Margrét Friðriksdóttir, frumkvöðlafræðingur og stjórnandi Facebook-hópsins Stjórnmálaspjallið, fer mikinn á Facebook-síðu sinni í dag og mælir þar alls ekki með því að fólk leggi í bílastæðakjallarann á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún borgaði 2.054 kr. fyrir 2,5 tíma. Þetta kallar hún okur og segist skilja af hverju miðbærinn sé fallinn í vinsældum.
Ferlinu lýsir hún svona: ,,..þegar ég fór að greiða þá var gjaldið komið uppí rúmar 1000 kr. en svo þegar kom að því að borga og færðist yfir á posann þá hækkaði verðið um 50% og fór uppí 2054 kr. ég reyndi þá að fara til baka og gerði aftur en sama gerðist, verðið hækkaði um helming og ég gat ekki greitt öðruvísi.“
Margrét hafði svo samband við Bílastæðasjóð og þar var henni tjáð að stæðin séu í einkaeigu parka.is. Hún fer inná síðuna þeirra til að biðja um endurgreiðslu á þessu dularfulla 50% aukagjaldi en þar finnur hún hvergi símanúmer og fyrirtækið ekki skráð inni á já.is. Til að kóróna þetta allt saman valdi hún að fá kvittun fyrir greiðslu í tölvupósti sem svo aldrei barst.
„Svona okurstarfsemi finnst mér vafasöm, skil vel að miðbærinn er ekki eins vinsæll og hann var, verslanir keppast um að loka og Laugavegurinn er að verða eins og draugabær.“
Í athugasemdum undir færslunni taka nokkrir undir:
„Í þessum dýra bílastæðakjallara þurfa fatlaðir að borga fullt gjald þó þeir séu með merki í bílnum útgefið af Reykjavíkurborg um að þeir séu hreyfihamlaðir. Reykjavíkurborg hefur nánast útrýmt bílastæðum ofanjarðar í miðbæjar umhverfinu.“
„Svikamylla,“ segir önnur.