Jón Ólafsson athafnamaður hefur lengi staðið í stormi sinnar tíðar. Hann varð fyrst þekktur sem eigani og forstjóri Skífunnar og gaf út hljómplötur með meiri hagnaði en flestir aðrir. Hann komst seinna í þær álnir að verða eigandi Stöðvar 2 og tengdra miðla. Jón var í ónáð yfirvalda á Íslandi. Málsmetandi menn þreyttust ekki á því að halda því á lofti að hann væri götustrákur úr Keflavík þar sem hann var þekktur sem Jón Bæjó, sem var stytting á bæjarvillingur. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafði sérstakt óþol gagnvart Jóni sem seldi allar sínar eigur á Íslandi og hélt í víking til Bretlands og stofnaði vatnsfyrirtæki. Nú er Jón á barmi þess að vinna sínn stærsta sigur í viðskiptalífinu, ef marka má Fréttablaðið. Fyrirtæki hans og Kristjáns Jónssonar, Icelandic Glacial stefnir í að verða stærsta vörumerki Íslands, ef marka má athafnamanninn sjálfan. Vatnsflöskur fyrirtækisins eru að hans sögn seldar til 28 landa. „Icelandic Glacial gæti orðið stærsta vörumerki Íslands,“ segir Jón við Fréttablaðið. Samkvæmt þessu verður bæjarvillingurinn úr Keflavik sá stærsti hérlendis, sannkallaður risi á vatnsmarkaði …