Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins er látinn. Hann lést á Landspítalanum í gær. Hann var 83 ára. Morgunblaðið greinir frá þessu.
Páll sat tæplega þrjátíu ár á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var kjörinn á þing árið 1974 en þar á undan var hann með búskap á Höllustöðum.
Páll var líklega mest áberandi í kringum aldarmót, en hann var félagsmálaráðherra frá árinu 1995 til 2003.
Páll átti þrjú börn með fyrrverandi eiginkonu, Helgu Ólafsdóttir: Kristínu sem er bóndi, Ólaf Pétur, prófessor við Háskóla Íslands, og Pál Gunnar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.
Hann lætur eftir sig eiginkonu, Sigrúnu Magnúsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra Framsóknarflokksins.
Dætur hennar og stjúpdætur Páls eru Sólveig Klara Káradóttir geðhjúkrunarfræðingur og Ragnhildur Þóra Káradóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Háskólann í Cambridge. Páll lætur eftir sig á þriðja tug barnabarna, stjúpbarnabarna og barnabarnabarna, að sögn Morgunblaðsins.