Bræðurnir Hallgrímur og Hörður kveðja föður sinn, Magnús Hallgrímsson, með fallegum minningarorðum þar sem þeir segjast ætla að feta nú í fótspor hinnar góðu fyrirmyndar sem faðir þeirra var í lifanda lífi. Magnús lést af völdum Covid-19 á Landakoti um nýliðna helgi.
Fögur minningarorð birta bræðurnir á Facebook. Þar segja þeir þungt að finna orðin til að lýsa þeim góða manni sem Magnús var. „Hann elsku Pabbi kvaddi okkur í gærkvöldi eftir stutta en harða orrustu í þeirri styrjöld sem veröldin á nú í við Covid 19. Það er þungt að finna orðin. Pabbi var mikil fyrirmynd. Hann var einhvern vegin alltaf réttu megin í lífinu. Fróður og vel lesinn. Gáfaður. Minnugur svo af bar. Vinmargur og mikill vinur vina sinna, mikill frændi sinna ættingja, Íslendingur, stoltur, úrræðagóður, fastur á sínum skoðunum, þrjóskur en afar réttsýnn, góður maður,“ segja bræðurnir.
Magnús var verkfræðingur að mennt og stundaði margvísleg verkfræðistörf hér á landi. Stærstan hluta starfsævinnar var hann við ýmis hjálparstörf erlendis. Hann starfrækti flóttamannabúðir og skipulagði neyðarhjálp á vegum Rauða krossins í Indónesíu, Eþíópíu, Erítreu, Jórdaníu, Írak og Aserbaídsjan. Einnig starfaði hann við friðargæslu og uppbyggingu innviða á vegum Sþ og NATO, bæði í Líbanon og í ríkjum gömlu Júgóslavíu.Hann lést á Landakoti síðastliðinn sunnudag, 88 ára að aldri.
Magnús var brautryðjandi í vetrarskíðaferðum um hálendi Íslands og félagi í Íslenska alpaklúbbnum. Hann var ævilangt skáti, einn af stofnendum Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri og sat í stjórn Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Hann sat um tíma í stjórn Landverndar og Vatnajökulsþjóðgarðs, og var varaformaður Jöklarannsóknarfélagsins um langt árabil. Þá kenndi hann lengi björgunarsveitum snjóflóðabjörgun og björgunartækni í frístundum.
„Alls staðar lagði Pabbi líf og sál í verkin svo eftir var tekið og aflaði sér nýrra vina“
Þá fékk Magnús fékk margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var meðal annars sæmdur gullmerki Bandalags íslenskra skáta, jöklastjörnu Jöklarannsóknarfélagsins, heiðursmerki Verkfræðingafélagsins, gullmerki Flugbjörgunarsveitarinnar og riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.
Þær bræður, Hallgrímur og Hörður, segja leiðina þó ekki alltaf hafa verið föður sínum greið. Hann hafi til að mynda sjálfur misst foreldra sína ungur að árum og glímt við ýmsa heilsubresti á þeim síðari. Uppgjöf hafi hins vegar aldrei verið til í orðabók Magnúsar. „Hann barðist til mennta með miklu harðfylgi eftir að missa foreldra sína ungur, var heilsulítill sem barn og síðustu áratugina lenti hann í hverri dýfunni af annarri með heilsuna og hjartað sitt. Stefnan var alltaf áfram og upp, hann gafst aldrei upp. Sálufélagann fann hann svo í Hlíf sinni, samband hans og Mömmu var afar fallegt, þau bættu hvert annað upp.“
Magnús lét verkin tala segja bræðurnir. Þeir segja föður sinn hafa verið frábæra fyrirmynd sem þeir komi til með að feta í fótspor. „Hjálparstarf árum saman við flóttamenn erlendis við erfiðustu aðstæður, björgunarstörfin hér heima, ferðalögin öll og leiðangrarnir, félagsstarf í ótal samtökum, Skátunum, Flugbjörgunarsveitinni, Jöklarannsóknafélaginu og Landvernd svo einhvað séu nefnt. Alls staðar lagði Pabbi líf og sál í verkin svo eftir var tekið og aflaði sér nýrra vina. Gamli baráttujaxlinn sigraði margar orrusturnar í sínu lífi, við erfiðleika og heilsubrest, ekki síst barðist hann við að bjarga og bæta líf annarra erlendis og hér heima. En þar kom að ekki var sigrast á andstæðingnum. Pabbi er fallinn. Okkar er að feta í fótspor fyrirmyndarinnar góðu,“ segja Hallgrímur og Hörður.