. Og ég er sátt við það.“
Hún endar pistilinn á hvatningarorðum.
„Fólk á alltaf eftir að hafa skoðanir á líkama þínum. Særa þær stundum? Já. En vitur kona sagði eitt sinn: Þú gætir verið með þroskuðustu og safaríkustu ferskju í heiminum en það verður alltaf einhver sem hatar ferskjur.“
Anna er mjög vinsæl á Instagram, einmitt vegna þess að hún er mjög hreinskilin og einlæg. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún tjáir sig um þá líkama sem við sjáum oft á samfélagsmiðlum. Í janúar í fyrra birti hún til dæmis mynd af stæltum kviðvöðvum sínum við hliðina á mynd af sér sitjandi, þar sem sást að hún var með magafellingar eins og flestir aðrir.