Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Nokkuð viss um að eitthvað grunsamlegt hafi gerst þótt ég geti ekki staðfest það með neinum hætti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þrátt fyrir ungan aldur hefur margt misjafnlega þroskandi drifið á mína daga. Eitt þessara atvika stendur fremur fast í mér, enda ekki skrýtið. Ég fór út að skemmta mér með vinkonum en af einhverjum ástæðum hefur stór hluti kvöldsins gersamlega þurrkast úr minni mínu. Ég var ekki drukkin þetta kvöld og skil ekki enn hvað veldur. Það versta er þó að opinberir aðilar sem að máli mínu komu hafa sýnt mér mikla lítilsvirðingu.

Helgi eina í ágúst síðastliðnum hélt ég á djammið með vinkonum mínum. Fram undan var skemmtilegt kvöld í góðra vina hópi. Við byrjuðum á að fara á ónefndan skemmtistað, fórum á barinn og fengum okkur að drekka, og fundum okkur síðan borð á neðri hæð staðarins. Fín stemmning var í hópnum, enda ekki annað hægt, gott veður og engin ástæða til að vera í vondu skapi. Við ákváðum nú að fara aðeins út á dansgólfið áður en við færum að færa okkur á aðra skemmtistaði og dönsuðum í dágóða stund, fengum okkur síðan einn bjór á barnum, settum hann í plastglas og gengum út.

Þegar komið var að næsta skemmtistað kom upp svolítið vandamál. Ég var ekki með skilríki og reyndar hinar stelpurnar ekki heldur en þær komust allar inn en ég stóð ein eftir fyrir utan, ofurlítið kennd innan um fullt af drukknu og leiðinlegu fólki. Jæja, ég var nú ekkert að sýta það heldur ákvað bara að hringja í vin minn og fá hann til að sækja mig og koma með mér heim til tveggja annarra vina okkar. Það var auðsótt og þegar til vinanna var komið fengum við okkur pítsu, sátum á veröndinni og spjölluðum í dágóða stund. Brátt fann ég að ég var orðin þreytt og taldi því að tími væri kominn til að fara heim og sofa eitthvert vit í kollinn á mér. Ég og einn þessara vina minna pöntuðum okkur leigubíl sem keyrði hann fyrst heim til sín þar sem hann borgaði það sem komið var á mælinn og svo var haldið af stað heim til mín.

Finnst ein á ráfi í Hafnarfirði

Eftir þetta er eins og einhver hafi klippt atburðarásina úr hausnum á mér. Ég man ekki nokkurn skapaðan hlut. Eftir miklar eftirgrennslanir er það eina sem ég hef getað fundið út og vitað er um ferðir mínar eftir þetta að ég kom heim til mín eitthvað eftir hálfsjö um morguninn, skipti um föt og gerði eitthvað fleira sem var flest heimskulegt. Síðan gekk ég út og tók leigubíl suður í Hafnarfjörð. Þar er ég nokkuð viss um að eitthvað grunsamlegt hafi gerst þótt ég geti ekki staðfest það með neinum hætti því næst þegar ég vissi af mér var ég uppi á spítala þar sem verið var að keyra mig í sjúkrarúmi úr rannsókn hjá Neyðarmóttökunni.

Sú rannsókn leiddi í ljós klamydíusmit sem ég kann enga aðra skýringu á en þá að eitthvað hafi nú gengið á þetta kvöld. Vanlíðan minni yfir því að vita ekki hvað gerðist verður ekki með orðum lýst og því hafði ég samband við þá sem ég hafði stundað kynlíf með fyrir atburðinn og þeir voru lausir við smitið. Sú staðreynd að ég man ekki neitt frá þessu kvöldi gerir það að verkum að ég gæti eins verið að skrifa niður frásögn einhverrar vinkonu minnar eins og að segja ykkur frá atburðum sem hentu sjálfa mig. Því miður er ekki svo.

„Eftir þetta er eins og einhver hafi klippt atburðarásina úr hausnum á mér. Ég man ekki nokkurn skapaðan hlut.“

- Auglýsing -

Helsta ástæðan fyrir því að mig langaði til að deila þessu með ykkur er hins vegar sú að ég vil vekja athygli ykkar á því hvernig viðmót maður fær við aðstæður sem þessar. Næstu daga á eftir var ég að reyna að raða brotum kvöldsins saman í þeim tilgangi að fá einhverja heildarmynd á það og í þeirri von að eitthvað rifjaðist upp fyrir mér. Meðal annars talaði ég við vinkonu mína og mömmu hennar en ég hafði látið hringja í þær af sjúkrahúsinu. Sennilega hef ég kosið það fremur en að hringja í foreldra mína því þeim hefði getað brugðið illa. Þær gátu fyllt upp í atburðarrásina niður á spítala en þar lét ég víst eins og væri ég á lyfjum. Eiginlega er það eina skýringin sem ég kann á þessu öllu, að mér hljóti að hafa verið byrlað eitthvert eitur, því daginn eftir var ég svo fárveik að ég ældi stöðugt og í nokkra daga á eftir var ég mjög slöpp, lystarlítil og enn flökurt.

Ég hringdi einnig á bráðamóttöku Landspítalans til að fá að vita hvernig ég hefði komist þangað og hvers vegna. Á bráðamóttökunni varð fyrir svörum einhver sú dónalegasta kona sem ég hef nokkurn tíma talað við. Hún vildi litlar upplýsingar gefa en tilkynnti mér að lögreglan í Hafnarfirði hefði komið með mig. Ég reyndi að spyrja hana nánar út í þetta en í stað þess að veita mér einhver svör hreytti hún í mig að ég ætti að hafa samband við lögregluna í Hafnarfirði. Það var alveg sama hvers ég spurði, þetta var eina svarið sem hún gat gefið. Ég hélt þó að til væru lög í landinu sem segðu að sjúklingar ættu rétt á að fá allar þær upplýsingar sem í sjúkraskýrslum þeirra væri að finna.

Lögreglan sýndi ókurteisi og vanvirðingu

- Auglýsing -

Ég fór samt að ráðum þessarar konu því mér leið, eins og gefur að skilja, hryllilega yfir þessu öllu og þráði ekkert heitar en að fá einhvern botn í þetta mál. Ég hringdi í lögregluna í Hafnarfirði á þriðjudeginum eftir þessa umtöluðu helgi. Sá lögreglumaður sem hafði farið með mig á bráðamóttökuna var ekki við en ég lagði inn skilaboð og bað hann um að hringja til baka. Nokkrum klukkustundum síðar hringdi hann.

Allan tímann sem ég talaði við manninn leið mér eins og ég væri eitt það lítilfjörlegasta og viðbjóðslegasta kvikindi sem mannkynið hefði upp á að bjóða. Hann talaði eins og þetta væri allt mér að kenna og líklega væri vart við öðru að búast af manneskju eins og mér. Eftir að hafa sýnt mér frámunalega mikinn kulda og lítilsvirðingu endaði hann símtalið á að segja mér að þeir hefðu hætt rannsókn því þeir hefðu ekki haft á neinu að byggja. Hið eina sem þeir sáu athugavert var það að nærbuxurnar mínar voru horfnar. Ég spurði hann nánar út í þetta og vildi m.a. fá að vita hvort það gæfi eitthvað til kynna. Hann taldi greinilega að svo væri ekki því hann sagði að ég hefði trúlegast bara týnt þeim sjálf.

„Á bráðamóttökunni varð fyrir svörum einhver sú dónalegasta kona sem ég hef nokkurn tíma talað við. Hún vildi litlar upplýsingar gefa en tilkynnti mér að lögreglan í Hafnarfirði hefði komið með mig.“

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort líklegast sé ekki að ég hafi smitað mig sjálf af klamydíu. Flestir vita nú að það er ekki mjög auðvelt þar sem þar er um að ræða sjúkdóm sem smitast við kynmök. Augljóst er að eitthvað hefur gerst þessa nótt en hvað það var fæ ég sennilega aldrei að vita með neinni vissu. Sárast er þó að finna hversu mjög ég virðist hafa sett ofan í augum opinberra aðila við þetta. Engu er líkara en ég sé í þeirra augum þriðja flokks manneskja sem hvorki á skilið kurteisi né tillitssemi. Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu mikil reiði hefur safnast upp innan í mér vegna þessara atburða.

Trúlega verður reiðin alltaf til staðar. Mér finnst óskaplega sorglegt að menn sem koma að kynferðisbrotamálum geti leyft sér að vera svona ónærgætnir við fórnarlömbin. Ef ég hefði verið mun viðkvæmari en raunin er hefði ég hreinlega brotnað niður. Enn hefur ekkert rifjast upp fyrir mér af því sem gerðist þessa nótt og ég geri ekki ráð fyrir að það muni nokkru sinni verða ljóst. Ég mun hins vegar lengi enn þurfa að bera þessa byrði og það mun taka langan tíma að vinna úr þessari erfiðu reynslu.

Ég vil gjarnan benda lögreglu og öðrum opinberum aðilum sem koma að rannsókn kynferðisbrota á að þeir verði hreinlega að tileinka sér smá tillitssemi gagnvart fórnarlömbunum þó að málið byggi á litlum sönnunargögnum. Fordómar eru enn miklir gagnvart konum sem lenda í svona aðstæðum og tilhneigingin til að ákveða að þær hafi kallað þetta yfir sig rík. Það er ekki langt síðan klæðaburður kvenna var talinn geta haft áhrif á nauðgarann og konan hreinlega byði upp á ofbeldi með flegnum peysum eða stuttum pilsum. Nú á dögum eru þeir til sem telja að konur sem neyti áfengis geti sjálfum sér um kennt þegar eitthvað voðalegt hendir þær. Samfélagið verður hins vegar að læra að ofbeldi er aldrei afsakanlegt og sá sem beitir ofbeldi er alltaf ábyrgur gerða sinna.

Hægt er að hlusta á Lífsreynslusögur Vikunnar á Storytel. Guðrún Óla Jónsdóttir, Gógó, blaðamaður hjá Vikunni, les upp lífsreynslusögur sem sendar hafa verið inn í blaðið í gegnum tíðina og sögurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar. Ekki missa af því þegar nýr þáttur af Lífsreynslusögum fer í loftið í viku hverri – fylgstu með okkur á Facebook.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -