Tómas Guðbjartsson skurðlæknir minnist móður sinnar, Guðbjörgar Tómasdóttur kennara, sem lést á Landakoti með hjartahlýjum minningarorðum. Hún verður jarðsungin í dag frá Dómkirkjunni í Reykjavík.
Guðbjörg fæddist í Reykjavík 7. apríl 1942 og lést á Landakoti 30. október síðastliðinn. Á jóladag 1963 giftist Guðbjörg Guðbjarti Kristóferssyni kennara og bjuggu þau alla tíð á Grenimel í Reykjavík. Þau hjónin eignuðust þrjú börn, þau Tómas lækni, Hákon, doktor í rafmagnsverkfræði og Ingibjörgu lögmann.
Guðbjörg lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Hún lauk síðan almennuprókennaraprófi frá Kennaraskólanum og BA-prófi í dönsku og ensku frá Háskóla Íslands. Guðbjörg kenndi í Hagaskóla frá 1963 til 1977 og síðan í Verslunarskóla Íslands þar sem hún var við störf til 2005. Auk þess var Guðbjörg prófdómari í dönsku í fjölda ára bæði við grunnskólapróf og við stúdentspróf við Menntaskólann í Reykjavík og sat í ritnefnd Málfríðar, tímarits samtaka tungumálakennara. Eftir farsælan feril sem kennari vann Guðbjörg við afgreiðslu og móttöku gesta í Listasafni Íslands.
„Lífsspeki hennar var einföld; að sjá það besta og jákvæða í fari hverrar manneskju og aldrei heyrði ég hana hallmæla neinum eða dæma fólk“
Tómas minnist móður sinnar með fallegum orðum í minningargrein í Morgunblaðinu í dag. „Móðir mín varð hvíldinni fegin þegar hún skildi við á Landakoti eftir erfiða tveggja ára baráttu við snúinn sjúkdóm. Sem betur fer hafði hún fram að veikindunum verið heilsuhraust og átt góða og farsæla ævi, lengst af með föður minn, Guðbjart Kristófersson, sér við hlið. Þau reyndust samstíga í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur og bjuggu okkur systkinunum kærleiksríkt heimili á Grenimelnum í sannkölluðu fjölskylduhúsi. Samtals bjuggum við mamma undir sama þaki í 44 ár en forsenda þess var hversu náin við vorum og góðir vinir,“ segir Tómas.
Tómas segir það hafa verið forréttindi að alast upp á heimili tveggja kennara þar sem fróðleikur var í hávegum hafður og foreldrarnir báðir hvetjandi. „Þetta átti ekki síst við um tungumál og íslensku sem lágu svo vel fyrir mömmu, og hún sífellt að brýna fyrir okkur systkinum vandað mál. Hún hafði gaman af lestri góðra bóka en var einnig mjög listhneigð, sérstaklega þegar kom að klassískri tónlist og óperum. Eins og þeir sem heimsótt hafa heimili foreldra minna geta borið vott um, þá var hún mikill fagurkeri og hafði unun af fallegri hönnun. Auk þess var hún ávallt vel klædd og reisn yfir fasi hennar. Átti hún til að segja við mig: „Tommi minn, fátt er betra fyrir sálartetrið en að kaupa sér fallega flík“ – heilræði sem ég hef sennilega á stundum ofnotað,“ segir Tómas.
Tómas er viss um að þúsundir íslenskra nemenda geti vottað til um þann metnað sem Guðbjörg móðir sín lagði í starf sitt sem kennari. „Náði hún í störfum sínum sem kennari að rétta öðrum hjálparhönd – en utan vinnutíma var hún einnig óþreytandi að sinna ættingjum og vinum sem áttu um sárt að binda og alltaf úrræðagóð. Lífsspeki hennar var einföld; að sjá það besta og jákvæða í fari hverrar manneskju og aldrei heyrði ég hana hallmæla neinum eða dæma fólk, eða eins og æskuvinur minn komst að orði: „Guðbjörg var einfaldlega góð kona“ – sem eru eftirsóknarverð eftirmæli. Hvíl í friði elsku mamma,“ segir Tómas.
Útför Guðbjargar Tómasdóttur fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag kl. 13. Vegna aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir. Athöfninni verður streymt á hér.