William Óðinn Lefever, frumkvöðull og sósugerðameistari, er neytandi vikunnar að þessu sinni. Óðinn býr á Djúpavogi ásamt konu sinni Gretu Mjöll Samúelsdóttur og þremur börnum. Óðinn og Greta settu á markað fyrstu heitu sósuna fyrir nokkrum árum og eru þær nú orðnar tvær; Bera og Dreki.
Óðinn lýsir sér sem tiltölulega hófsömum neytanda heilt yfir. Á sumum sviðum noti hann sennilega meira en meðalmaður en á öðrum minna. Þegar Óðinn fer í matvörubúðina spáir hann fyrst og fremst í gæði og úrval.
„Það er fátt meira svekkjandi en vörur í lélegu ástandi eða þegar eitthvað sem manni langar að versla er ekki til eða er búið.“
Hann segist hófsamari þegar kemur að fötum. „Ég gerði mér reyndar lítið fyrir og keypti mér tvennar gallabuxur og tvenna boli um daginn. Það var í fysta skipti sem ég keypti föt frá árinu 2017. Það gildir reyndar ekki um sokka, brækur og skó!“
Fjölskyldan leggur mikið í gjafir og þar gildir hugsunin fremur en hið efnislega. „Við erum dugleg að búa til okkar gjafir. Allskyns matarkyns, sápur og þess háttar. Slær alltaf í gegn. Svo reynir maður að forðast einnota plastleikföng fyrir barnaafmælin.“
Besta sparnaðarráð sem Óðinn hefur fengið og tileinkað sér er að gera matarplan fyrir vikuna og helst mánuðinn. „Þetta verður mikilvægara eftir því sem fjölskyldan stækkar. Það er ótrúlegt hvað innkaupakarfan nýtist markvissar ef þú veist hvað verður í matinn næstu daga.“
Óðinn segist reyna eftir bestu getu að leggja fyrir. „Við hjónaleysin erum reyndar búin að eignast 3 börn á undangengnum 5 árum þannig að skert innkoma út af fæðingarorlofi og öðru í þeim dúr hefur skrúfað að mestu fyrir sparnað.“
Húsgögn og aðra innanstokksmuni, taubleyjur og bíla eru meðal þess sem fjölskyldan kaupir notað. „Það má þó lengi betur um bæta og við reynum að tileinka okkur endurnýtingu og endurvinnslu eins og kostur gefst.“
En hvaða freistingar á Óðinn erfiðast með að standast?
„Mat. Ég er svoddan kruðari og nautnaseggur að mér er vart treystandi í matvörubúð.“
Hvaða ráð hefur Óðinn til annarra?
„Muna bara að maður er ekki það sem maður á.“