Raunveruleikastjarnan og hótelerfinginn Paris Hilton ku hafa týnt trúlofunarhring sínum, sem metinn er á tvær milljónir dollara, tæplega tvö hundruð milljónir króna, á dansgólfinu á næturklúbbi á Miami um helgina, samkvæmt frétt Page Six.
Betur fór en á horfðist, en Paris og unnusti hennar, Chris Zylka, þræddu næturklúbbinn með öryggisvörðum staðarins og fundu hringinn að lokum. Hafði hann lent í ísfötu á öðru borði.
Sagt er í frétt Page Six að Paris hafi hágrátið þegar hún fattaði að hringurinn væri horfinn en að Chris hafi verið mjög yfirvegaður á meðan á leitinni stóð.
Chris bað Paris fyrr á þessu ári og tilkynntu þau góðu fréttirnar á Instagram í janúar.
Tilvonandi hjónin eru yfir sig ástfangin en Paris lét hafa eftir sér í viðtali við Us Weekly fyrr í mánuðinum að barneignir væru hluti af framtíðarplönunum.
„Ég get ekki beðið eftir að eiga mína eigin dóttur einn daginn og klæða hana upp eins og mig. Það er tilgangur lífsins að eignast fjölskyldu. Og ég sé hve hamingjusama börnin gera systur mína, þannig að ég get ekki beðið eftir að upplifa það,” sagði Paris, en systir hennar, Nicky, á tvær dætur.