Drífa Snædal, forseti ASÍ, minnist Halldórs Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ, sem lést eftir stutt veikindi á Landspítalanum þann 18. nóvember síðastliðinn. Hann var 66 ára að aldri og lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn.
Drífa minnist Halldórs sem góðs félaga í verkalýðsbaráttunni og kærs vinar. Hún ritar falleg orð í færslu á Facebook. „Kær vinur og félagi Halldór Grönvold er fallinn frá og hefur hreyfingin okkar misst máttarstólpa og baráttumann. Framlag hans til bættra lífsgæða vinnandi fólks verður seint fullþakkað enda helgaði hann starfsævina baráttu fyrir betra lífi launafólks. Það er okkar að halda á lofti hans góða starfi og halda áfram að berjast gegn félagslegum undirboðum og launaþjófnaði, fyrir bættri menntun, fyrir jafnrétti og almannatryggingum og öllu öðru sem Halldór setti mark sitt á,“ segir Drífa.
Halldór helgaði verkalýðshreyfingunni starfsævi sína eftir að hann lauk námi á Englandi í vinnumarkaðsfræðum. Fyrst starfaði hann hjá Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík, og færði sig þaðan yfir til ASÍ. Þar gegndi hann fyrst stöðu skrifstofustjóra en lengst af sem aðstoðarframkvæmdastjóri sambandsins.
Halldór vann alla tíð ötullega að réttindum launafólks og beitti sér mjög í fræðslumálum innan verkalýðshreyfingarinnar. Á síðustu árum hefur Halldór sérstaklega beitt sér fyrir aðgerðum til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði.
„Það má fullyrða að fáir hafi haft eins mikil áhrif á mótun íslenska vinnumarkaðsmódelsins og Halldór. Hann var einlægur verkalýðssinni og jafnaðarmaður, traustur og góður félagi með yfirburðaþekkingu á vinnumarkaðsmálum. Óhætt er að segja að stórt skarð sé höggvið í raðir starfsmanna ASÍ, bæði sem hreyfingar og vinnustaðar, við fráfall Halldórs,“ segir í tilkynniningu frá ASÍ.
Eftirlifandi eiginkona Halldórs er Greta Baldursdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari. Þau eignuðust tvö börn.