Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Fulltrúi húsmæðra við bókarskrifin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Silja Dögg Gunnarsdóttir alþingismaður er einn fjögurra höfunda bókarinnar Íslenskir matþörungar, sem kom út fyrir skömmu. Hún segist upphaflega hafa ætlað sér að þýða erlenda bók um þörunga, en sú hugmynd hafi þróast yfir í að frumsemja bók út frá íslenskum aðstæðum. Auk Silju Daggar eru höfundar bókarinnar þau Eydís Mary Jónsdóttir, Hinrik Carl Ellertsson og Karl Petersson og Silja segir samstarfið við þau hafa verið stórkostlegt og opnað sér nýja sýn á þessa ofurfæðu sem þörungarnir séu.

Silja Dögg ólst upp í Njarðvík og býr þar enn þannig að það þarf ekki langan göngutúr til að komast í fjöruna og viða að sér þörungum. Áður en við ræðum þörungaáhuga hennar langar mig þó að fræðast örlítið um bakgrunn hennar og hvernig leið hennar lá á Alþingi, þar sem hún hefur setið sem þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi síðan 2013. Meðfram þingmennskunni árin 2015 til 2017stundaði Silja Dögg fjarnám í alþjóðaviðskiptum við Háskólann á Bifröst.

„Ég ólst upp í Njarðvík, já,“ staðfestir Silja Dögg. „En þegar kom að því að velja menntaskóla greip ævintýraþráin mig og vinkonu mína og við fórum í Menntaskólann á Akureyri. Eftir það lá leiðin í sagnfræðinám í Háskóla Íslands og síðan vann ég alls konar störf í nokkur ár, meðal annars sem blaðamaður, og svo fór ég inn á þing þarna 2013.“

Hvernig stóð á því að þú fórst út í pólitík? Er það spennandi starfsvettvangur?

„Já, mér finnst það,“ segir Silja Dögg ákveðin. „Það er dálítið svipað og að vera blaðamaður; maður er í upplýsingaöflun og að setja sig í samband við fólk til að safna upplýsingum og fá hugmyndir að málum sem maður vill koma áleiðis í stjórnsýslunni. Sem blaðamaður er maður að miðla upplýsingunum en þegar maður er orðinn þingmaður getur maður komið málum í ferli sem leiða til framkvæmda þannig að eitthvað breytist og samfélagið verði aðeins betra en það er. Það er auðvitað hvatinn, að láta eitthvað gott af sér leiða.“

Silja Dögg flutti aftur í Njarðvík árið 2007, eftir tveggja ára búsetu á Spáni. Hvað var hún að gera þar?

- Auglýsing -

„Ég og maðurinn minn vorum eiginlega bara að leita að ævintýrum,“ segir hún og hlær. „Maðurinn minn hafði lent í slysi og náði sér ekki almennilega þrátt fyrir tveggja ára endurhæfingu þannig að við fórum til Spánar til að breyta til og komast í betra loftslag, sinna heilsunni og læra spænsku, en það hafði verið gamall draumur hjá okkur báðum löngu áður en við kynntumst.“

Var ekkert erfitt að koma aftur í rokið á Suðurnesjunum eftir tvö ár í blíðunni á Spáni?

„Það var bara rosalega hressandi,“ segir Silja Dögg og brosir út að eyrum. „Eins og mér finnst gott að vera í hitanum þá verður maður leiður á sólinni þegar hún skín allan daginn alla daga. Auðvitað getur rokið orðið þreytandi, sérstaklega í öllu myrkrinu á veturna, en það hefur allt sína kosti. Alla vega fáum við ekki lúsmý hérna á Suðurnesjunum, það fýkur bara út á sjó,“ bætir hún við og skellir upp úr.

- Auglýsing -

60 Minutes kveiktu hugmyndina

Að fengnum þessum upplýsingum er komið að máli málanna; bókinni Íslenskir matþörungar. Hver var aðdragandinn að því að Silja tók þátt í að koma henni á koppinn? Ólst hún upp við það að leggja sér þörunga til munns?

„Nei, reyndar ekki,“ viðurkennir hún. „En ég, eins og svo margir aðrir, bý við fjöruna og hélt mikið til þar þegar ég var krakki. Ég hef haldið því áfram eftir að ég varð eldri, geng mikið um fjöruna hérna í grennd við húsið mitt. Fyrir nokkrum árum þá fór ég að kynnast þörungum aðeins betur, bæði í gegnum manninn minn sem er áhugamaður um málið og svo auðvitað mágkonu mína, Eydísi Mary, sem skrifaði bókina með mér. Hún starfaði við það í nokkur sumur að kortleggja fjörunytjar og skrifaði um það á sínum tíma fyrir Náttúrustofu Suðurnesja. Hún hafði margoft gefið mér að smakka alls kyns útfærslur á djúpsteiktum þara og hún notar líka söl mikið sem krydd. Ég hafði sem sé lengi haft áhuga á þessu málefni og eftir að ég horfði á þátt af 60 Minutes fyrir rúmum tveimur árum, þar sem var verið að fjalla um sjávarræktun í Norður-Ameríku, varð ekki aftur snúið.

„En ég, eins og svo margir aðrir, bý við fjöruna og hélt mikið til þar þegar ég var krakki. Ég hef haldið því áfram eftir að ég varð eldri, geng mikið um fjöruna hérna í grennd við húsið mitt.“

Í þættinum var líka tekið viðtal við mann sem hafði skrifað matreiðslubók með þörungaréttum og ég pantaði bókina strax á Amazon eftir áhorfið. Svo las ég hana og ég hugsaði með mér að mig langaði til að þýða hana þar sem það hafði aldrei komið út svona bók á íslensku. Ég ræddi þá hugmynd við Eydísi og hún sagði strax að við skyldum bara skrifa bók sjálfar. Það varð úr að ég fékk gögn frá henni, við fórum að sanka að okkur meira efni og ég fór að vinna úr því. Við höfðum svo samband við Hinrik, sem var strax til í þetta verkefni og benti okkur á Karl ljósmyndara, sem er líka matreiðslumaður, og var líka til í þetta. Við vorum alveg viss um að þetta væri efni sem margir hefðu áhuga á, ekki bara mataráhugafólk heldur snýr þetta líka að þeim lífsstíl að borða frekar það sem vex nær okkur. Auk þess eru þörungar gríðarlega næringarrík og heilnæm fæða, en ekki nóg með það heldur kemur þetta líka inn á loftslagsmálin sem eru auðvitað mál málanna í dag. Þörungar framleiða gríðarlega mikið súrefni, alla vega helminginn af súrefni í heiminum sem er nokkuð sem margir vita ekki af. Við komum aðeins inn á það í bókinni líka, þótt áherslan sé á þörunga sem næringarríka fæðu.“

Mikilvægt að gefa sér tíma til að elda

Silja leggur áherslu á að hún sé enginn sérfræðingur hvað varðar þörungana, en hún segist sjá það sem leikmaður að í þörungavinnslu og -nýtingu felist mjög spennandi tækifæri á mörgum sviðum. Spurð hvort teymið ætli að halda áfram á þessari braut segir hún að það séu ýmsar hugmyndir í gangi innan hópsins.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Við erum með hóp á Facebook sem heitir Íslenskir matþörungar og þar er sett inn alls konar efni, bæði upplýsingar um ferðir og námskeið og ýmiss fróðleikur um þörunga,“ upplýsir hún. „Ég geri ráð fyrir því að Hinrik og Eydís muni í framhaldinu bjóða upp á námskeið fyrir áhugasama en ég veit nú ekki hvort við gefum út fleiri bækur. Við sjáum til hvernig þessi gengur og svo kemur það bara í ljós. Við höfum hins vegar mjög mikinn áhuga á því að koma bókinni út á fleiri tungumálum, vegna þess að þessir átta matþörungar sem við einblínum dálítið á í bókinni vaxa bæði við Norðurlöndin, Bretland og Norður-Ameríku þannig að við sjáum fyrir okkur að sækja á markaðinn í þeim löndum sem allra fyrst. Ég held að það sé mikill markaður fyrir svona umfjöllun.“

Hvað með þig sjálfa, ertu mikil áhugamanneskja um matreiðslu?

„Já, en ég er náttúrlega ekki svona svakalega fær eins og Hinrik, hann er algjör meistari, ég kemst ekki í hálfkvisti við hann,“ segir hún og hlær aftur. „Ég er svona þessi venjulega húsmóðir í Njarðvíkunum, hef mjög gaman af því að elda góðan mat og legg upp úr því að hafa góðan og næringarríkan mat handa mínu fólki. Það má segja að ég sé fulltrúi hinnar íslensku húsmóður í þessu verkefni.“

Hefur alþingismaður einhvern tíma til þess að vera kominn heim til þess að elda mat handa fjölskyldunni?

„Ekki alltaf, því miður,“ staðfestir Silja. „En það er alveg nauðsynlegt að gefa sér tíma til að elda góðan mat heima og ég reyni það eftir bestu getu. Ég finn að þegar ég kemst ekki til þess í marga daga í röð þá er það slæmt bæði fyrir mig og fjölskylduna. Maðurinn minn er ágætur kokkur en hann er ekki eins góður og ég. Þannig að það er mjög ofarlega á listanum yfir forgangsverkefni að nýta þann tíma sem gefst til að hlúa að fjölskyldunni. Og alltaf þegar ég get gef ég mér tíma til að fara niður í fjöru, enda er það gott fyrir andann og líkamann að vera í námunda við sjóinn, ekki síður en að afla og borða góðan mat. Það verður að halda einhverju jafnvægi á þessu öllu saman og þörungatínslan uppfyllir öll þessi skilyrði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -