Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Gæti skapað gríðarleg verðmæti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta var eitthvað sem okkur langaði til að gera. Og þetta hefur verið skemmtilegt ferli, krefjandi og virkilega lærdómsríkt,“ segja fata- og textílhönnuðurnir Aníta Hirlekar og Magnea Einarsdóttir, sem ákváðu að flytja alla framleiðslu á hönnunarvöru sinni til Íslands. Þær eru sammála um að því fylgi ákveðnar áskoranir að vera með framleiðsluna hér heima en á heildina litið séu kostirnir við þetta fleiri og ákvörðunin hafi því óneitanlega borgað sig, ekki síst eftir að COVID-faraldurinn brast á og setti allt á hvolf í heiminum.

Magnea Einarsdóttir hannar undir merkinu MAGNEA. Mynd / Saga Sig

„Maður fær tækifæri til að standa nær vörunni, sem hefur mikla kosti i för með sér. Maður getur fylgst betur með,“ segir Magnea þegar blaðamaður byrjar samtalið á því að spyrja hvaða kosti framleiðslan á Íslandi hafi beinlínis umfram framleiðslu úti í heimi.

„Já, hér heima hefur maður miklu meiri yfirsýn á allt framleiðsluferlið,“ samsinnir Anita. „Alveg frá því að varan er á hönnunarstigi og þar til viðskiptavinurinn fær hana í hendurnar.“

Spurðar hvers vegna þær hafi upphaflega tekið ákvörðun um að flytja framleiðsluna heim til Íslands segjast þær hafa gert það meðal annars með það fyrir augum að geta boðið upp á sjálfbærari og umhverfisvænni vöru.

„Það þýðir ekki að setja öll eggin í sömu körfuna, eins og ástandið hefur kennt okkur á þessu ári.“ – Magnea

„Ég hef alltaf unnið með íslenska ull að einhverju leyti og verið að prófa mig áfram með hana. Í fyrra fékk ég styrk til að þróa yfirhafnir úr ull og ákvað að gera það bara hér frekar en að vera að senda ullina út. Konseptið tengist umhverfisvernd og sjálfbærni. Að bjóða upp á vörur með lágmarks kolvetnaspor. Ein flík getur nefnilega farið marga hringi í kringum jörðina áður en hún kemst frá hönnuði til notanda. Ég hef því verið að vekja athygli á þvi að allt ferlið eigi sér stað í Reykjavík, alveg frá því að ég vel efnið í flíkina og þar til hún fer í framleiðslu. Eina ferðalagð sem flíkin fer í er frá mér til neytenda,“ segir Magnea.

Anita Hirlekar hannar undir merkinu ANITA HIRLEKAR. Mynd / Saga Sig

Anita kinkar kolli. „Ég er textílhönnuður líka og bjó til mín efni sjálf, þar sem ég hef alltaf verið svona svolítil „do-it-yourself“-týpa. Og ég fór að framleiða hér á Íslandi af því allt sem ég geri er handgert og ég vildi bara ekki fara að framleiða mörg eintök af hverri vöru. Þetta snýst líka um fatasóun,“ segir hún.

- Auglýsing -

Ýmislegt komið í ljós

Í því samhengi nefnir Magnea að þegar framleiðsla fari fram úti þurfi hönnuðir að láta senda sér prufur og prótótýpur og oft séu þær fyrstu sem berast vitlausar. „Þá þarf að gera þær upp á nýtt og senda aftur á milli landa sem er tímafrekt, kostnaðarsamt og mengandi. Að vinna vöruna hér heima kemur klárlega í veg fyrir svoleiðis tvíverknað og það sparar líka heilmikinn tíma og pening að geta bara brugðið sér út í verksmiðju ef svo ber undir. Svo er mjög gaman að geta hitt á framleiðandann, geta unnið nánar með honum, verið inni á gólfi og séð vöruna framleidda. Aðalatriðið samt er að þetta er sjálfbærara og umhvefisvænna.“

Að sögn Anitu hefur nýja fyrirkomulagið meira að segja hafi orðið til þess að hún hefur gert breytingar á hönnun sinni. „Þegar ég sá til dæmis hversu mikið efni fór til spillis við gerð á einum kjól sem ég hannaði breytti ég honum í samráði við kjólameistarann til að laga það. Maður verður að hugsa um umhverfið. Þetta er hlutur sem maður áttar sig ekki á ef framleiðslan fer fram úti, því þá er hún ekki eins sýnileg hönnuðinum. Það hefur því verið lærdómsríkt og mikilvægt að vera svona mikið inni í öllu,“ segir hún.

- Auglýsing -
Lína Magneu kallast Made in Reykjavík og samanstendur af yfirhöfnum úr ull. Hún er framleidd Íslandi. Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir

Höfðar til erlendra viðskiptavina

Þær viðurkenna þó að það sé „ákveðið ferli“ að framleiða vöruna með þessum hætti. „Maður gerir þetta ekki bara einn, tveir og þrír. Maður þarf aðeins að þreifa sig áfram, byggja upp gott teymi í kringum sig þetta og finna efni sem uppfyllir gæðakröfur,“ lýsir Anita. „Það getur vissulega verið svolítið krefjandi á köflum.“

„En á heildina litið hefur þetta bara gengið nokkuð vel,“ segir Magnea og Anita tekur undir með henni.

Hikuðuð þið aldrei við að gera þetta? „Nei, þetta var eitthvað sem mig langaði til að prófa,“ svarar Magnea ákveðin. „Ég vill kanna möguleikana, hverjir þeir eru þegar maður vinnur með íslenskt hráefni.“

„Fólki finnst hönnunin spennandi og áhugavert að hún skuli ekki vera fjöldaframleidd.“ – Anita.

„Ég velti ákvörðuninni reyndar fyrir mér,“ segir Anita hins vegar. „Og ég játa að maður getur stundum orðið svolítið þreyttur á þessu fyrirkomulagi. En kostirnir eru margir eins og ég segi. Það er ég sem stýri ferðinni. Ég framleiði vöruna í takt við eftirspurn, þannig að það er aldrei offramboð af neinu, geri þetta á mínum hraða og vinn með góðu og hæfileikaríku fólki. Ég er með mikið af hugmyndum og nú hef ég frjálsari hendur til prófa mig áfram og prófa nýja stíla til að sjá hvað virkar og hvað fellur í kramið.“

Ný fatalínan eftir Anítu Hirlekar er hönnuð og framleidd á Íslandi. Mynd / Rut Sigurðardóttir

Og það eru ekki bara Anita og Magnea sem eru sáttar við að hafa tekið ákvörðun um að flytja framleiðsluna heim. Viðskiptavinirnir eru spenntir líka. „Kjólarnir mínir hafa til dæmis verið rosalega vinsælir úti og kúnnunum mínum erlendis þykir mjög merkilegt að þeir skuli vera hannaðir og framleiddir á Íslandi. Fólki finnst hönnunin spennandi og áhugavert að hún skuli ekki vera fjöldaframleidd,“ segir Anita.

„Tískuiðnaðurinn er auðvitað einn sá mest mengandi á heimsvísu,“ minnir Magnea á. „Hér heima getum við boðið upp á vöru sem er framleidd með umhverfisvænni aðferðum. Vöru sem stendur fyrir það.“

Covid-19 hafði minni áhrif en víða annars staðar

Blaðamanni liggur forvitni að vita hvort hafi ekkert COVID-19 sett strik í reikninginn. „Jú, jú, heimsfaraldurinn hægði auðvitað á öllu ferlinu. Allir eru svolítið að díla við það. Fólk hefur þurft að vinna meira heima. Það eru fjöldatakmarkanir í gangi sem hafa náttúrlega bitnað á vinnustöðum. Ég vinn sjálf með tveimur framleiðendum á Íslandi og þetta hefur alveg komið niður á þeim,“ segir Magnea.

„Þetta hefur samt ekki haft eins mikil áhrif á framleiðsluna hér og sums staðar úti í heimi,“ tekur Anita fram.

„Nei, það er einna helst að það taki aðeins lengri tíma að koma frá sér fullbúinni vöru,“ nefnir Magnea.

„Ég er líka bjartsýn á að íslensk hönnun blómstri, en til þess að það gerist verður fólk auðvitað að kaupa hana.“ – Magnea.

„Þó ekki þannig að það hafi orðið brjálæðislegar seinkanir á afhendingu á vöru eins og sums staðar erlendis. Maður hefur alveg fundið hvað maður er í góðri stöðu með að vera með framleiðsluna og vinnuna hér heima með hliðsjón af því og svo að geta gert hlutina bara á sínum forsendum og sínum hraða,“ segir Aníta.

Að sögn Magneu á itillinn Made in Reykjavík að vekja athygli á uppruna vörunnar. Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir

Magnea kinkar kolli. „Já, segja má að það sé viss lúxus að hafa flutt allt heim áður en faraldurinn skall á.“

Spurning um að taka skrefið

Hvað sem heimsfaraldrinum líður er ekki annað að heyra en að þær séu báðar bjartsýnar á framhaldið. „Já, ég er það. Annars væri ég ekki að þessu,“ segir Anita. „Og ég er bjartsýn fyrir hönd íslenskrar hönnunar. Það eru margir möguleikar í boði. Sem dæmi sáum við Magnea og fleiri ákveðið tækifæri í því að koma saman og opna aftur verslunina Kiosk, Kiosk Grandi. Fyrir mér er þetta spurning um að reyna að vera skapandi og vera vakandi fyrir tækifærum og standa saman. Þá held ég að okkur séu allir vegir færir,“ segir hún.

„Fyrir mér er þetta spurning um að reyna að vera skapandi og vera vakandi fyrir tækifærum og standa saman. Þá held ég að okkur séu allir vegir færir.“ – Anita.

„Ég er líka bjartsýn á að íslensk hönnun blómstri, en til þess að það gerist verður fólk auðvitað að kaupa hana. Markaðurinn verður að vera tilbúinn að styðja við þessa atvinnugrein. Við þurfum að byggja upp fjölbreyttari atvinnugreinar á Íslandi. Það þýðir ekki að setja öll eggin í sömu körfuna, eins og ástandið hefur kennt okkur á þessu ári,“ segir Magnea.

„Vandamálið er ekki að það skorti flotta og hæfileikaríka hönnuði á Íslandi, þvert á móti. Við þurfum hins vegar að fara með þessa grasrótarstemningu sem hefur einkennt hönnunarsenuna á Íslandi upp á næsta stig, enda sjáum við á nágrannalöndunum hvað skapandi greinar og tískuiðnurinn geta gefið af sér gríðarlega mikil verðmæti. Þetta er spurning um að taka skrefið.“

Viðskiptavinir Anitu erlendis finnst merkilegt að línun skuli vera hönnuð og framleidd á Íslandi. Mynd / Rut Sigurðardóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -