Neytendavakt man.is ákvað að slá á þráinn til Oddnýjar Önnu Björnsdóttur, hampbónda í Berufirði og framkvæmdastjóra Samtaka Smáframleiðanda matvæla og spyrja frétta. Það er alveg á hreinu að maður kemur ekki að tómum kofanum hjá henni Oddnýu enda þekkt baráttukona þegar kemur að úrbótum í landbúnaðarmálum og matvælaframleiðslu í landinu og er alltaf að vasast í einhverju spennandi því tengdu.
„Sæl og blessuð, jú það má endilega segja frá því að samtök Smáframleiðanda fögnuðu eins árs afmæli 5. nóvember,“ segir Oddný hress og kát í Berufirðinum.
„Þetta ár hefur verið viðburðaríkt og margt hefur áunnist. Félagsmönnum með fulla aðild hefur fjölgað jafnt og þétt, eru í dag ríflega 100. Að auki erum við með á fimmta tug félaga með aukaaðild.“
Það verður að teljast ansi gott. „Það er þvílík flóra af flottum matarfrumkvöðlum um land allt sem spanna allt litrófið. Við erum sífellt að rekast á nýja frumkvöðla með spennandi nýjungar.“
„Við gerðum einnig samstarfssamning við Kjörbúðina, en vinna honum tengdum hefst á næsta ári. Verkefnið gengur út á að gera staðbundnar vörur smáframleiðenda sýnilegri í verslunum þeirra og stuðla að því að þær vörur sem framleiddar eru á hverju svæði séu seldar í þeim verslunum. Fyrirmyndin tengist Cittaslow hreyfingunni á Djúpavogi. Í Kjörbúðinni þar margfaldaðist sala þeirra vara eftir að þær voru merktar sérstaklega og úrvalið aukið.“
„Við lítum björtum augum til framtíðar. Áhugi og eftirspurn eftir vörum smáframleiðenda eykst stöðugt sem og skilningur fólks á mikilvægi þeirra til að tryggja framþróun, fjölbreytni og fæðuöryggi í landinu.“
Neytendavaktin hvetur landsmenn til að gefa smáframleiðendum gaum í jólabrjálæðinu. Matarhandverk er bæði sniðugt í pakkana sem og á veisluborðið.